Tvíræðni syndafallsins

Í fyrstu Mósebók er sagt frá því að Guð hafi í upphafi skapað himin og jörð. Hann greindi þurrlendi frá vatni og ljósið frá myrkrinu og dag frá nóttu og ljósið var gott (1M 1.1-4). “Guð sagði: Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss… Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd… hann skapaði þau karl og konu” (1M 1.26-27). Tilvitnunin gefur til kynna að Guð hafi bæði karl- og kvenmynd. Til áréttingar er notað hebreska fleirtöluorðið “Elohim” fyrir Guð í fyrri útgáfu sköpunarsögunnar (1M 1.1-2.4a).

Faðirinn (Alfa) ríkir á himnum hátt utan við og ofar tímans glaumi en Móðurgyðjan (Omega) er sálin sem er alls staðar nærverandi í sköpunarverkinu en á milli þeirra ríkir ævarandi eining heilags anda. Samruni þessara gagnstæðu mótpóla guðdómsins, sem er táknað með krossinum, getur af sér soninn þar sem ásarnir mætast. Hann er Orðið sem var hjá Guði, þ.e. alheims Kristur sem er tengiliður heims efnis og anda og meðalgöngumaður Guðs og manna (sbr. Jh 1.1-18).

Í taó rennur kveneðlið yin og karleðlið yang saman við hjól eilífðarinnar. Í hindúasið er eining guðdómsins oft táknuð með myndum sem finna má í musterum af guðapörum í innilegum faðmlögum ástarinnar. Taóspekingar og tantra jógar líta á kynlíf sem heilagt náðarmeðal (sakramenti) þar sem kynlífið geti veitt dýpsta skilning á eðli guðdómsins. Það sé eins og lótusblóm sem vex upp úr leðju árbotnsins. Innan þessara hefða hefur kynlífið verið stundað beint eða táknrænt til að leysa úr læðingi frumkrafta náttúrunnar til samruna við gúðdóminn. Þessi hugmyndafræði kemur einnig fyrir í forn-grískri goðatrú:

"Töfrar [ástargyðjunnar] Afródítu liggja í leyndardómum umbreytingarinnar. Með dýrkun hennar hefja menn sig upp yfir mannlega ást, til hinnar eilífu ástar. Afródíta er sá mikli kyngikraftur sem sameinar og fullkomnar tvö voldugustu öfl alheimsins, hið kvenlega og karlmannlega. Hún getur sefað okkar eilífu þrá eftir einingu og varanleika… Þegar kona og maður verða eitt, má líta á það sem dulræna reynslu, því á stundu fullnægingarinnar er eins og sjálfið hverfi og verði hluti af alheiminum, eins og dropi sem blandast óravíddum hafsins. Kyrrð og ró elskendanna að ólgunni lokinni eru gjafir Afródítu því þær fylla sálina djúpum friði“ (Mascetti, s. 118-120,123).

Í ritningunni vottar fyrir sama konar skilningi: ”Og þau tvö skulu verða einn maður“ (Mk 10.8); ”maður… býr við eiginkonu síns, svo að þau verði eitt hold“ (1M 2.24). Einnig gefa guðspjallamennirnir Matteus (25.1-13) og Jóhannes (3.29) mynd af sálinni sem brúð Krists. Þó virðist hefðbundinn tvíhyggjuskilningur kristninnar ganga í berhögg við ofangreinda einingarvitund kynjanna um guðlegan uppruna sinn (sjá greinina mína; Heildarhyggja, einingarhyggja og tvíhyggja). Það kemur berlega fram í einhliða túlkun kirkjunnar á margræðum boðskap goðsögunnar um útskúfun Adams og Evu úr aldingarðinum Eden.

Forsagan var að Eva hvatti Adam til að borða forboðinn ávöxt af skilningstré góðs og ills fyrir áeggjan höggormsins. Eftirfarandi tilvitnun úr fyrstu Mósebók (2.4) er upplýsandi sé hún borin saman við áðurnefnda afstöðu austurlenskrar og forn-grískrar dulspeki til kynlífs og samruna við guðdóminn: ”Þá sagði höggormurinn við konuna: Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“

Guðfræðin lítur á höggorminn sem hinn fallna erkiengil Lúsifer sem freistaði Evu til lags við sig. Hún tældi svo Adam gegn boði Guðs sem olli syndafalli mnnsins. Gnostíkar, sem uppi voru á dögum frumkristninnar, litu aftur á móti á höggorminn sem frelsandi engil sem vildi hjálpa sálinni til sannrar þekkingar á guðlegu eðli sínu. Í raun er túlkun guðfræðinnar og gnostíkunnar á falli mannsins jafréttháar eftir atvikum.

Í tantra yoga er höggormurinn tákn fyirr slöngueldinn (kula kundalini) sem stendur fyrir kynlífs- og skjöpunarkraft Móðurgyðjunnar (Shakti), sem í kristnum sið nefnist heilagur andi. Slöngueldurinn leikur um sálrænar orkustjöðvar (cakra) meðfram orkurásum (susuma) i hryggjasúlunni sem samsvarar lífsins tré í fyrstu Mósebók. Þessi sköpunarkraftur Móðurgyðjunnar hvílir í mænurótarstöðinni (muladhara) en faðirinn (Shiva) dvelur í krónuorkustöðinni (sahasrara) yfir höfðinu. Shíva og Shakti í manninum samsvara mynd Guðs (Elohims) sem karl og kona eru sköpuð í. Við andlega iðkun rís móðurloginn upp gegnum orkustöðvarnar. Með aðdráttarafli sínu dregur Shiva jafnframt sína heitelskuðu Shakti til sín, samanber orð Krists: ”Og þegar ég [ljósið] verð hafinn upp frá jörðu [frá lægstu til hæstu orkustöðvanna], mun ég draga alla til mín“ (Jh 12.32). Við samdráttinn mætast Shakti og Shiva á miðri leið í hjartastöðinni. Langþráður endurfundur elskendanna sameinar þau í algleymi kosmískrar fullnægingar. Maðurinn hefur tekið af lífsins tré og lifir nú eilíflega (sbr. 1M 3.22). Endurfæðing einkasona eða einkadætra Guðs er ávöxtur þessara guðdómlegu samfara fyrir meðalgöngu Krists. Hann er hin andlega ljósmóðir sem tekur á móti frumburðum Guðs og verndar þá ”eins og hænan [sem] safnar ungum sínum undir væng sér“ (Mt 23.37) því að fæðingin er ekki sársaukalaus:

”Kona klædd sólinni… Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum… Hún fæddi son“ (Opinberunarbókin 12.1-6). Móðirin, þ.e. sálin sem er kona, fæðir son Guðs með þraut inn í þennan volaða heim eftir syndafallið (sbr. 1M 3.16). Ljós sem streymir frá (innri) sólinni fer um kviðarholsorkustöðina, öðru nafni sólar plexus. Þar fer fram ummyndun sálarinnar þar til hún endurfæðist í syninum. Sálin vaknar m.ö.o. til vitundar um guðlegan uppruna sinn með því að íklæðast sólinni í kviðarholsorkustöðinni og ummyndast við það í ljósi sonarins Krists.

Í fjórðu Mósebók (21.9) er sagt að ”Móse gerði höggorm að eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi“. Sama höggormstákn vindur sig um staf Hermesar meðalgöngumanns manna og guðanna á Ólympusfjalli sem samsvarar leið slöngueldsins upp hryggjasúluna, þ.e. lífsins tré. Homópatar eru þekktir fyrir að nota sams konar eiturefni sem mótefni gegn eiturverkunum sem olli sjúkdómnum. Læknastéttin hefur gert höggormstákn Hermesar og Móse að kennimerki sínu.

Móse virðist þarna hafa verið að leiðbeina þjóð sinni um rétta notkun á slöngueldinum. Hann reyndi að koma í veg fyrir að þjóð hans misnotaði slöngueld Móðurgyðjunnar með kukli og (kyn)svalli að hætti áanna þega ár var alda.

Tantra jógar segja að kynlífið geti tengt manninn órjúfanlegum böndum við guðdóminn eða orðið þrælslegt ok sem bindur hann í fjötra efnishyggjunnar og dauðlegs lífs. ”Ok“, sem þýðir klafi og helsi hefur orðsifjatengsl við yoga (sbr. yoke á ensku). Ok getur bundið manninn við efnisheiminn eða andlega heiminn eftir atvikum. Ok var áður fyrr notað á klyfjahesta og uxa til að létta mönnum byrðarnar, samanber orð Jesú: ”Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld… því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Mt 11.28,30).

Móse að hætti sannra yogameistara varaði við fikti og kukli sem gæti ótímabært vakið upp slöngueldinn. Sé viðkomandi ekki viðbúinn gæti það haft eyðileggjandi áhrif. Í Gamla testamentinu er þráfaldlega greint frá því að Guð birtist sem eyðandi eldur þeim sem standa frammi fyrir ásjónu hans (sbr. 1M 19.24-26; 2M 33.20; ”…hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er… Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi“, sagði Páll postuli (1Kor 3.13-15). Sál sem ofsótti kristna menn ”dó“ eftir að ljós logi leiftraði um hann frá himni. Hann fylltist þá heilögum anda, ummyndaðist og endurfæddist sem dýrlingurinn Páll postuli (P 9.1-19).

Kerúbar (englar) ”geyma vegarins að lífsins tré“ (1M 3.24). Þeir sem leita eilífs lífs þarfnast meðalgöngu þessara varða sem virka sem ”andlegir straumbreytar“, þ.e. hleypa engum óverðugum inn i aldingarðinn Eden sem ekki hefur ummyndast í ljósi guðdómsins. Kabala dulfræðungar Gyðinga hafa kortlagt andlega vegferð mannsins um lífsins tré.

Þegar Guð bannaði Adam og Evu að eta af skilningstré góðs og ills var hann að brýna fyrir börnum náttúrunnar að leika sér ekki að slöngueldinum þar sem þau kynnu ekki með hann að fara. Þau óhlýðnuðust boði Guðs og glötuðu þar með guðlegri einingarvitund sinni og forsjón alviskunnar. Maðurinn öðlaðist að vísu skyn á skilningstré góðs og ills út frá afstæðri tvíhyggjusýn lægra vitundarstigsins: ”Dr. Faustus sem selur djöflinum sál sína fyrir þekkingu… kemst að raun um að djöfulleg viska er lítils virði því hann nær aldrei að höndla þá guðlegu heild sem býr undir yfirborði allra hluta“ (DV 21. jan. '98). Þess tálsýn blekkingarinnar kalla hindúar og búddhamenn Maya. Lygarinn, Óvinurinn og fleiri ónöfn eru höfð um Maya sem persónugerving djöfulsins. Sálfræðingurinn Jung nefndi hann skuggann, þe. ”ruslakistuna (kistu Pandúru)“ í sameiginlegri undirvitund mannkyns.

Til er goðsaga um að höggormurinn í Eden hafi verið samheiti yfir flokk fallinna engla sem hefðu sníkjulifnað á manninum að viðurværi til að halda sér á lífi, þ.e. lifðu á ljósi mannsins þar sem þeir höfðu glatað sínu. Heiti þeirra er dregið af því að þeir náðu valdi á sálum mannanna með því að freista þeirra til að misnota slöngueldinn sem olli syndafallinu.

Slöngueldur Móðurgyðjunnar, sem samsvarar kvenlegum sköpunarkrafti mannsins, hefur að öllum líkindum fengið á sig slæmt orð vegna þess að brennd börn syndafallsins tóku að forðast slöngueldinn. Konan hefur svo verið gerð að blóraböggli. Til marks um það var bölvun lögð á höggorminn, sköpunarkraft Móðurgyðjunnar og persónugerving kvenleikans: ”Og fjandskap vil ég segja milli þín [höggormsins] og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis“. Við konuna var sagt: ”Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér" (1M 3.13-19).

Í þessu sambandi má minna á gyðjurnar Kali og Durga í hindúasið og Tara í tíbetskum búddhadómi. Þeim er einatt lýst sem ógnvekjandi forynjum sem rífa í sig óvini sína. Það er í raun gervi sem hver móðurgyðja getur brugðið sér i til að verja börnin sín, mennina, gegn djöflum og svörtum galdrameisturum sem tæla menn til að minsnota slöngueldinn sjálfum sér til framdráttar.


Óðurinn um Evu

Seiðkonur nýja tímans, sem byggja á fornri nornatrú, túlka söguna af syndafallinu nánast á þá leið að Eva hafi verið Móðurgyðja og fulltrúi þeirra viðhorfa sem ríktu á forsögulegum tímum akuryrkjusamfélagsins þegar mæðraveldi kvað hafa verið við lýði. Sagan segir að þá hafi hernaður og ófriður verið nær óþekkt fyrirbæri. Í mæðraveldinu var altæk gyðjutrú og frjósemisdýrkun ástunduð og dularkraftur kvenna í hávegum hafður. Í slíkri algyðistrú er sálin sögð vera alls staðar í náttúrunni sem veitti yfirskilvitlega samkennd og virðingu fyrir sköpuninni. Dýrkun gyðjunnar var tákn um leit mannverunnar að eigin sál. Í nær öllum trúarmenningum er sálin kvengerð og talin standa í nánum tengslum við hinn æðsta guðdóm (sbr. “meyjarnar tíu sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína”, í Mt 25.1-13 og Jh 3.29 – sem er dæmisaga um misnotkun slöngueldsins).

Gyðjudýrkunin varð svo að víkja fyrir eingyðistrú þess feðraveldis sem við nú búum við, segir Mascetti í bókinni Óðurinn um Evu. Í kristinni trú var almennt ekki gert ráð fyrir að móðurgyðja hafi verið að verki við sköpun heimsins heldur hafi Guð faðir verið einn á ferð. Eintöluorðið Jahve er einkum notað yfir Guð föður í annarri útgáfu sköpunarsögunnar (1M 2.4b-3.24). Faðirinn er aðgreindur frá sköpunarverki sínu, hann myndaði konuna úr rifi mannsins og sonur hans Kristur er eingetinn. Feðraveldið, með eingyðistrúna að bakhjalli, er rótin að gamalgróinni fjandsamlegri afstöðu kirkjunnar til kvenna, dulúðar og holdlegra lystisemda, álíta nornir á nýöld. Dæmi um kvenfyrirlitningu þeirra tíma er að finna í sögunni um Lot. Hann vildi frekar að múgurinn í Sódóma myndi nauðga dætrum hans, sem ekki höfðu karlmanns kennt, en að þeir myndu svívirða gesti hans (sjá 1M 19.7-8).

Kúgun konunnar var réttlæt með því að vinna þyrfti bug á syndugu eðli hennar sem olli falli mannsins og erfðasyndinni. Hver kona sem varð fyrir því að vandlætarar og sjálfstyftarar kirkjunnar litu hana girndaraugum hlaut að vera í vinfengi við djöfulinn. Leiða má líkur að því að valdabrölt, ofstækistrú og galdrabrennur miðaldakirkjunnar hafi verið afleiðing þess að náttúrulegar hvatir voru með harðýðgi bældar niður (sbr. íslenska þjóðsagan um púkann á fjósbitanum sem skýrð er í greininni um heildarhyggu og tvíhyggju).

Karlar feðraveldisins óttuðust að deyja sjálfum sér, þ.e. glata sjálfsvitund sinni (egóinu) sem hafði sundrast (þ.e syndgað) frá Guði eftir syndafallið, gæfu þeir sig á vald Móðurgyðjunnar sem lauk upp dyrunum að leyndardómum lífsins. Þess vegna gátu þeir ekki leyft eðlislægum andlegum eiginleikum konunnar að njóta sín.

Guðsmóðurdýrkun katólsku kirkjunnar á Maríu mey, sem í öndverðu dró dám af frjósemisdýrkun gyðjuátrúnaðarins, setti vissulega konuna á stall. Í goðsögunum er lenska að kona verði þunguð af völdum guða og anda þar sem samræði manna og kvenna var hluti af frjósemisátrúnaðinum. Í kristninni var guðsmóðurímynin aftur á móti hreinsuð af syndugu eðli holdsins þar sem María mey varð þunguð án þess að hafa kennt karlmanns. Víst er þó víða getið í ritningunni að Jesús átti bræður og systur. Misskilda ímynd hins flekklausa getnaðar gat að sjálfsögu engin dauðleg kona uppfyllt. Þessa tvíbentu og sundruðu sýn á konunni sem hóru eða engli vinna nornir nýja tímans að því að sameina og sýna konuna í öllu sínu veldi sem fullmótaða kynveru í anda Móðurgyðju frjósemisátrúnaðarins.

María guðsmóðir er í raun óflekkuð ímynd Móðurgyðjunnar. Það gerði henni fært að bera Krist inn í þennan heim. Ákall til hennar leysir heilagan anda úr læðingi og slöngukrafturinn rís upp þar til að sálin sameinast guðdóminum. Maðurinn kemst til fullrar guðsvitundar fyrir soninn og móðurina, og í föðurnum endurfæðist sonurinn samkvæmt fleklausri ímynd Guðs. Með því að tigna og tilbiðja Maríu sem guðsmóður nærir maðurinn sköpunarkraft guðsmóðurinnar í sér. Móðurhyggja Guðs birtist að lokum í manninum sem nærir allt líf svo að sonur eða dóttir Guðs megi endurfæðast í hjarta hvers manns. Konur sem hafa öðlast einingu við sköpunarkraft Móðurgyðjunnar geta orðið birting guðsmóðurinnar, þ.e. endurfæðst sem dætur Guðs, eins og María mey og búddhagyðjan Quan Yin sönnuðu fyrir okkur.

Issahandritin sem fundust í Tíbet greina frá árunum þöglu í ævi Jesú (sjá grein um Issa handritin). Þau gefa til kynna að Jesús hafi litið á konur sem sanna fulltrúa sköpunarorku Móðurgyðjunnar sem leiddi til frelsunar.

Sagan um fall mannsins átti að vera eftirkomandi kynslóðum víti til varnaðar. Því miður virðist gyðingdómurinn og kristnin hafa misskilið lærdóminn sem draga mátti af henni. Með fordæmingu konunnar hjó sá sem hlífa skyldi. Kirkjan hefur allar götur liðið fyrir arfleifð feðranna sem óafvitandi ólu nöðru erfðasyndarinnar við brjóst sér skrattanum til skemmtunar. Fyrir vikið missti kristin menning sjónar af órjúfanlegri einingu Guðs (þ.e. Elohims) í mynd sköpunar hans á karli og konu í blóra við boðorðið: “Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja” (Mk 10.9).

Þessi sundrung, sem hugtakið “synd” er leitt af, rauf vitund mannsins um órofa einingu himnaföðurins og Móðurgyðjunnar, skaparans og sköpunarinnar, hins andlega og veraldlega, andans og efnisins, ljóssins og myrkursins og svo framvegis. Heildarsýn mannsins á tilverunni glataðist.

Teikn eru á lofti að kristin kirkja á mótum nýrrar aldar sé að snúa vörn í sókn. Kristnir kvennaguðfræðingar hafa til að mynda verið ötulir við að benda á aldagamla kvenfyrirlitningu kirkjunnar og karlímynd trúarinnar sem hefur haft áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu. Þetta gerðist þrátt fyrir að Jesús guðspjallanna mat konur að verðleikum. Einnig ákalla þær móðurímynd Guðs í bænum sínum. Kúgun konunnar hefur þó ekki síður viðgengist í öðrum trúarsamfélögum. Kristnin og vestræn menning hefur færst meir í jafnréttisátt með auknum mannréttindum en í ýmsum öðrum samfélögum. Guðfræðingar hafa þó almennt ekki rifið meinið upp með rótum, þe. endurskoðað til hlítar svart-hvíta heimsmynd kristninnar sem byggir á erfðasynd tvíhyggjunnar sem Adam og Evu var kennt um í árdögum sköpunarinnar (sbr. Rm 5.12-21).

Í næstu grein mun ég fjalla sérstaklega um sögu Maríu guðsmóður og hvernig hún í mörgum jarðvistum var þjálfuð til þess að fæða son Guðs, Jesú Krist, inn í heiminn og gegna hlutverki guðsmóður fyrir allt mannkynið. Ég bendi einnig á bænaáköll til hennar sem undirbúning fyrir sársaukalausri fæðingu verðandi dætra og sona Guðs í Kristi, inn í hið nýja gullaldartímabil Vatnsberans.



HEIMILDASKRÁ


Asger Lorentsen: Menneskets indre univers. Borgens forlag. 1982.

Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Vinátta Guðs, Kvennaguðfræði. Kvennakirkjan, 1994.

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Carl Darwin. The Origin of Species. Means of Natural Selection. Penguin Books, NY, 1981.

David Anrias: Through the Eyes of the Masters, Meditations and Portraits. Routledge and Kegan Poul, 1980.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Years of Jesus. On the discoveries of Notovitch, Abhedananda, Roerich, and Caspari. Summit University Press, NY, 1994. http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strType=List&mo=bs&epag=

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1-4. Summit University Press, 1993. http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2157&mo=bs&epag=

Esther Harding. Woman's Mysteries – Ancient and Modern. Perennial Library, Harper & Row, Publishers, NY, 1976.

Gunnar Kristjánsson. Ritskýring og túlkun Biblíunnar. Úr Mál og túlkun. HÍB, Reykjavík, 1981.

Haraldur Ólafsson. Trú, töfrar og galdur. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Örn og Örlygur, 1976.

Harold Coffin. Óvæntar staðreyndir um sögu jarðar. Borgarútgáfan Fell og Tölvuútsetning. Reykjavík, 1978.

Hjalti Hugason. Guð skapar. Grundvöllurinn er Kristur. Bókaútgáfan Salt. Rvk., 1978.

Herbert Sundermo. Biblíuhandbókin þín. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík, 1974.

Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Reykjavík. Þjóðsaga, Hólar, 1993

Lao Tzu. Bókin um veginn. Staðafell, 1971, 2. útg. Í útg. Í þýðingu Jakobs J. Smára og Ingva Jóhannessonar.

Með sálina að veði. Kvikmyndagagnrýni um “The Devil's Advocate”. DV, 21. jan., 1998.

Mascetti. Óðurinn um Evu. Forlagið. Reykjavík, 1992.

Robert Graves. The Greek Myths, 1-2. bindi, Penguin Books Ltd., Harmondsworth, 1960.

Sigurður Pálsson. Sköpunarsögur. Grundvöllurinn er Kristur. Bókaútgáfan Salt. Rvk., 1978.

Yogi Ramacharaka. Yoga heimspeki. Fjórtán fræðastundir. Vasaútgáfan, Reykjavík, 1987.