Svefnrofalömun Sæl veriði. Það sem ég er að fara að fjalla lítillega um hér að neðan er í raun læknisfræðilegt, en þar sem Svefnrofalömun kemur oft upp í umræðum um drauma og/eða óútskýranlegar upplifanir ákvað ég að reyna að gera betur grein fyrir þessu fyrirbæri.

Svefnrofalömun er eitthvað sem margir verða fyrir eitthvern tíma á lífsleiðinni…sumir oftar en einu sinni og jafnvel reglulega.

Ég hef sjálf lent í þessu þónokkrum sinnum, og alltaf er þetta jafn óþægilegt.

Svefnrofalömun lýsir sér þannig að í svefnrofunum (eða þegar þú ert annaðhvort við það að sofna eða vakna) fer líkaminn í eitthvað einkennilegt ástand. Flestir finna fyrir tímabundinni lömun…oftast einungis í nokkrar sekúndur. Það er eins og meðvitundin sé vakandi en líkaminn sofandi. þessu geta líka fylgt ofskynjanir, og eru þær ástæða þess að mér fannst þetta eiga heima hérna á /dulspeki.

Málið er að ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar rekið mig á það hérna að fólk er að lýsa fyrirbærum sem það sér þegar það er að vakna, eða einkennilegum hljóðum sem það heyrir rétt þegar það er við það að falla í svefn…o.s.frv.

Ég hef nokkrum sinnum bent fólki á grein á doktor.is þar sem svefnrofalömun er lýst. Grein þessi er svar við innsendri spurningu, og svarið er eftir Bryndísi Benediktsdóttur sem er heimilislæknir sérhæfð í svefnrannsóknum. Ég tek mér það bersaleyfi að birta smá part af þessari grein hérna;
Svefnrofalömun kemur snögglega og varir oftast í nokkrar mínútur, hættir jafn snögglega og hún kom eða smá hverfur. Oft verður snerting eða hljóð til þess að lömunin hættir. Á meðan á svefnrofalömun stendur finnst viðkomandi að hann sé vakandi eða í svefnrofunum, hann geti hvorki hreyft legg né lið, og lýsir því eftir á hvernig hann hafi af fremsta megni reynt að hreyfa sig og vakna að fullu. Stundum fylgja svefnrofalömunum ofsjónir eða ofheyrnir. Við ofheyrnir lýsir fólk því að það heyri brothljóð, skóhljóð eða jafnvel fjarlæga tónlist, sem þegar nánar er athugað finnst engin skýring á. Ofsjónum er iðulega lýst sem mannveru sem stendur við rúm eða í gættinni.…Þessar upplifanir geta valdið mikilli hræðslu og geymast í minni þess sem fyrir þeim verður árum saman. Oftast er enginn sjúkdómur að baki þessum einkennum. Þeirra verður meira vart ef svefnvenjur eru óreglulegar og viðkomandi er þreyttur.

Ég trúi því persónulega að yfirnáttúrulegir hlutir gerist og ég geri ekki ráð fyrir að vísindin hafi skýringu á öllu. Ég trúi á anda ofl. þess háttar.

Hins vegar tel ég að Svefnrofalömun sé orsök margra sagna um drauga og óútskýranleg hljóð.

Vonandi hjálpar þetta eitthverjum að skilja betur eitthvað einkennilegt sem viðkomandi hefur orðið vitni af rétt fyrir svefn eða þegar sá/sú er að koma til meðvitundar. Ég veit að ég verð oft logandi hrædd þegar þetta hendir mig (minna þó núna þegar ég veit af þessu fyrirbrigði) og samt sem áður finn ég aldrei fyrir ofskynjunum, aðeins tímabundinni ‘lömun’.

Ef þið hafið áhuga á að lesa meira þá er greinina í heild sinni að finna á slóðinni: http://www.doktor.is/Article.aspx?greinid=1500

Takk fyrir,
-Kallisto
'The entire Fleet knows that this man tried to stab me through the neck. And you missed! Butterfingers!'