Þegar maður var krakki var maður stundum með einhverjar hugmyndir og drauma um hvernig heimili mann myndi vera. Á tímabili ætlaði ég að búa á bóndabæ með kýr og alle græjer. Á öðru tímabili, þegar ég var unglingur, ætlaði ég að hafa allt svakalega stílhreint með helst öllu í svörtu og hvítu o.s.fr. (bjakk).

En það er eiginlega aðeins einn draumur sem ég hafði sem krakki sem mig langar enn að láta rætast, og er ekki búin að gefa upp vonina að svo verði. Síðan ég var svona 13 ára hefur mig langað að eiga íbúð eða hús þar sem eitt herbergið væri bara til að letingjast og kósíast í. Það þarf ekkert að vera mjög stórt, en samt ekki of lítið heldur.

Á gólfinu á bara að ver þykk dýna sem nær yfir allt gólfið, sem sagt gólfefnið er eiginlega bara þykk fóðruð svampdýna. Síðan ætla ég að hafa fullt af koddum í alls konar stærðum og gerðum á víð og dreif í herberginu. Þarna eiga líka að vera nokkur teppi og jafnvel sængur sem geymast í hillu á einum veggnum. Hurðin á herberginu á að opnast út, þannig að maður geti hreinlega fleygt sér inn í herbergið og lokað á eftir sér.

Það eiga að vera græjur þarna inni með hátölurum sem eru festir við veggina, sjónvarp sem er líka fest á vegginn með armi og hægt er að stilla þannig að maður geti bæði legið og setið þegar maður horfir á það. Svo auðvitað vídeó… eða líklega verður það DVD núna ;). Með þessu eru náttúrulega fjarstýringar, eða bara ein universal fjarstýring sem á að eiga sinn góða samastað á lítilli hillu á veggnum.

Ljósin sá ég alltaf fyrir mér sem blá, eða allavegana mild birta. Svo væri fínt að hafa vegglampa svo maður gæti einnig setið og lesið.

Ég sé enga tölvu fyrir mér þarna inni. Þær voru náttúrulega ekkert svo algengar þegar ég var 13 ára, en eftir sem tíminn hefur liðið þá finnst mér þær ekki passa þarna inn í letingjaherbergið mitt.

Ég er nú orðin 32 og ekki enn komin með eigið húsnæði, en eins og ég segi þá er þetta herbergi enn inni í myndinni og ég SKAL fá það áður en ég dey að minnsta kosti ;)
Kveðja,