Mitt framlag í keppnina er umfjöllun um japanska strengjahljóðfærið Koto!
KOTO
Koto er upprunarlega kínverskt hljóðfæri sem kallaðist Cheng. Það barst til Japans með mönnum sem sendir voru til Kína á 7. og 8. öld í þeim tilgangi að kanna stjórnmál og menningu í Kína. Þeir komu til baka með þetta hljóðfæri og kölluðu það Koto. Fyrst í stað var það aðeins notað hjá aðalbornu fólki en síðar var það aðallega spilað af blindum tónlistarmönnum. Blindir tónlistarmenn voru reyndar þeir einu sem máttu spila Koto tónlist.
Saga Koto tónlistar hefur breyst mikið í gegnum aldirnar.
Yatsuhashi Kengyo (1614-1685) er sagður faðir nýtísku Kototónlistarinnar en það var hann sem gerði Koto að sóló-hljóðfæri. Hann var blindur. Hann samdi mörg af helstu koto-tónverkum sem enn eru spiluð og meðal þeirra helstu er Roku Dan (six variations). Með honum opnuðust möguleikar allra á að spila á Koto; bæði sjánadi og kvenkyns tónlistarmönnum.
Ikuta Kengyo (Kengyo var tekið sem nafn af mikils metnum Kotospilurum) var uppi á árunum 1666-1716. Hann sameinaði Koto tónlist við miklu vinsælli og umfangsmeiri tónlist, shamisen.
Annar blindur tónlistarmaður, öllu yngri en þeir Yatsuhashi og Ikuta Kengyo, var Michio Miyagi (1894-1956). Hann innleiddi kántrítónlist inn í þessa fornu japönsku tónlist. Eitt frægasta lag hans var samið fyrir Koto og bambusflautu og heitir Shakuachi. Seinna var það líka spilað á þverflautu eða fiðlu.
Isuzugawa (Isuzu-river) eftir Michio Miyagi
Þar sem flestallir koto-spilarar voru blindir eru engar nótur til af lögunum heldur lærðu þeir af hverjum öðrum. Hinsvegar voru strengirnir 13 nefndir og þeir 10 fyrst einfaldlega eftir tölunum 1-10 á japönsku. Enskumælandi fólk nefnir þá reyndar oftast eftir tölunum á sínu eigin máli.
Á japönsku heita þeir:
1. ichi
2. ni
3. san
4. shi
5. go
6. roku
7. shichi/nana
8. hachi
9. kyu
10. ju
11. to
12. i
13. kin
Koto í fullri stærð er um 180 cm á lengd og er búið til úr Paulownia viði. Það er holt að innan en á búknum eru 2 holur, hvor á sínum enda. Strengirnir eru festir á strengjastól sitthvoru megin en laus strengjastóll,ji, er á hverjum streng fyrir sig og hann er notaður bæði til að stilla hljóðfærið og svo til að lyfta strengjunum frá hljóðfærinu.
Strengirnir eru stilltir í pentatónískann tónstiga og hljóðfærið gefur oftast frá sér tón sem er hálftóni lægri en í hefðbundnum japönskum tónstiga. Þessir tónar virka oft mjög drungalegir.
“Gítarneglurnar” sem notaðar eru til að plokka strengina eru þrjár og kallast Tsume. Þær eru settar á þumalfingur, vísifingur og löngutöng hægri handar. Þær eru oftast gerðar úr fílabeini, tré eða nú til dags oftast úr plasti og eins og sjá má á myndunum hérna fyrir neðan eru til allir litir og gerðir.
Tónlistarmaðurinn getur notað vinstri hendina til að ýta strengjunum vinstra megin við ji og skapa þannig hærri eða lægri tóna. Hefðum samkvæmt situr hann á gólfinu á meðan hann spilar.
Til þess að tengja þetta allt saman við nútímann er rétt að nefna að heyra má í Toy-Koto (sem er smærri útgáfa af Koto) í laginu The Prophet’s Song með Queen af plötunni A Night At The Opera. Brian May, gítarleikara Queen var gefið þetta hljóðfæri af japönskum aðdáanda í kringum 1975 og hann féll fyrir því og spilaði það inn á næstu plötu. Passið bara að rugla því ekki saman við hörpuna sem hann spilar á í laginu líka. Ef þið eigið kost á að sjá DVD diskinn sem fylgir 20 ára afmælisútgáfu þessa sama disks þá getið þið séð hann spila, þó ekki rétt, á koto.
Myndir:
http://koto.home.att.net/images/kotoscott.jpg
http://www.asahi-net.or.jp/~NP5Y-HRUC/kt-body.jpeg
http://www.asahi-net.or.jp/~NP5Y-HRUC/kt-zinarabi.jpeg
http://elm.fukuyama.hiroshima-u.ac.jp/life5/koto.jpg
http://www.kotoworld.com/images/press/liz_koto.jpg
http://brianmay.com/brian/brianssb/pix/CIMG2997_690.jpg
http://brianmay.com/brian/brianssb/pix/koto-tsume.jpg
http://brianmay.com/brian/brianssb/pix/tsume2.jpg
http://brianmay.com/brian/brianssb/pix/tsume_clear_03.jpg
http://brianmay.com/brian/brianssb/pix/tsume_mini34_all.jpg
Heimildir:
http://www.asahi-net.or.jp/~NP5Y-HRUC/kt-what.html. cf.Wade, Bonnie C. “Tegotomono”,1976 Greenwood Press, Inc.
Höfundur ókunnur. http://koto.home.att.net/about.html 29.07.06.
Shadows will never see the sun