Í langa hríð hafa menn velt fyrir sér uppruna og hugmyndafræði Essena. Meðal annars hafa fræðimenn álitið að Essenar hafi verið endurreisnarhreyfing innan gyðingdóms sem vildi gera Ísrael að prestaveldi. Þeir hafi endurspeglað viðleitni margra Gyðinga til að hefja ríkið á ný til vegs og virðingar eftir hörmungarnar af völdum erlendra hernámsliða, útlegðarvista og babýlonskra og hellenskra spillingaráhrifa. Rit nokkurt sem eignað er Essenum og nefnist “Damascus Document” (CD, Dam) virðist styðja þessa skoðun. Það segir meðal annars frá “Stund Iðrunarinnar” sem hófst um 390 árum eftir hernám Nebúkadnesar (CD, Dam 1.5). Hópur innan þeirra vébanda, sem var gegn ákveðnum trúarathöfnum, skar tengslin við fyrri bandamenn og fór í sjálfskipaða útlegð. Hópurinn myndaði sjálfstætt trúarfélag hinna útvöldu um 170 árum f.Kr. Ef til vill átti erlend íhlutun þátt í tilurð þeirra en það skýrir ekki sérestakt líferni þeirra sem braut í bága við gyðinglegan réttrúnað. Ýmsir ritskýrendur hafa talið að trú Essena væri gyðingdómur sem blandast hefði gnóstískum, platónskum, babýlónskum, persneskum og pýtagorískum áhrifum og speki. Fyrirrennarar Essena komu með sér úr útlegðinni frá Babýlóníu ýmsa þætti úr trú bjargvætta þeirra Persanna. Það kemur fram í sterkri áherslu þeirra í tvíhyggju á milli hins góða og illa, hins bjarta og dimma og svo framvegis. Hugmyndir þeirra um sálina voru ansi platónskar. Þeir trúðu því að sálin hafi stigið niður úr hæstu hæðum og ánetjast í líkamanum. Við dauðann risi sál réttlátra aftur til upphæða en þær illu gleymdust í drungalegum ísköldum helli.

Hebreski sagnaritarinn Flavíus Jósefus (37-95 e.Kr.) taldi sjálfur að Essenarnir hefðu tekið upp lífshætti pýtagórasarsinna á meðal Grikkja. Þeir höfðu sameiginlega helgistund þrisvar á dag. Þá sneru þeir sér til austurs en ekki í átt til mustersins í Jerúsalem eins og aðrir Gyðingar. Þeir báðu til sólarinnar við sólarupprás og við sólarlag, skrifaði Jósefus. Sólin virðist því hafa verið þeim tákn fyrir Guð. Þessi helgiathöfn þykir minna á sólarhofsdýrkun í Martand í Kasmír. Fylgjendur Pýtagorosar og gnóstíska safnaðarins sem kenndur er við Hermes Trismegistor ástunduðu svipaða trúariðju. Það þykir nærtækara að heimfæra einlífi þeirra og dulhyggju upp á áhrif frá pýtagorosarsinnum en til indverskrar speki. Þess ber að gæta að Pýtagoras hafði tileinkað sér indverska trúarhætti. Einnig hafði Fíló líkt Essenum við indverska spekinga (gymnósófista).

Essenar notuðu ekki dagatal Gyðinga sem miðaðist við tunglganginn. Dagatal þeirra miðaðist við gang sólar og var töluvert nákvæmara. Hátíðisdagar komu þá alltaf upp á sama vikudegi. Slíkt dagatal stofnsettu brahmínarnir á Indlandi. Síðar tóku Rómverjar bað upp á tímum Júlíusar keisara sem við notum í dag með nokkrum tilfæringum.

Fíló fullyrti að Þerapautarnir (þ.e. búddhísk munkaregla sem lifði skammt fyrir utan Alexandríu í Egyptalandi) og Essenarnir væru af sama toga spunnir. Á 19. öld áleit guðfræðingurinn Adólf Hilgenfeld trú Essena væri gyðingdómur sem blandast hefði persneskum og búddhískum trúaráhrifum. Ennfremur taldi hann að uppruna kristindómsins væri að leita á meðal Essena. Samkvæmt því hafi trú Essena og Þerapauta þróast með samruna búddhadóms og eingyðistrúar Gyðinga líkt og búddhadómur hefði runnið saman við Bon sem er náttúrutrú Tíbetbúa, við heimspeki Taó stefnunnar í Kína og Shinto trúna í Japan.

Hollendingurinn Ernest de Bunsen áleit að búddhískar kenningar hefðu borist með Gyðingum sem bjuggu erlendis til Palestínu þar sem Essenar tóku þær upp á arma sína. Það gæti einkum átt við Gyðinga sem kynntust Þerapautum þegar þeir bjuggu í Alexandríu þegar á 3. öld f.Kr. Hins vegar gæti þetta alveg eins bent til að Þerapautar hafi stundað trúboð í Palestínu sem hefði skilað árangri. Trúaðir Gyðingar gætu hafa innleitt hugsjónir Þerapautanna án þess að hafa afsalað sér eigin menningu og trú. Ernest taldi að síðar hafi þessi búddhísku trúaráhrif gætt á myndun kristinna kennisetninga.

Pliny eldri í Historia Naturalis lýsti klausturlifnaði Essena á vesturströnd Dauðahafsins. Hann sagði að þeir væru ansi sérstæður hópur einlífismanna á háu siðferðisstigi. Þeir lifðu án kvenna, höfðu unnið bug á lægri hvötum og væru sjálfum sé nógir. Stöðugt innstreymi nýliða héldi félagsskap þeirra við. Uppgröftur í Kúmran kirkjugarðinum hafa þó leitt í ljós bein nokkurra kvenna.

Jósefus hefur skráð trúarsiði Essena. Hann lýsti því að þeir væru Gyðingar að uppruna. Þeir ástunduðu meinlæti, höfnuðu veraldlegum auði og deildu öllu bróðurlega sín á milli og séð var fyrir því að enginn liði skort né nauð. Nýliði varð að áhafna söfnuðinum öllum eigum sínum. Þeir notuðu ekki olíu til smurningar og gengu alltaf í hvítum kuflum. Hann og Pliny áætluðu að Essenar væru um 4000 manns og lifðu í stórum hópum í borgum eða bæjum í Júdeu. Hvert samfélag lyti stjórn fyrirmanna. Þeir ferðuðust um léttbúnir og bæru ekki vopn nema sér til varnar gegn ræningjum þar sem þeir væru einlægir friðarsinnar.

Þrír merkir fornleifafundir hafa orðið til að auka þekkingu vora á Essenum og að margra áliti einnig frumkristninni. Fyrst má nefna áðurnefnt “Damascus Document” (CD Dam) sem fannst í Kaíró í Egyptalandi við lok 19. aldar. Nafngiftin er óljós. Í öðru lagi fundur gnóstískra rita við Nag Hammadi í Suður-Egyptalandi árið 1946. Í þriðja lagi fundust árið 1947 leifar mannabústaða í hellum sem Essenar höfðu höggvið inn í berg Karataníafjallanna norð-vestanvert við Dauðahafið ekki langt frá Jeríkó. Þarna höfðu verið geymd samanvöðluð skinnhandrit í innsigluðum leirvösum. Þeim hafði verið komið þar í felur þegar Rómverjar lögðu Jerúsalem í rúst um 68 e.Kr. Fornleifafræðingurinn William E. Allbright telur þær vera frá 1. öld f.Kr. Hann álítur að þær hafi verið einhver mesti fornleifafundur síðari tíma.

Í um kílómetra fjarlægt frá hellunum hafa uppgötvast rústir á svæði sem nefnist Kírbet í Kúmran. Þær voru í fyrstu taldar vera leifar rómversks virkis. Seinna kom í ljós að þarna var klaustur Essena þar sem Dauðahafsritin kunna að hafa verið ritaðar. Þar fundust einnig rúmlega þúsund karlagrafir. Klaustrið er talið hafa verið til frá 8. öld f.Kr. Það var yfirgefið eftir að Ísraelsmenn höfðu verið hernumdir til Babýlonar þar til að það varð aftur tekið í notkun á 2. öld f.Kr. Jarðskjálfti lagði samfélagið í eyði árið 31 f.Kr. en um kristsburð var klaustrið endurlífgað. Heródes landshöfðingi bannaði hreyfingu Essena og lét loka klaustrinu þar til að það var opnað og endurgert að nýju eftir lát hans. Það hélst svo í notkun þar til Rómverjar lögðu það í eyði um 68 e.Kr. eftir uppreisn Gyðinga eins og brunarústir gefa til kynna.

Við fyrstu sýn bera ritin frá Kúmran sterk einkenni rita gyðingdóms og fátt virðist um útlend áhrif. Ritin snúast mikið um lögmál Gyðinga, spámennina og annað efni sem rétttrúaðir Gyðingarnir veltu mikið fyrir sér. Móselögin voru grunnurinn fyrir hugmyndafræði þeirra og verkum. Þeir lásu í sífellu til skiptis eftir leðsögn meistarans, upp úr helgibókunum, íhuguðu innihald þeirra og túlkuðu textana út frá samtíð sinni. Eitt athyglisvert rit fjallar um lög og reglur trúarsamfélagsins. Annað rit fjallar um einlífi munka og lífsreglur fyrir óbreytta leikmenn hreyfingarinnar. Hinir óbreyttu áttu venjulegt fjölskyldulíf en ástunduðu guðræknislegt og grandvart líferni. Nýliðar þurftu að ganga í gegnum allt að þriggja ára reynslutíma áður en þeir urðu góðir og gildir félagar. Smám saman fengu þeir að taka þátt í sameiginlegum máltíðum, helgihöldum og skírnarböðum. Lögð var áhersla á gildi þagnarinnar og vinnunnar, hlýðni við yfirboðara, siðavendni, ögun og algjöra virðingu fyrir Guði og löggjöfunum.

André Dupont-Sommer, prófessor í málum og menningu semískra þjóða, er á meðal þekktustu vísindamanna um Kúmran ritin og sérfræðingur í búddhískum fornminjum. Það hefur veitt honum ómetanlega innsýn inn í þessa tvo menningarheima og færni í því að bera saman búddhamenn og Kúmranfólkið. Niðurstöður hafa fengið hann til að álykta að Kúmransamfélagið hafi vissulega orðið fyrir áhrifum frá búddhadómi. Hann telur að boðskapurinn um samúð og hluttekningu, að elska náungann og bera eigi kala í hjarta til nokkurs, sem er sérstklega áberandi í kúmranritinu “The Testament of the Twelve Patriarchs” (Vitnisburðurinn um patríarkana tólf), sé fenginn að láni frá búddhadómi.

Finna má augljósar hliðstæður á lífsháttum Essena og búddhamanna. Einkum gætti áhrifa búddhadóms (þ.e. Þerapauta) á einlífi þeirra og samfélagshugmyndir. Samfélög hvorutveggja var byggt upp af munkareglu og óbreyttum leikmönnum. Eins og á meðal búddhamanna helgaði fjölskyldan oft frumburðinum til einlífis með munkunum í hellaklaustrunum. Fundist hafa til og með úthöggnir hellar á vesturströnd Indlands þar sem búddhamunkar bjuggu. Búddhamenn og Essenar höfnuðu auði og allri óhófssemi. Sameignarskipulag gilti á meðal leikmannahreyfinganna sem var einstakt í sinni röð. Einnig neyttu þeir eigi kjöts vegna þess að þeim fannst það grimmúðlegt og þeir fordæmdu þrælahald. Þeir lifðu einkum á akuryrkju en höfðu líka húsdýr. Essenar voru skírlífir og guðræknir meinlætamenn sem var harla óvenjulegt á meðal Gyðinga. Í því skyni ástunduðu þeir langar föstur, íhuganir og þagnarstundir. Búddhamenn og Essenar báðust fyrir kvölds og morgna og vörðu miklum tíma í lestur ritninga sinna. Reynslutími, útskúfun úr samfélaginu og virðing fyrir eldri félögum tíðkaðist hjá hvorutveggjum. Hógvært fas Essena minnir á að Búddha mælti fyrir að munkarnir hans skyldu ávallt lúta höfði á gangi. Samhjálp, agað viðmót og skilyrðislaus virðing fyrir öllu lífi var þeim sameiginlegt.
Ýmislegt gefur til kynna að andlegar lækningar, rannsóknir á lækningajurtum og heilunaráhrifum steina hafi verið stór þáttur í lífi Þerapauta, Essena og búddhamanna. Líkt og hjá þesum hreyfingum læknaði Jesús með handayfirlagningum.

Essenarnir höfðu áttfalda greiningu á andlegum þroska sem minnir nokkuð á hina áttföldu leið búddhadóms. Tilgangurinn hjá þeim líkt og hjá búddhamönnum var að ná æðra tilverustigi og uppljómun. Margir Essenar náðu ofurvaldi yfir líkamanum og yfirskilvitlegri skynjun líkt og margir jógar og fakírar á Indlandi sem stunda Kúndalini jóga. Þessir hæfileikar sem Essenarnir lýsa sjálfir voru fjarskyggni og forspárgáfa, að takast á loft, flytjast á milli staða á augabragði, lækna með höndunum og lífga við látna. Veðurskilyrðin við Dauðahafið leyfa andlegar æfingar utandyra árið um kring líkt og jógarnir gerðu.

Essenar voru á móti einstrengni Móselaganna og blóðsúthellingum dýrafórnanna sem tíðkuðust í helgihúsum Jerúsalem. Búddha hafði á hliðstæðan hátt tekið afstöðu gegn merkingarlausum kreddum og blóðfórnum brahmínprestanna á Indlandi nokkrum öldum áður. Svipaða sögu má segja um samskipti Jesú við faríseana í Palestínu – og klerkaveldið á Indlandi og víða annars staðar, samkvæmt Issaritunum.

Ýmsir guðfræðingar og sagnfræðingar telja sig hafa fundið sannanir fyrir því að hugmyndir, trú og kenningar Jesú og ýmissa kristinna frumsafnaða eigi sér margar hliðstæður hjá Essenum og afkomendum þeirra. Í handritum Essena hafa fundist kenningar og boðskapur sem eignaðar eru Jesú eins og til dæmis sæluboðorðin, um heilli öld áður en Nýja testamentið var skrifað.

Átti þessi innbyrðis skyldleiki ef til vill þátt í því að Heródes mikli reyndi að drepa Jesúbarnið og bannlýsti hreyfingu Essena um tíu ára skeið? Ýmis rit hafa fundist sem voru felld niður úr heilagri ritningu þegar hatur hófst á meðal kristinna manna og Gyðinga. Helgidagur flestra kristinna manna og Essena er á sunnudögum en Gyðingar halda hvíldardaginn heilagan (sabbatdaginn) á laugardögum. Á sabbatdeginum færðu Gyðingarnir kjöt, vín og korn að fórn í helgihúsunum og fengu prestarnir sinn skerf af því. Andstaða prestanna gegn Essenum stafaði því að verulegu leyti af því að þeir voru ógnun við mikilvæga tekjulind og valdastöðu sem blóðfórnirnar gáfu þeim. Jesús dró heldur ekki af sér í gagnrýi sinni á stöðu og veldi prestanna sem vakti upp úlfúð þeirra í hans garð sem leiddi til að þeir fengu hann krossfestan. Fíló lýsir því einnig að dulspekingar Gyðinga hafi verið á móti blóðfórnum líkt og jógar á Indlandi sem höfnuðu dýrafórnum.


Skyldleiki Essena og Nasarea

Samkvæmt Epifaníusi frá Konstantíu (Salamis) voru Essenar einnig kallaðir Nasarenar – Nasarenos eða Nasoraios eftir atvikum. Mismunandi stafsetning orðsins gæti vísað til áherslumunar á milli hópa. Munurinn á Nasarenum og Essenum var aðeins á ytra borði. Nasarenar létu hárið vaxa frjálst líkt og indverskir meinlætamenn. Í apokrýfur bók sem kennd er við postulabréf Lentúlusar er Jesús sagður vera hárprúður að hætta Nasarena.

Jóhannes er sagður hafa borið klæðnað úr úlfaldahári (sjá Mt 3.4). Hann skírði með vatni upp úr ánni Jórdan skammt frá aðalbækistöðum Essena við Dauðahafið. Jóhannes var nefndur “Nasorean”. Babýloníufræðingurinn Heinrich Zimmern telur að nafniðið sé dregið af nasaru (eða nasiru) sem Essenarnir fengu frá útlegðarvistinni í Babýlóníu en orðið þýðir “vörður helgra dóma”. Pliny og Jósefus sögðu að sértrúarhreyfing Nasarena bjó við bakka Jórdans og við eystri bakka Dauðahafsins 150 árum fyrir kristsburð. Í flestum biblíuþýðingum er Jesús sagður vera frá Nasaret. Hér er á ferðinni röng þýðing á gríska orðinu Nasarenus. Í Jerúsalemútgáfu Biblíunnar er rétt með farið. Þar stendur að Jesús sé Nasareni í stað Jesús frá Nasaret (sbr. P 22.8; Jh 19.9). Viðurnefnið Nasareni á ekki við bæinn Nasaret í Galíleu eins og ætla mætti út frá Matteusi (Mt 2.23). Hafi verið tilgangurinn að kenna Jesú við upprunastað sinn hefði átt að kalla hann Jesú frá Betlehem. Ekki finnast ritaðar heimildir um að Nasaret hafi verið til fyrir daga Jesú. Litlar sögur hafa farið af bænum því að Natanel spurði Filippus, lærisvein Jesú, hvort að nokkuð gott komi frá Nasaret (sjá Jh 1.46).

Í grísk-þýsku orðabókinni fyrir Nýja testamentið og önnur frumkristin rit frá 1963 stendur skrifað að erfitt sé að finna nokkur máltengsl á milli orðanna Nasarene og Nasaret. Orðið Nasarene er dregið af aramísku rótinni nasar sem þýðir að greina frá, gaumgæfa og taka fyrir. Nasareni er þá sá sem gefur gaum að þjónustunni við guð.

Einnig má finna orðsifjatengsl á milli Nasarena og Nasarita í Gamla testamentinu. Æðstuprestarnir höfðu andúð á þeim vegna þess að Nasaritarnir afneituðu blóðfórnum. Hetjan Samson, sem lét hár sitt vaxa og ástundaði meinlætalifnað, kallaðist Nasoraios eða Nasiraios.

Arabarnir kölluðu frumkristna menn Nasrani eða Nasara. Í helgibók Gyðinga, Talmúdinum, voru þeir kallaðir Nosari. Nasarenar sem voru hliðargrein Essena hafa þá samkvæmt því talist til frumkristinna safnaða ásamt Ebíonítum. Að öðru leyti hafa upplýsingar um tengsl Jesú og frumkristinna safnaða við sértrúarhreyfingu Nasarena og afkomenda Essena verið af skornum skammti fram til þessa.


Voru Essenar friðarsinnar?

Vafi hefur leikið á því hvort að fólkið sem bjó í Kúmran hafi verið Essenar. Misræmi hefur komið fram á milli fyrri heimilda um Essena og þess sem Kúmran ritin hafa leitt í ljós. Til að mynda var talið að Essenar mættu ekki giftast en hjá Kúmranbúum var ekki fyrirstaða fyrir því. Essenar máttu ekki blóta en það áttu Kúmranbúar til að gera. Essenar voru friðelskendur en Kúmranfólkið voru ofsatrúarmenn sem áttu í útistöðum við umhverfið.

Kúmran ritin kveða beint um að klofningur hafi komið fram í þróunarsögu hópsins. Klofningurinn hefur átt sér stað um 100-150 f.Kr. Það gefur til kynna að Kúmran hópurinn hafi skilið sig frá Essenunum. Þá flosnuðu þeir upp frá Kúmran og fóru á flakk í tuttugu ár, sennilega eftir átök við þjóðflokk Parta. Þá tók Kúmranfólkið að fylgja dularfullum leiðtoga sem nefndist Boðberi réttlætisins sem hjálpaði þeim að endurheimta hellana í Kúmran. Skrif sem eignuð eru honum þar sem meðal annars er minnst á launhelgar benda til hellenskra áhrifa auk gyðinglegra heimilda. Rætur þeirra frá Persíu og Babýlóníu komu þá sennilega aftur fram í dagsljósið eins og áhersla þeirra á baráttu andstæðna góðs og ills, ljóss og myrkurs og svo framvegis. Grunntónninn í samfélaginu varð ósveigjanlegri, harðari og í auknum mæli gegnsýrður af dómsdags- og spámannlegum anda Daníels-, Enoks- og Esekíelsbókar. Þá hafa þeir staðfastlega farið að trúa á yfirvofandi komu Messíasar. Þeir voru orðnir reiðubúnir til að nota vopn þegar til lokaátakanna við myrkravöldin kæmi. Hið kunna vers úr bók Habakúks: “Hinn réttláti mun lífi halda fyrir trúfesti síns”, sem Páll skýrði svo að væri trú á Jesú Krist og sem Lúther byggði á siðbót sína… [er] trú á hinn essenska Boðbera réttlætisins.“ (sjá Árin Þöglu í ævi Jesú eftir Francis Potter, s. 17) Orðin: ”Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni…“ (Jes 40.3), sem eignuð eru Jóhannesi skírara skírskotuðu í raun til ”Boðbera réttlætisins“. ”Sáttmáli samfélags“ þeirra bauð þeim að yfirgefa borg hinna ranglátu og ganga út í auðnina og greiða götu Guðs.

Þeir nefndu sig ýmsum nöfnum eins og ”samfélag heilagra“, ”hina Guðs útvöldu“, ”menn sannleikans“, ”Syni ljóssins“, ”Syni Zadóks“ (æðsta prests Davíðs konungs), eða Samfélag fátækra, Ebjonim, þegar þeir vísuðu til safnaðar síns. Ebíónítar varð svo þekkt meðal fyrstu frumkristnu Gyðinganna sem fylgdu ekki kenningum Páls postula. Þeir litu á sig sem lögmæta arfbera Móse og útvalda til að breiða út hinn ”Nýja sáttmála“ líkt og Jesús síðar meir. ”Nýi sáttmáli“ var betri þýðing á aramíska orðinu sem kristnir menn gáfu síðar heitið ”Nýja testamentið". Hann átti að gilda þar til að Messías kæmi sem Aron og Ísrael boðuðu. Þeir álitu að það væri ekki nóg að vera fæddur Gyðingur til að öðlast hlutdeild í Nýja sáttmálanum heldur urðu þeir að leggja sig alla fram til þess að koma á fót hinu sanna Ísrael. Þeir álitu það kall sitt að boða út fagnaðarerindið til fátækra fyrir Guðs náð. Þó að þeir hafi í ýmsu fylgt út í ystu æsar meginreglum gyðingdómsins voru þeir endurreisnarmenn sem í öðrum atriðum viku fra honum svo vafasamt er að kalla þá sértrúarsöfnuð Gyðinga.

Rammgerðar leifar bústaða þeirra í Kírbet benda meðal annars til þess að þeim hafi frekar verið ætlað að vera virki sem áttu að þola umsátursástand heldur en að vera munkaklaustur þar sem ritstörf fóru fram. Sterk tengsl hafa fundist á milli þeirra og Selóta sem var herská ofsatrúarhreyfing og róttækur baráttuflokkur þjóðernissinnaðra Gyðinga.

Ástæðan er greinileg. Þeir hafa verið að undirbúa sig fyrir lokaátökin sem kou með gyðingastríðinu um 60 e.Kr. en þá kom til uppgjörs við Rómverja sem lögðu Kúmran í rúst. Þá hafa hellarnir þar sem Dauðahafsrullurnar fundust verið notaðar sem óhultir geymslustaðir fyrir rit þeirra sem þeim hafði safnast á þrónarferli sínum. Ef til vill hafa þá aðrir hópar notfært sér staðina til að geyma sín rit þegar stríðið skall á.


Vatnsskírnin hjá Essenum og kristnum mönnum

Essenar skírðu nýliða við vígsluathafnir upp úr vatni líkt og Jóhannes skírari gerði. Vatnsskírn markar meiri háttar afvik frá blóðfórnum gyðingdómsins sem töldu að syndir yrðu aðeins hreinsaðar fyrir blóð lambsins. Vatnsskírnin táknar aflausn frá veraldlegum höftum og endurfæðingu andans í nýjum líkama. Samkvæmt Jósefusi fengu nýliðar Essena, sem höfðu staðist prófraun í meinlætalífi, að taka þátt í vatnsskírnum. Hliðstæður háttur er hafður á vígslu nýliða á meðal lamamunka í Tíbet. Telja má að Jóhannes skírari hafi haft fyrirmynd sína um vatnsskírn frá Essenum ásamt öðru sem hann stóð fyrir.

Búddhamenn skíra nýliða með því að hella vatni og mjólk á höfuðið eftir að syndajátning lá fyrir. Í frumkristnu söfnuðunum voru nýkristnir kallaðir hinir uppljómuðu (illuminatus) eftir að þeir höfðu verið endurfæddir til nýs lífs með skírninni. Slík orðanotkun er ekki óþekkt innan búddhadóms. Það kann þó að vera Essenar hefðu tileinkað sér vatnsskírnir sem þeir hefðu varðveitt frá útlegarárunum í Mesópótamíu en þar höfðu vatnsskírnir tíðkast um langan aldur. Að vísu hötuðu allir sanntrúaðir Gyðingar Babýlóníumenn og alla spillinguna sem þaðan kom þó að einhver áhrif þaðan hafi slæðst með.

Uppruna vatnsskírnar er samt sem áður að finna á meðal hindúa á Indlandi sem margir hverjir ástunda á hverjum degi eins og fyrir þúsundum árum. Í annarri bók vedísku Manulaganna er lýst í smáatriðum hvernig barnaskírn fari fram. Atharva Veda leggur áherslu á mikilvægi skírnar með vatni frá hinu heilaga Gangesfljóti. Hugsanlegt er að aðrar þjóðir hefðu beint eða óbeint tekið upp á vatnsskírnum vegna áhrifa frá hindúum.


Heimildir

Charles Francis Potter. Árin þöglu í ævi Jesú. Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1984.

Elmar R. Gruber & Holger Kersten. The Original Jesus. The Buddhist Sources of Christianity. Element. Shaftesbury, Dorset, 1955.

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.