Kennaradeilan virðist vera í óleysanlegum hnút, ef hnút skyldi kalla. Kennarar hafa lagt fram kröfur sínar og segja þær einfaldlega ófrávíkjanlegar. Ég hef sjaldna heyrt það áður, að aðilar sem eru að reyna að semja um einhver mál komi fram með þessum hætti, þ.e. segi að kröfur sínar séu ófrávíkjanlegar. Reynar minnir þetta mig svolítið á kröfur Samfylkingarinnar í síðustu kosningum þar sem flokkurinn sagði nokkur stefnumál sín ófrávíkjanleg kæmi til stjórnarmyndunarviðræðna við aðra flokka. Það er því alveg ónauðsynlegt fyrir deiluaðila að funda á meðan kennarar eru á þeirri skoðun að kröfur þeirra séu ófrávíkjanlegar. Samninganefndin hefur sagt að hún muni ekki ganga að kröfum þeirra eins og þær líta út í dag.

Barátta kennara hefur þó beinst í furðulegar áttir á undanförnum dögum. Ekki skil ég hvernig heilsíðu auglýsing í Fréttablaðinu tengist tengist verkfallinu, nema þó kannski til að afla kennurum samúðar fólks á meintum lágum launum. Í gær boðaði kennarasambandið svo bæjarstjóra stærstu sveitarfélaganna á fund. Auðvitað mættu þeir ekki, enda liggur alveg skýrt fyrir að samningsumboðið í þessari deilu liggur hjá launanefnd sveitarfélaganna. Bæjarstjórarnir og sveitarstjórnir á landinu hafa gefið nefndinni umboð sitt til að semja um laun kennara, og því er með öllu óeðlilegt að bæjarstjórar séu að skipta sér að stöðu mála. Því vaknar aftur sú spurning afhverju kennarar voru að boða til þessa fundar og aftur kemst ég að sömu niðurstöðu og með blaðaauglýsinguna í gær, þetta er allt þáttur í áróðri kennara.

Undanfarna daga hafa forsvarsmenn kennarasambandsins talað mikið um að ríkið þurfi að láta sveitarfélögunum meiri peninga í té, til þess að geta staðið undir launakröfum kennara. Þarna finnst mér kennarasambandið vera komið mjög langt út fyrir starfssvið sitt. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga og peningagreiðslur til sveitarfélaganna eru málefni sem snerta pólitík en ekki þessa tilteknu deilu. Í dag gengu kennarar að Ráðhúsinu og menntamálaráðuneytinu og afhentu yfirlýingar, héldu á spjöldum og létu taka myndir af sér af fjölmiðlum. Þessi skrípaleikur er óþolandi. Búinn að fá mig fullsaddan á þessu. Kennarar eru í áróðursstríði, reyna að höfða til almennings með aðgerðum sínum. Ekki verður hinsvegar séð af neinum aðgerðum kennara að þeir bera hagsmuni nemenda sinna fyrir brjósti og nægir að nefna höfnun á kröfum foreldra þroskaheftra og einhverfra barna um undanþágur sem dæmi. Sorglegt að heyra rökstuðning kennara fyrir því að vilja ekki gefa undanþágu í þessum tilfellum. Reyna að kenna sveitarfélögunum um að hafa ekki sett tiltekna kennara á undanþágulista, en gleyma því alveg að valdið er nú hjá þeim sjálfum að veita þessar undanþágur.

Fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur í dag afhentu kennarar yfirlýsingu. Þórólfur Árnason, borgarstjóri, var ekki við og ekki heldur Stefán Jón Hafstein formaður fræðsluráðs. Um þetta stóð í yfirlýsingu kennara: “Grunnskólakennarar furða sig á því að borgarstjóri og formaður fræðsluráðs skuli ekki vera á landinu þegar 1.500 grunnskólakennarar í Reykjavík hafa lagt niður störf og þúsundir barna á grunnskólaaldri fá ekki notið lögbundins réttar síns til menntunar.” Ég furða mig á þessu orðum. Held að það séu kennarar einir sem standi í vegi fyrir því að þúsundir barna á grunnskólaaldri fá ekki notið lögbundis réttar síns til menntunar. Skil ekki heldur að þessir ágætu menn þurfi að vera á landinu þótt kennarar séu í verkfall. Það er launanefnd sveitarfélaganna sem hefur umboð til samningsgerðar við kennara, ekki borgarstjórinn í Reykjavík.

Það er ergir mig einna mest í þessu öllu er að kennarar telja sig alveg stikkfrí af öllum öðrum áhrifum þess ef gengið verður að kröfum þeirra. Finnst þeir ekki bera ábyrgð á þeirri flóðbylgju annara launahækkunarkrafna sem óhjákvæmilega myndu fylgja í kjölfarið, eins og hjá grunnskólakennurum og framhaldsskólakennurum. Sveitarfélögin hafa líka sagt að þau geti ekki staðið undir kröfum kennara, það kosti einfaldlega of mikið.