Í greininni “Out of body experience” tekur greinarhöfundur ítrekað fram að ferðalag úr líkamanum sé jafn hættulaust og að vakna upp af draumi enda enginn eðlismunur þar á. Hann tekur fram sem ýmsir lesendur staðfesta að sú tilfinning geti komið að manni finnist eins og þungt farg hvíli á manni. Maður bíði bara rólegur þar til að þessi þyngslatilfinning líður hjá.

Í máli okkar er til orðatiltæki um að eitthvað hvíli á manni eins og mara. Í orðabók Menningarsjóðs, 1988, s. 625 er mara skilgreind sem “óvættur sem ætlað var að træði á fólki eða þjarmaði að því í svefni; sbr. martröð: mara treður einhvern; það hvíldi á honum eins og mara, sem í yfirfærðri merkingu þýðir að hann hafði þungar áhyggjur”.

Lesendur eru ekki sammála um hvort að hættur kunni að liggja í leyni við sálfarir. Ég hallast að því að svo sé ef óvarlega er farið.

Í dulspekinni eru gefnar mismunandi skilgreiningar á astral sviðinu þar sem ekki er fyrir fram gefið að allir séu að ræða um sama fyrirbærið. Ein skýring á því er að geðsviðið er svo margbreytilegt að erfitt er að henda reiður á því. Flestir koma sér saman um að astralsviðið sé sá heimur sem tilfinningalíf okkar á sér rætur í. Á íslensku hefur það verið nefnt geðsviðið.

Eins og gefur að skilja er geðsviðið jafn fjölbreytt og mismunandi eins og tilfinningalíf og geðsveiflur okkar gefur tilefni til. Sumir eru geðgóðir og bjóða af sér góðan þokka þó eðlilegt sé að allir geti skipt skapi ef svo ber undir. Geðheimur þeirra er að sama skapi ánægjulegur og yndisaukandi. Þeim ætti að öllu jöfnu ekki stafa hætta af því að stunda sálfarir án þess að ég vilji beinlínis mæla með því fyrirvaralaust.

Það má gera úr því skóna að geðsvið fíkniefnanotenda, geðveilra og misyndismanna sé síður en svo ánægjulegt því að líkur sækir líkan heim. Fái viðkomandi ekki bót á sínum meinum eða bæti ekki ráð sitt myndi ég ekki telja að viðkomandi sé í góðum málum fari hann að stunda meðvitað sálfarir.

Áður en lengra er haldið langar mig til að benda lesendum á bókina Æðri heimar - I. Geðheimar eftir C.W. Leadbeater sem gefið er út af Guðspekifélaginu, 1975. Þar er geðheiminum lýst all ítarlega og þeim margvíslegu verum og aðstæðum sem ríkja þar.

Af framansögðu myndi ég gjalda fólki varhug við að stunda sálfarir án þess að gera sér grein fyrir því hvað það er að taka sér fyrir hendur. Ég er ekki að segja að það sé hættulegt sé rétt að verki staðið og viðkomandi sé í góðu andlegu jafnvægi og almennt geðgóður og góður í sér. Sé þeim forsendum fullnægt mæli ég eindregið með að viðkomandi noti jafnfram bænir og/eða hugleiðslu áður en lagt er af stað í ferðina. Djúpslökun og áhersla á að halda ró sinni er einnig góðra gjalda vert eins og höfundur greinarinnar “Out of body Experience” mælir með. Hægt er að biðja kvöldbænir sínar eins og menn eru vanir. Einnig er áhrifaríkt að biðja til verndarengils síns um vernd. Sé þessa gætt eru miklar líkur á því að reynslan verði háleitari og ánægjulegri heldur en þegar látið er skeika að sköpuðu.

Þess má geta að til eru æðri heimar heldur en geðheimurinn, sem nefndir hafa verið hugheimar, innsæisheimar og andlegir heimar. Í þessum heimum eða hugarsviðum hefur æðra sjálf okkar aðsetur, þ.e. dulvitundin. Þessa heima getum við komist í meðvitað samband í svefni hafi maður þroskað hugann sinn með góðu og grandvöru líferni ásamt því að stunda íhugun og bænir eins og bent er hér á undan. Um þessa heima má lesa í sama bókaflokki og ég benti á hér á undan: Æðri heimar. II. Hugheimar…

Einnig langar mig að benda á bók sem til er á bókasafninu (sjá bókasafnleitarforritið ( www.gegnir.is ) sem heitir The Masters and their retreats. Bókin lýsir andlega heiminum þar sem dýrlingar og uppstignir andlegir meistarar dvelja. Það er sá varanlegi samastaður sem okkur er ætlað að ná með tilveru okkar hér á jörðu. Þess má geta að eftir líkamsdauðann dvelja flest okkar fyrst á geðsviðinu og færumst þaðan upp á hugarsviðið, þ.e. þeir sælustaðir sem við dveljum á tímabundið til undirbúnings fyrir næsta jarðlíf. Aðeins þeir allra þroskuðustu ná meðvituðu sambandi við æðstu hugarsviðin á milli jarðvistarskeiða.

Bókin Masters and their Retreats lýsir all ítarlega hinum háþroskuðu mannverum sem búa á æðsta sviðinu, andlega heiminum, og heimkynnum þeirra. Í bókinni bjóða meistarnir okkur í heimsókn til sín, þegar við sofum svefni hinna réttlátu, og lýsa ferðalaginu (“sálförunum”) þangað, hvernig við getum komist þangað heilu og höldnu og notið meðvitað samvista þeirra. Ég læt lesendum eftir um framhaldið.

Hægt er að panta bókina á netinu: http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Books&strType=Detail&strCode=7100&mo=bs&epag=