Það er ekki auðvelt að skipa í embætti hjá hinu opinbera. Það liggur ljóst fyrir að þegar fjöldi manns sækir um þá verða alltaf einhverjir svektir þegar einn er valinn útúr hópnum. Allir sem sækja um stöður trúa að sjálfsögðu á eigið ágæti og telja sig hæfa til að gegna því embætti sem þeir sækja um. Sumir eru jafnvel búnir að ákveða innra með sér að þeir verði metnir hæfastir og hljóti stöðuna.

Vandi þeirra sem skipar í embættinn er mikill og eru ráðherrar ekki öfundsverðir þegar þeir þurfa að velja einn úr hópi þar sem margir hæfir einstaklingar eru. En það er hlutskipti þeirra, að finna þann sem skarar fram úr. Til grundvallar verður veitingavaldið að leggja einhver málefnaleg sjónarmið, t.d. um nám og reynslu. Það er þó ekki það eina sem þarf að athuga. Margir aðrir þættir skipta einnig máli, eins og hæfileikinn til að stjórn og vinna með fólki, umsagnir um viðkomandi og framtíðarsýn hans í því starfi sem hann er að sækjast eftir skiptir líka máli.

Nýlegasta dæmið þar sem skipa þurfti í stöðu þar sem margir hæfir einstaklingar sóttu um, er rektorsstaða við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í stöðuna var valinn dr. Ágúst Sigurðsson. Sex aðrir umsækjendur hafa óskað eftir rökstuðningi við val Guðna Ágústssonar í þessa stöðu, en það er eðlilegt og eiga umsækjendurnir rétt á því samkvæmt stjórnsýslulögum. En það sem ég hef undrast eru ummæli eins umsækjanda vegna þessa máls, þar sem vinnubrögðum við stöðuveitinguna er líkt við vinnubrögð í þriðja heims ríki! Það er skiljanlegt að einhver sé ósáttur við að fá ekki starfið, en ummæli eru ótrúleg, enda verður ekki annað séð en að hæfur maður hafi verið valinn.

Nú liggur fyrir að velja þarf nýja Hæstaréttardómara, þar sem Pétur Kr. Hafstein mun hætta störfum 1. október. Það hafa margir hæfir lögfræðingar sótt um stöðuna. Það er sama hver verður valin og metin hæfastur, alltaf verður hægt að gagnrýna valið. Það er ekki og verður aldrei til neinn hlutlægur mælikvarði á það hvernig meta skuli hæfi einstaklinga til að gegna hinum og þessum stöðum. Ef Jón Steinar verður valinn munu menn líklega nota ómálefnaleg rök eins og þau að hann sé tengdur Sjálfstæðisflokknum. Ef einhver annar verður valinn verður sjálfsagt endalaust deilt um hvort sá eða einhver annar hafi verið hæfari.

Það tíðkast í æ ríkara mæli að eftir að skipað hefur verið í stöður hjá hinu opinbera þá fari einhverjir ósáttir með kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Sumir fara jafnvel dómstólaleiðina til að krefjast skaðabóta. Allt þetta ferli kostar gífurlega mikla peninga fyrir hið opinbera. Ég held samt að það sé engin leið til að koma í veg fyrir þessa þróun. Fólk er metnaðargjarnt og vil komast í þær stöður sem það sækir um. Veitingavaldið verður samt að fá svigrúm þegar það skipar í stöður. Ráðherrar verða að geta treyst því að þegar þeir velja þann sem þeir telja heppilegastan í starf að það séu lok málsins. Kvartanir til kærunefndar jafnréttismála, umboðsmanns alþingis og jafnvel málsmeðferð fyrir dómsstólum, eiga ekki að vera sjálfsagðir eftirmálar hverrar einustu stöðuveitingar.