Vildi bara benda ykkur á það að endurbættur krakka og unglingavefur hefur verið opnaður á www.847.is !
Vil endilega benda ykkur á það einnig að kíkja við því nú er hann á mikilli uppleið og er fræðsluhorn þar og einnig er spurt og svarað dálkur þar sem kona að nafni Linda Karen sér um. Hún hugsar mikið um hvernig við getum bætt framkomu okkar við hestinn og getum nýtt okkur hans eðlisfar til þess að ná sem bestum árangri í hestamennsku.
Svo er einnig ljósmyndakeppni sem glæsileg verðlaun eru í boði, en þau eru leyndarmál þangað til sigurvegarinn finnst ;)
Ég ætla að setja hér fréttina sem kom á 847.is
Krakka- og Unglingavefur opnar!
Nú liggur margt í loftinu og miklar breytingar í vændum. Í dag kemur ein breytingin fram því nú opnar 847.is nýjan og og sameinaðan vef fyrir börn og unglinga. Stefna okkar er að unga fólkið geti haft aðgang að skemmtilegum og öflugum hestatengdum vef á netinu, skipst á upplýsingum, fræðst og fundið skemmtilegt afþreyingarefni. Vefurinn verður í örum vexti næstu vikur og gaman verður að fylgjast með því.
Nýr starfsmaður hefur bæst í hópinn sem hafa umsjón með uppfærslu afþreyingarefnis og því tengdu á vefnum. Hún heitir Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir, 14 ára hestastelpa með mikinn áhuga á fjölmiðlun. Linda Karen Gunnarsdóttir mun áfram starfa við vefinn en hún mun halda utan um fræðsluefnið. Þetta eru því gleðitíðindi fyrir unga hestafólkið í landinu og ekki síður fyrir 847.is – enda viljum við höfða til allra aldurshópa.
Ljósmyndasamkeppni Krakka- og Unglingavefs 847
Til að fagna þessum áfanga höfum við ákveðið að stofna til Ljósmyndasamkeppni Krakka- og Unglingavefs 847 og verður keppnin ætluð unga fólkinu. Þema keppninnar eru fyndnar eða frumlegar ljósmyndir af hestum eða hestatengdu efni. Við hvetjum krakka og unglinga til að senda inn sínar skemmtilegu myndir á krakkarogunglingar@847.is. Taka þarf fram fullt nafn, aldur og gaman væri að fá heiti myndar. Allar myndir verða birtar jafnóðum á Myndabanka Krakka- og Unglingavefs. Valið verður úr 6 bestu myndunum og munu notendur svo velja sigurmyndina í kosningu sem mun fara fram á Krakka- og Unglingavef eftir að skilafrestur rennur út þann 1 desember nk. Verðlaunin verða glæsileg og verður þeim haldið leyndum þar til sigurvegarinn finnst.
Um leið og við óskum öllum krökkum og unglingum sem áhuga hafa á okkar frábæra íslenska hesti, til hamingju með Krakka- og Unglingavef 847, þá hvetjum við ykkur til að vera virk og senda okkur efni og vera ófeimin við að koma með athugasemdir og ábendingar. Til hamingju!
Eins og þið sjáið er til mikils að vinna og endilega kíkja við og taka þátt í ljósmyndasamkeppninni! ;)