Árið 1968 var Eric nokkur Clapton í frekar erfiðari stöðu. Hljómsveit hans Cream var mjög vinsæl og hafði selt milljónir platna um allan heim og var sett á sama stall og Bítlarnir og Rolling Stones. En Ginger Baker trommari sveitarinnar og Jack Bruce bassaleikari þoldu ekki hvorn annan og lenti Clapton mikið í miðjunni á þeim deilum.
Clapton var orðinn þreyttur á ástandinu, eftir að hafa staðið í þessu í 2 ár þá var hann farinn að hlakka til að yfirgefa bandið og gera eitthvað annað.
Á sama tíma var 20 ára drengur, Steve nokkur Winwood líka á tímamótum. Hljómsveit hans traffic hafði getið af sér gott orð sem R&B hljómsveit og Winwood orðinn þekktur fyrir sinn einstaka R&B stíl.
Clapton og Winwood höfðu lengi vel virt hvorn annan, þeir höfðu báðir mikinn áhuga á blús. Clapton með sinn Mississippi Delta blús stíl og Winwood með sinn R&B stíl ákváðu að hittast og reyna að láta þetta smella saman. Á sama tíma var Clapton mikið að spá í að bæta við Cream hljómborðsleikara, og vonaðist hann til að Winwood myndi ganga til liðs við bandið.
En fór sem fór, og Cream hætti störfum. Clapton ákvað þá að reyna að gera eitthvað með Winwood einn og sér. Eftir nokkrar æfingar þá vissu þeir báðir að þetta myndi ganga upp, vantaði kanski bara trommara á svæðið til að mynda gott tríó. Baker frétti af þessu og vildi heldur betur fá að vera með. Clapton var mjög tregur, enda ekki nema nokkrar vikur síðan Cream hafði lagt upp laupana, en Winwood og Clapton voru reyndar báðir sammála að fáir væru jafnokar Baker á settinu og ákváðu þessvegna að slá til. Þetta var í Janúar 1969.
Í mars 1969 var bandið komið saman í stúdíó ásamt Jimmy Miller framleiðanda til að undirbúa efni sem ætti hugsanlega að fara á plötu. Á þessum tíma voru fjölmiðlar komnir á snoðir um þá félaga og þrátt fyrir viðleitni Claptons til að halda þeim frá með því að segja þeim að hann væri bara að vinna að plötu, þá gengu þeir hart að þeim, vitandi að Baker og Winwood væru báðir með í spilinu.
Fljótlega fór að bera á plötuútgefendum og hljómleikahöldurum að pressa á þá með plötu og tónleika, enda ekki skrýtið þar sem Cream hafði með “Disraeli Gears” og “Wheels of Fire” malað gull fyrir plötuútgefendur og allir vildu fá sinn skerf af nýju Cream hlómsveitinni. Þegar Cream hætti þá skildu þeir plötuútgefendur eftir með töluvert miklar áhyggjur, fyrirtæki eins og Atlantic og Polydor sáu fram á erfiða tíma þar sem aðal peningamáskínan þeirra var hætt (Atlantic var nú reyndar með annað blúsband á sínum snærum en reiknaði ekki með því að þeir yrðu neitt númer, nefnilega Led Zeppelin) og sáu þarna vonandi bjartari tíma framundan. Plötuútgefendur voru allir búnir að taka upp heftið og lofa þeim spikfeitum tékkum, sem þeir strákar gátu bara ekki staðist og slóu til.
Í mai 1969, bættu þeir við sig lítið þekktum en mjög hæfileikaríkum bassaleikara að nafni Rick Grech sem hafði getið af sér þokkalegt orð með hljómsveitinni Family, en ákvað að skilja þá eftir bassalausa í BNA og ganga til liðs við þá félaga.
Á þessum tíma var Clapton búinn að nefna bandið Blind Faith, svona kaldhæðnis skot á þá trú sem fjölmiðlar voru farnir að leggja á sveitina. Sem er skiljanlegt því að í öllu fárinu sem fylgdi þeim þá hafði þeim ekki einu sinni tekist að æfa né semja lög sem átti að fara á þessa plötu sem allir voru farnir að bíða eftir, allavega engin frumsamin af þessari hljómsveit.
Tónleikar voru bókaðir út um alla evrópu, með milljónir í vasanum í fyrirframgreiðslum, samninga um meiri milljónir og lof um ennþá meiri milljónir spiluðu þeir í fyrsta skipti í London Hyde Park fyrir framan 100.000 gallharða aðdáendur sem höfðu aldrei heyrt í hljómsveitinni en trúðu pressuni sem var búinn að spila úr þeim einhverskonar “super Cream”.
Ílla æfðir og með hálfklárað efni stigu þeir á sviðið, Clapton verandi mikill fullkomnunarsinni gekk reglulega af sviðinu ósáttur við frammistöðu bandins en furðaði sig á því að 100.000 manns görguðu og fögnuðu og heimtuðu meira. Honum var svo sem slétt sama um hvað þeim fannst, þetta var lélegt show og hann langaði ekkert að taka þátt í þessu. En það var búið að bóka þá á tónleikar og búnir að gera samninga og fá milljónir þannig að hann varð bara að sætta sig við það og spila. Gildir einu hvað honum fannst, aðdáendur borguðu sig inn og voru ánægðir, og útgefendur ánægðir með.
Án þess að gera sér grein fyrir því, þá höfðu þeir félagar meiriháttar áhrif á plötuútgáfu fyrirtæki í kringum sig. 1968 var maður nokkur að nafni Steve Ross farinn að sölsa undir sig nokkur fyrirtæki þám Warner, og sóttist nú eftir Atlantic. Vitandi það að Atlantic væri verðlaust án þáverandi forstjóra Ahmet Ertegun, reyndi hann hvað hann gat til að fá hann með í kaupunum. En Ertegun hafði engann áhuga á að verða einhver stórfyrirtækja matur og þverneitaði að koma með. Stuttu fyrir fund sem þeir áttu bókaðann þá hafði sonur Ross komið heim til hans með vin sinn með sér, þessi vinur hans hafði heyrt það að Ross hafði hug á Atlantic og sagði honum frá þessu nýja bandi, Blind Faith.
Ross var nefnilega af gamla skólanum og hlustaði lítið á tónlist sjálfur, nema kannski einhverja gamla blús slagara og fannst áhugi stráksins og þær staðreyndir að menn væru að tala um band sem var ekki einu sinni almennilega stofnað mjög áhugaverðar og bar þær undir Ertegun á fundinum. Ertegun samþykkti að Ross kæmi með peningana til að borga bandinu, og Ertegun kom með í kaupum Warner á Atlantic.
Þessi sameining varð svo síðar að útgáfu risanum Warner-Elektra-Atlantic og svo loks að Warner-EMI Records, stærsta útgáfu fyrirtæki í heimi.
Blind Faith einbeitti sér nú að því að spila á litlum klúbbum í evrópu, enda löngu þekkt að það er besta æfingin áður en farið er að troða í stórum tónleikasölum.
Þann 12 Júli voru þeir bókaðir með tónleika í Madison Squere Garden fyrir framan 20.000 manns. Búið var að blása bandið svo mikið upp að það urðu uppþot þegar fólk reyndi að troða sér upp að sviðinu til að berja goðin augum, uppþot sem enduðu með því að píanói Winwoods var eyðilagt og Baker var laminn í hausinn af löggumanni sem var viss um að hann væri enn einn vandræða unglingurinn.
Þrátt fyrir þetta ákváðu þeir að halda tónleikana, en komust að því síðar að búið var að eyðileggja hljóðkerfið og sándið var hörmulegt. Þeir ætluðu að hætta að spila, en fólkið gargaði og öskraði af hrifningu….hafði aldrei heyrt aðra eins snilld. Strákarnir vissu alveg að þetta var hörmulegt, en ákváðu að klára tónleikana svo allt myndi nú ekki fara til helvítis.
Eftir 7 Vikna túr um BNA og Canada með viðkomu á Hawai, ennþá furðu lostnir og sjúskaðir eftir LA uppþotin, voru menn farnir að furða sig á því hvað Clapton var farinn að draga sig í hlé á sviðinu og Winwood (sem var mikið minna nafn í BNA) kominn í miðjuna á sviðinu. Tónleikar þeirra virkuðu mjög áhugalausir sem sýndist best með löngum trommusólóum Bakers, þar sem hinir fóru bara og fengu sér kaffi og meððí á meðan. Fyrir utan auðvitað þá staðreynd að fólk heimtaði lög með Cream, sem bandið auðvitað lét eftir fólkinu og spilaði. Lítið varð um nýtt efni frá þeim.
Clapton var kominn í þá stöðu að endurlifa Cream ævintýrið nema helmingi verra, það voru allavega engin uppþot á þeirra tónleikum. Það var engin leið til að sleppa við þetta, búið var að skrifa undir alla samninga og hann varð að klára ferðalagið.
Clapton var farinn að draga sig mikið í hlé, hættur að hanga með Blind Faith á milli tónleika og hékk aðalega með upphitunar bandinu Delaney & Bonnie, sem spiluðu Folk Blús. Þar sat hann og spilaði stundum með þeim og fílaði það sem þeir voru að gera.
Blind Faith lauk ferðalagi sínu í Ágúst 1969. Á þeim tíma hafði eina plata þeirra, sem þótti hafa ansi umdeilt cover (mynd af berbrjósta unglingstelpu) selst í hálfri milljón eintaka, og það bara í BNA og komist í 1 sæti í evrópu. Peningarnir streymdu inn og allir voru sáttir, sérstaklega peningamennirnir sem höfðu fjárfest í þessu verkefni.
Platan innihélt góða tónlist, en ekki mikið af henni. Um það bil 40 mín af tónlist sem þykir nú ekki mikið af hljómsveit á þessum mælikvarða.
Í kjölfarið reyndu þeir eitthvað að æfa sig og spila á litlum klúbbagiggum og undirbúa nýja plötu. Ef þeir hefðu fengið tíma til að æfa sig og gefa út plötu þá hefði þetta kanski gengið, en með tilkomu Baker í bandið þá fengu þeir engan frið frá fjölmiðlum og gátu ekkert æft sig.
Í Oktober 1969 kom svo bandið heim til Englands, vonir um túr um England og nýja plötu urðu að engu, þegar bandið gaf út þá yfirlýsingu að það yrði enginn túr og engin ný plata….og ekki orð um það meir.
Blind Faith var eins fóstur sem var tekið úr móðurkviði og hent út í lífið og skipað að þroskast og dafna.
Clapton dró sig í hlé eftir þetta og gerðist óþekktur blúsgítarleikari í hljómsveit sem kallaði sig Derek & The Dominos, og líkað það vel að vera ekki í sviðsljósinu.
Baker hinsvegar fannst þetta bara mjög gaman og fílaði alla seðlana sem fylgdu. Hann dobblaði Winwood og Grech til að spila með sér í hljómsveit sinni Ginger Baker´s Air Force. Þeir endust nú bara í 2-3 mánuði þar, eða þangað til Winwood fékk Grech með sér í Traffic reunion band.
Sorgleg saga um hvernig græðgi getur skemmt tónlist. Ef eðlilega hefði verið að þessu staðið, þá hefði Blind Faith án efa orðið ein af stórsveitum gullaldarinnar, en gat af sér því miður einungis eina miðlungsplötu.
Vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessu.
Heimildir www.allmusic.com
Takk fyrir.
ibbets úber alles!!!