Kennarar eru á leiðinni í verkfall á mánudaginn. Fjölskyldulíf allra fjölskyldna í landinu mun riðlast vegna þessa og hætt er við að verkfallið verði langt. Ég held að það séu mjög margir sem eru búnir að missa þolinmæðina gagnvart kennurum, allavega er ég búinn að því og hef enga, alls enga, samúð með kennurum.

Verkfall kennara bitnar á foreldrum, atvinnurekendum og síðast en ekki síst nemendum. Yngstu nemendurnir ættu að fara léttar útúr þessu en þeir eldri, sem eru t.d. að læra fyrir samræmdpróf.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, er einn mesti hrókagikkur sem ég hef séð í sjónvarpi. Hann lýsti því yfir fyrir mörgum mánuðum að kennarar ætluðu í verkfall ef þeir fengju ekki sínu fram. Kröfur kennara um 250.000 kr. laun og allt að 40% launahækkun eru algjörlega útúr kortinu.

Ef ég fengi að ráða myndi ég ekki semja við kennara. Bara býða þangað til verkfallssjóðurinn þeirra tæmist og þeir eru orðnir peningalitlir. Þá koma þeir vælandi að samningaborðinu.

Vanvirðing kennara gagnvart öðru launafólki í landinu sem hefur samið upp á 2-6% almennar launahækkanir er þvílík. Kennarar þurfa bara að átti sig á því að þeir hafa litla menntun (3 ár í háskóla eru lítið í dag), þeir hafa löng frí, þægilegan vinnutíma og eiga auðvelt með að finna sér vinnu.

Þann 8. maí síðastliðinn skrifaði ég grein hér á síðuna um sama mál. Þá strax voru kennarar búnir að setja fram einhliða kröfur sínar um ótrúlega kjarabætur. Síðan þá hefur ekkert rekið í þessum viðræðum, nema þá helst að hrokinn hann Eiríkur Jónsson hefur birst annað slagið í fjölmiðlum og móðgað fólk. Eftirminnilegustu ummæli hans úr þessu kjarabaráttu slag eru án efa þegar hann sagðist ekki fá greidd laun í prósentum, eftir að borið var undir hann að kröfur kennara þýddu allt að 40% launahækkun.

Í dag kom svo Eiríkur fram með hótanir aftur. Íslandsbanki ætlaði að bjóða starfsmönnum sínum að koma með börn sín í vinnuna þar sem þau mynda fara í heilsuskóla. Ekki veit ég nákvæmlega hvað stendur til að kenna í þeim skóla, en veit að þetta er viðleitni stórsatvinnurekanda til að hjálpa sínu starfsfólki, sem lendir í vandræðum með börn sín í verkfallinu. Á heimasíðu Kennarasambandsins birtist yfirlýsing vegna þessa og þar því meðal annars hótað að allar slíkar hugmyndir eru til þess fallnar að auka líkur á að verkfall hefjist og það verði langvinnara en ella. Í sjónvarpsfréttum bætti Eiríkur Jónsson því við að ef fyrirtæki tækju uppá þessu yrði litið á þau sem óvini í þessari baráttu.

Skilboð mín til kennara eru: Hættið að nota saklaus börn fyrir ykkur í kjarabaráttu ykkar og þannig eyðileggja heilt námsár fyrir mörgum.

Annars er alveg ljóst hvernig má leysa öll þessi vandamál, þ.e. með auknum einkarekstri í menntakerfinu. Einnig eiga kennarar að semja hver fyrir sig. Það er óeðlilegt að allir kennarar séu með sömu laun, bara vegna þess að þeir eru með sömu menntun og vinna sama starf. Þeir eiga að fá greidd laun eftir getu og afköstum í starfi, bara eins og gerist á almennun vinnumarkaði. Á heimasíðu barnaskóla Hjallastefnunnar kemur fram að kennarar við þann skóla, sem er einkaskóli, hafa samið um sín kjör og munu því ekki fara í verkfall á mánudaginn.