Ég tek því skýrt fram að þetta er tekið úr síðunni www.847.is. Þetta er ansi merkileg grein um hann Odd því varð ég að senda þetta inn.
,,Ef hrossaræktinni miðaði jafn hratt áfram og sumir kynbótafræðingar vilja vera láta, þá ætti ekki að vera lengur not fyrir hest eins og Odd frá Selfossi. Stóðhestar, sem komnir eru fast að tvítugu, ættu ekki – ef kynbótaframfarir væru ásættanlegar – að vera til framfara. Notkunartími einstakra stóðhesta þyrfti að vera miklu skemmri.
En veruleikinn er sá að við erum ekki lengra komin en svo að góðir stóðhestar geta hjálpað til alla ævi. Það er umhugsunarefni að í tilfelli Odds frá Selfossi er því þannig farið að ekki kom verulega góður stóðhestur undan honum fyrr en hann var orðinn vel fullorðinn. Það þykir ýmsum búvísindamanninum löng bið. En biðin eftir þessum eina hesti verður kannski vel þess virði. Það leiðir tími og reynsla í ljós.
Mér fannst margt mjög aðlaðandi við Odd þegar ég sá hann, fjögra vetra gamlan á fjórðungsmóti á Gaddstaðaflötum. Litfagur og viljugur, bráðflinkur á öllum gangi og frábærlega sýndur af eiganda sínum. Oddi var aldrei haldið í felum og hann sýndur oft og alltaf með prýðilegum árangri. Hann hækkaði stöðugt við hvern kynbótadóm og síðast þegar hann fór í einstaklingsdóm voru hæfileikatölur hans orðnar mjög háar. Hann er jafnvígur á allar gangtegundir og framúrskarandi geðslag og vilji hækkuðu tölurnar enn frekar. Þegar hann kom fram fram þarna á fjórðungsmóti, fjögra vetra, var skeiðið sá þáttur hæfileikanna sem lakastur þótti og mér er það minnisstætt að það var hverjum manni ljóst, sem horfði úr brekkunni að folinn var vel vakur, en þarna á staðnum og stundinni var hann ekki tilbúinn að sýna þá hlið sem seinna gaf honum hæstu tölurnar.
Oddur er í föðurætt af miklum vekringum kominn og því ekki skrýtið þótt hann skeiði. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að Odd prýðir margt af því eftirsóknarverðasta sem í íslenskum gæðingi má finna. Ég held að eitt af því eftirminnilegasta sem sá sem þessar línur párar, hefur séð úr áhorfendabrekkunni, hafi verið sýning á Oddi í tilraunakeppni sem komið var á laggirnar á Vindheimamelum 1993. Grein þessi, sem kallaðist “gæðingaíþróttakeppni” gekk út á að gefa knöpum nokkuð frjálsar hendur með sýningu á hestum sínum. Með þessu átti að auka á fjölbreytni og jafnvel að freista þess að sameina hestaíþróttakeppnina og gæðingakeppnina. Miðjan í hringvellinum hafði verið fyllt og völlurinn því allur undir, ekki bara hringurinn.
Það er skemmst frá því að segja að keppni þessi var hin mesta skemmtun og vakti vonir margra um að nú væri runninn upp tími breytinga. þarna sýndi Oddur frá Selfossi allar sýnar bestu hliðar; mýkt ,þjálni, vilja og mikla fjölhæfni á öllum gangtegundum. Hann sigraði í þessari keppni örugglega og er öllum afar minnisstæður sem á horfðu.
Af þessu tilefni mætti vekja upp umræðu um fjölbreyttari sýningarform á íslenska gæðingnum. Ef nokkurt hestakyn stendur undir fjölbreyttni á því sviði þá er það íslenski hesturinn. Nóg um það í bili.
Oddur kom síðan fram á landsmóti árið eftir og stóð sig með miklum sóma. Þar fylgdi hann móður sinni í afkvæmasýningu til fyrstu verðlauna. Ættarsamsetning Odds er talsvert merkileg fyrir þær sakir að í honum mætast tveir merkir ættstofnar, sá skagfirski og sá sunnlenski. Móðirætt Odds er af gömlum sunnlenskum stofni sem ekki hefur verið áberandi í hrossarækt hin síðari ár og er hann því verðugur merkisberi þess stofns. Hann fékk fljótt notkun og þegar fyrstu tryppin undan honum komu til dóms varð mönnum ljóst að hér var prýðilegur kynbótahestur á ferð. Þau virtust erfa margt af því besta sem frá föðurnum og voru fljót til.
Á landsmóti 1998 hlaut Oddur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi, þá ellefu vetra gamall og fylgdi honum hópur sem bauð af sér góðan þokka. Á landsmóti árið 2000 komu fram frábærar hryssur undan honum sem eru mörgum minnisstæðar. það skyggði nokkuð á ágæta frammistöðu hans að ekki komu til dóms verulega spennandi graðhestar undan honum og fannst sumum það vera veikleikamerki. En hryssurnar létu ekki á sér standa og margar þeirra eru, hreint út sagt, frábærar. Á eftirminnilegu landsmóti 2002 hlaut Oddur síðan heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og var vel að því kominn. Það sem hjálpað hefur mikið upp á góða frammistöðu Odds er vafalaust hversu vel hefur verið staðið að sýningum á honum, bæði sem einstaklingi og þegar kom að því að sýna hann með afkvæmum. Alltaf hefur væntumþykjan og virðingin fyrir hestinum setið í fyrirrúmi. Þennan hluta hefur oft skort á, þótt heldur hafi það batnað nú seinni árin. Á árum áður, þegar stóðhestar voru margir í eigu hrossaræktarsambanda voru ekki jafn miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og nú er og fagmennskan komin á hærra plan. Nú eru fjölmargir stóðhestar í einkaeign eða í eigu tiltölulega fárra sterkra aðila sem láta sér annt um þá. Það horfir nú allt til betri vegar.
Oddur frá Selfossi hefur hefur notið væntumþykju og lagt margt mjög gott til reiðhestaræktarinnar. Hann gefur fjölhæf, ganghrein og viljug afkvæmi. Eitt er það sem reikna verður honum til tekna og skal ekki vanmetið það er hversu góð áhrif hann hefur á litafjölbreytnina. Fyrir utan að gefa oft leirljósan lit þá virðist hann gefa mörg mjög falleg afbrigði af rauðu, blésóttu og glófextu. Úr áhorfendabrekkunni þá virðist mér sem Oddur ætli að reynast farsæll kynbótahestur, þótt hann komist tæpast í hóp þeirra sem munu marka dýpstu sporin í kynbótasöguna. Til þess skortir hann fleiri úrvals graðhesta í afkvæmahópinn. Hryssurnar eru, á hinn bóginn, margar afar góðar og þar mun Oddur skila okkur fram veginn.
Auk þess eru á keppnisbrautum fjöldi gæðinga undan honum og margir frístundahestamenn eru hamingjusamir eigendur litfagurra Oddssona og dætra. Og ekki er öll sagan sögð. Eins og allir hestamenn vita er ein skærasta stjarnan í flokki ungra stóðhesta sonur Odds og kannski er það bráðlæti að setja punktinn aftan við hans sögu. Lengi er von á einum."
Höfundur er VARI