Margir hestamenn eru með mjög lélegt jafnvægi og háir það þeim oft. Sumir eru fæddir með gott jafnvægi og þurfa ekkert að hafa fyrir því að þjálfa það upp en hjá öðrum getur verið svoldið djúpt á því og þá getur verið gott að gera svokallaðar jafnvægisæfingar. Hérna ætla ég að reyna að lýsa nokkrum sniðugum sem geta kannski hjálpað einhverjum að auka sitt jafnvægi.

Í öllum af eftirfarandi æfingum þarf að hafa góðan og taugasterkan hest. Maður þarf að hafa einhvern til að hjálpa sér því að hesturinn er lónseraður á feti og brokki á meðan æfingarnar eru framkvæmdar. Ekki er hafður hnakkur á hestinum en gott getur verið að hafa gjörð á hestinum til að grípa í ef jafnvægið bregst alveg. Best er að byrja að gera æfingarnar í kyrrstöðu áður en farið er að gera þær á feti og brokki. Æfingarnar eru gerðar upp á báðar hendur.

1. Maður hoppar á bak (mjög gott að geta hoppað á bak berbakt) eða fær aðstoðarmanninn til að hjálpa sér á bak. Hesturinn er lónseraður (eins og áður kom fram). Fyrst er bara byrjað á því að sitja venjulega á feti og svo á brokki. Margir eiga fullt í fangi bara með það eitt. Mikilvægt er að hælarnir séu allaf neðsti punktur. Það er hægt að æfa sig í að hoppa á bak á hestinum þegar hann er á feti og svo þegar hann er á brokki ef maður vill.

2. Þegar það er orðið ekkert mál að sitja á feti og brokki þá er hægt að fara að firka sig yfir í æfingu sem kallast ,,mylla”. Sú æfing er þannig að maður situr fyrst venjulega og færir svo annann fótinn yfir makkann á hestinum þannig að maður situr á hlið. Svo færir maður hinn fótinn yfir lendina á hestinum þannig að maður situr öfugt á honum og svo koll af kolli þangað til að maður situr beint fram aftur. Þetta er æft í báðar áttir upp á báðar hendur. Þessi æfing er gerð í kyrrstöðu, á feti og á brokki.


3. Næsta æfing kallast ,,Fáni” eða ,,Hitler-hundur” (ekki spyrja mig afhverju). Maður fer upp á fjóra fætur og teygir svo aðra hendina fram og skástæðann fót aftur þannig að það sé alveg bein lína frá fingurgómum og aftur að hæl (það er meira en að segja það). Þetta er auðvitað gert með báðar ,,skástæðurnar”. (Þess má til gaman geta að við gerðum þessa æfingu oft í íþróttatímum í grunnskóla). Þessi æfing er gerð í kyrrstöðu, á feti og á brokki.

4. Þá er komið að æfingu sem heitir ,,Skæri”. Sú æfing hefur reynst mörgum erfið. Maður leggst fram á hálsinn á hestinum og setur fæturna upp á lendina á honum þannig að maður liggur bara á maganum á hestinum. Svo setur maður fæturna í kross og snýr sér snöggt við þannig að maður endar sitjandi í öfuga átt. (Svoldið erfitt að lýsa þessu). Svo leggst maður á bakið, setur fæturna aftur upp á lendina, setur þá í kross og snýr sér snöggt við þannig að maður endar aftur sitjandi fram. Þessa æfingu held ég að sé bara best að gera í kyrrstöðu og á feti nema maður sé alveg komin með hana á hreint, þá má fara að fikra sig upp á brokk með hana.

5. Þegar maður er kominn með mjög gott jafnvægi og er fær í flestann sjó er hérna ein æfing sem er felur einfaldlega í sér að standa á baki. Gott er að bregða taumi undir hálsinn á hestinum, smella honum saman og halda sér svo í hann. Þessi æfing er hættulegust af þessum öllum og mæli ég ekki með því að gera hana í lónseringu og ekki á brokki nema maður sé gríðarlega öruggur. Stórhættulegt ef að maður dettur aftur fyrir sig og því ætti enginn að vera að þessu ef hesturinn er ekki nógu traustur.


6. Að stíga brokk berbakt getur líka verið mjög góð æfing þó að það sé ekki ein af þessum blessuðu jafnvægisæfinum. Margir eru með lélegt jafnvægi einfaldlega af því að þeir eru ekki með fæturna undir þyngdinni. Þessi æfing er mjög góð til að bæta það. Maður stígur innri afturfót, eins og venjulega. Mikilvægt er að hælarnir séu neðsti punktur. Ef að stigið er rétt dragast fæturnir sjálfkrafa undir þyngdina og það ætti ekki að vera mikið mál að framkvæma þessa æfinu. Einnig er hægt að gera þessa æfingu ístaðslaust í hnakk og finnst mörgum það betra og gerir það nánast sama gagn og að gera hana berbakt. Ef fólki reynist erfitt að stíga svona berbakt eða án ístaða er hægt að nota hendurnar aðeins til að hjálpa sér að ýta sér upp, en samt verða fæturnir að gera meira en hendurnar því að annars er æfingin gagnslaus.

Ég hvet alla til að prófa þessar æfingar. Þær geta verið ótrúlega strembnar og maður dettur stundum af baki þegar þær eru gerðar á brokki, en það er bara gaman og maður reynir bara þangað til að maður getur gert þær. Munið bara að æfingin skapar meistarann og enginn verður óbarinn biskup:)