Futsal, sú útgáfa af innanhússknattspyrnu sem FIFA samþykkir og er haldið heimsmeistaramót í Futsal, auk þess sem UEFA stendur fyrir Evrópukeppnum, bæði fyrir landslið og félagslið.
Uppruna Futsal má rekja aftur til 1930, til Montevideo í Uruguay, þegar Juan Carlos Ceriani upphugsaði 5 manna útgáfu af fótbolta fyrir yngri flokka keppni KFUM. Þessi útgáfa er spiluð á velli jafnstórum og handboltavelli án batta, hvort sem er innan- eða utanhúss.
Hugtakið FUTSAL er alþjóðlega nafn íþróttarinnar. Nafnið er upprunið af spænska eða portúgalska orðinu yfir „knattspyrnu”, FUTbol eða FUTebol, og franska eða spænska orðinu fyrir „innanhúss”, SALon eða SALa.
Oft er talað um Futsal sem „Five-A-Side” á ensku, eða fimm í hvoru liði. Um leið og Ceriani kom boltanum af stað, náði Futsal fljótlega vinsældum í Suður-Ameríku, þó sérstaklega í Brasilíu. Sú leikni sem þróast í þessari íþrótt má glögglega sjá á spilamennsku brasilíska landsliðsins í 11 manna bolta síðustu áratugina. Leikmenn eins og Pele, Zico, Socrates, Bebeto, Ronaldo, Ronaldinho og Robinho hófu allir sinn fótboltaferil í Futsal og öðluðust þannig sína leikni með boltann.
Fyrsta alþjóðlega Futsalmótið var haldið árið 1965, þegar Paraguay vann fyrsta Suður-Ameríkubikarinn. Keppt var um Suður-Ameríkubikarinn í Futsal sex sinnum í viðbót framtil 1979 og vann Brasilía allar þær keppnir.
Futsal hefur náð talsverðri útbreiðslu um heiminn, þó enn sé íþróttin ekki spiluð í öllum aðilarlöndum UEFA og FIFA, til að mynda hér á Íslandi. Þó er í burðarliðnum kynningarmót í Futsal sem fer fram í desember og janúar.
Árið 1989 tók FIFA svo yfir Futsal og samþykkti sem alþjóðlegu útgáfuna af innanhússknattspyrnu. Síðan þá hefur FIFA séð um heimsmeistarakeppni landsliða.
Futsal er íþrótt sem er sífellt að stækka og vinsældir hennar aukast dag frá degi. Gott dæmi um það er að fyrir fyrsta heimsmeistaramótið sem FIFA hélt í Futsal, árið 1992, sendu einungis 10 knattspyrnusambönd landslið sín í fyrstu undankeppnina. Einungis 14 árum síðar, árið 2006, sendu 40 knattspyrnusambönd landsmeistara sína í undankeppni UEFA Futsal keppninnar (samsvarar meistaradeild Evrópu í 11 manna boltanum). Þetta samsvarar 400% fjölgun í þátttöku.
Sífellt fleiri knattspyrnusambönd átta sig á þeim kostum sem fylgja því að notast við Futsal, boltaleikni er mun meiri en í utanhússfótboltaunum (11 manna boltanum) þar sem boltinn er þyngri og skoppar þar af leiðandi mun minna (allt að 30% minna). Reglurnar í Futsal eru þó ekki mjög frábrugðnar þeim sem eru í gildi núna hérlendis í innanhússknattspyrnu en ekki verður farið nánar í þær hér.
Futsal er enn frekar ung íþrótt í Evrópu en er á hraðri uppleið. Á hverju ári fjölgar í hópi þeirra landa sem taka Futsal uppá sína arma og senda lið inn í álfukeppnir eða landslið í undankeppni heimsmeistaramótsins í Futsal.
Eins og áður hefur komið fram hefur Knattspyrnusamband Íslands ákveðið að spilað verði eftir Futsal-knattspyrnulögunum næsta vetur í öllum flokkum. Það verður forvitnilegt að sjá hversu langan tíma það mun taka uns aukin boltaleikni skilar sér í yngri flokkana og upp í meistaraflokka í knattspyrnu utanhúss hérlendis.
Bestu kveðjur til allra Hugara.
Kveðja,