Ég vil byrja á því að taka það fram að þetta eru aðeins mínar skoðanir og bið ég ykkur um að virða þær, og sleppa því að eyðileggja umræðuna með rifrildum.
Ég er mjög ósáttur við hvernig þjóðfélagið okkar er í dag að mörgu leiti, ég er ósáttur við það hvernig fólk er búið að venjast því að það sé sett fullt af óþarfa lögum sem að hafa engan annan tilgang en að stjórna hegðun annarra án þess að þau séu að skaða aðra. Lög sem að eiga að “vernda fólk” en eru í raun að skera frelsi þeirra til þess að velja og hafna. Mín skoðun er sú að það má aðeins skera á frelsi þegar fólk er að nota það til þess að skaða aðra, svo það er eðlilegt að hafa lög sem að banna morð, þjófnað, ofbeldi og fleira. En lög sem að stjórna því hverja ég hef í vinnu hjá fyrirtækinu mínu, hvað ég set ofan í líkama minn (bæði mat og fíkniefni), neyða mig til þess að styrkja trúfélög og fleira eru ekkert annað en lög sem að skera frelsi mitt án þess að hafa góða ástæðu til þess.
Eins og sést í eftirfarandi málefnum þá er frelsi einstaklingsins ofarlega í huga mínum þegar kemur að því að mynda skoðanir um hlutina.
____________________________________________________
Innflytjendur:
“Þessi helvítis grjón eru að fylla landið”, hversu oft heyrir maður þetta ? Ég hef persónulega heyrt þetta nokkrum sinnum seinustu árin og finnst þessir fordómar margra vera leiðinlegir. Allir hafa auðvitað rétt til þess að tjá sig og hafa sínar skoðanir, en græðir maður eitthvað á því að fara út í öfga og hata útlendinga og jafnvel vissa kynþætti ? Auðvitað er eðlilegt að hafa harðar reglur um innflutning og koma í veg fyrir að fólk sé að flytja hingað til þess að lifa á kerfinu, en átök á milli hópa gera engum greiða. Ég tel að við eigum að leyfa fólki að flytja inn í landið, hvort sem þau séu frá Evrópu eða Asíu. En að það megi ekki hleypa of mörgum í einu og að það sé farið rétt af því. Með réttum aðferðum eigum við alveg að geta leyft erlendu fólki að flytja hingað án þess að lenda í sömu vandræðum og t.d. Danmörk og Frakkland.
Gott yrði að hafa bara vissa tölu um hversu mörgu erlendu fólki megi hleypa inn í landið á ári miða við spár fræðimanna, og ágætt yrði ef það yrði farið yfir þessi mál einu sinni á hverju kjörtímabili alþingis. Og að það sé einnig passað upp á að þetta sé fjölbreyttur hópur fólks frá öllum hornum heimsins. Það þarf að gera þá kröfu til fólks að þau séu búin að búa hérna í nokkur ár og læra stóran hluta af tungumáli okkar og menningu áður en þau fá ríkisborgararétt, en samt á auðvitað að leyfa þeim að halda eigin menningu á meðan þau brjóta ekki lög landsins. Það fer alveg í mínar fínustu taugar þegar það er t.d. hleypt Bandarískum körfuboltaleikmanni inn í landið eins og ekkert sé, þar sem það hlýtur að bitna á einhverjum öðrum. Eigum við ekki frekar að hleypa þeim inn í landið sem að virkilega hafa áhuga á því að verða Íslendingar og vera hér góðir samfélagsþegnar til framtíðar, heldur en þeir sem að vilja tímabundið auka líkur körfuboltaliðs á því að vinna leiki ?
Það er mikilvægt að hafa harðar reglur og þá sérstaklega um fyrstu árin, en við eigum auðvitað að gera þá kröfu að þau séu að gera eitthvað af viti við líf sitt og þjóðfélagið okkar. Ég vil ekki fá hingað fjölda fólks sem að vilja lifa á kerfinu okkar og verða byrgði samfélagsins, ég vil fá hingað einstaklinga sem að eru til í að mennta sig og/eða vera vinnuafl til framtíðar. Ég vil að þeir einstaklingar sem að geri það ekki verði strax vísað úr landi. Það er meira vit í því að hafa sérstakan sjóð til þess að gefa lágmarksstuðning til innflytjenda sem að þurfa á því að halda, fyrstu árin á meðan þau eru að koma sér fyrir. Heldur en að eyða peningum í fólk sem að vill lifa á kerfinu og gera ekkert af gagni. Svo þegar þau eru búin að sanna sig og búin að fá ríkisborgararétt nokkrum árum seinna, þá eiga þau auðvitað að fá sama rétt og allir aðrir Íslendingar þegar kemur að aðstoð frá félagsþjónustu og öðrum stofnunum. En ég er líka á móti því að við komum fram við innflytjendur einungis sem vinnuafl, þetta eru lifandi manneskjur alveg eins og við. Ég vil frekar að við sleppum því að hleypa fólki inn í landið ef við ætlum ekki að gefa þeim sömu tækifæri í lífsgæðakapphlaupinu, það hefur sannað sig að þau lönd sem að fylla láglaunastörf af annað hvort innflytjendum eða bara fólki af vissum kynþætti, eru líklegust til þess að fá átök á milli hópanna.
Sjálfur þekki ég innflytjanda sem er frá Írak, og er hann besti vinur sem ég hef átt á ævinni. En hann er með svo stórt hjarta, lífsreynslu, vilja og hæfileika að hann hefur mikið meira að gefa þessu samfélagi okkar en margir Íslendingar. Ég er rosalega þakklátur fyrir það að hafa hann sem vin og hefur hann pottþétt gert hugarfar mitt opnara þegar kemur að ýmsum málefnum. Ég þekki ekki neinn sem að er jafn duglegur og hann, bæði í starfi og einkalífi. En hann metur starfið sitt rosalega mikið og gerir alltaf sitt besta, einnig þá þekki ég ekki neinn sem að er jafn duglegur og hann að halda heimilinu sínu hreinu. Ég er alveg viss um að einstaklingar eins og hann hafi mjög jákvæð áhrif á samfélagið okkar, og yrði það sorglegt ef að fólk eins og hann fái ekki tækifæri í landinu okkar út af öllum hinum sem að eru að misnota stöðu sína. Við eigum að geta fækkað þeim sem að misnota kerfið einfaldlega með reglum og lögum, algjör óþarfi að fara út í öfga sem að bitnar á fólki.
Málfrelsi:
Málfrelsi er eitt af mikilvægustu mannréttindum okkar og verðum við að virða þessi réttindi ALLTAF, engar undantekningar sama hversu óvinsælar skoðanir við erum að tala um. Um leið og við byrjum að gera undantekningar þá kemur sú hætta að þessi réttindi fari út um gluggann smátt og smátt. Það á aldrei að banna fólki að tjá sig um skoðanir sínar, þó að þær móðgi önnur fólk. Ef þú ert á móti innflytjendum, hommum, forsetanum eða gömlu fólki þá áttu alveg að eiga fullan rétt á því að tjá þig um það. Hvort sem það sé á internetinu, í dagblaði, sjónvarpi eða í samskiptum við fólk. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir fordóma er einmitt að sjá allar hliðar málsins og rökræða svo, með því að banna sumum að tjá sig þá aukum við líkur á að þessir einstaklingar geri uppreisn gegn samfélaginu.
Sama gildir um auglýsingar, þú ættir að fá að auglýsa allt sem er löglegt. Það er ekkert annað en brot á mannréttindum okkar að banna fólki að auglýsa vissar tegundir af vörum. T.d. áfengi og tóbak, þar sem það má selja þessar vörur þá ætti líka að vera hægt að auglýsa kosti hverrar tegundar og af hverju það eigi að kaupa hana frekar en aðra vöru. Sama gildir um lyf, ef þú mátt kaupa lyf þá ætti að vera löglegt að auglýsa þau líka. Það er ekki á ábyrgð fyrirtækjanna að sumir séu svo vitlausir að kaupa þessi lyf án þess að þurfa á þeim að halda. Einnig er það brot á tjáningarfrelsi að hafa skyldugreiðslur til ákveðins fjölmiðils, eða að neyða fólk til þess að borga fyrir ríkisútvarpið. Með slíkum greiðslum er verið að neyða fólk til þess að stuðla að skoðunum sem þau eru jafnvel ósammála.
Trúfrelsi:
Það er mjög mikilvægt að gefa fólki frelsi á því að fara eftir þeim trúarbrögðum sem þau kjósa, og auðvitað að vera utan trúarbragða. Það á EKKI að nota skattpeninga til þess að styrkja trúarfélög, heldur eiga meðlimir í þessum trúarfélögum að styrkja þau sjálf ef þau kjósa að gera það. Það er ósættanlegt að fólk fái aðeins það val að styrkja Háskólann ef maður vill vera utan trúarfélaga. Enda er maður samt að borga hærri skatt af völdum trúarbragða, þó maður velji það að peningurinn fari ekki beint til þeirra. Stjórnvöld og trúarfélög eiga að vera aðskilin, og ætti ekki að þrýsta á fólk til þess að ganga í viss trúarfélög. Ég vil sjá meiri fjölbreytni í trúarbrögðum í framtíðinni en er í dag á Íslandi, og mun fagna því þegar hlutfall kristinna fer undir 50% hérna (þar að segja ef ég verð en þá lifandi). Ekki af því að ég sé eitthvað á móti kristinni trú, heldur af því að ég tel að einstaklingurinn eigi að velja sér trú á hlutlausan hátt eftir eigin samvisku og trú. EKKI til þess að fylgja því sem er normið í samfélaginu.
Sjálfur hef ég búið til mína eigin trú sem aðeins ég fer eftir, þar sem ég trúi að það sé möguleiki á æðra valdi. Ég bara get ekki valið á milli þeirra trúarbragða sem að eru í boði í dag, svo ég ákvað að búa til mína eigin trú eftir því hvernig mér finnst þetta æðra vald vera líklegast til þess að vera í rauninni. Og er bara sáttur við það.
Réttindi samkynhneigðra:
Samkynhneigðir eiga að hafa sömu réttindi og aðrir einstaklingar í þjóðfélaginu, hvort sem það sé að ganga í hjónaband, ættleiða börn eða gefa blóð.
Þau rök sem að hafa verið notuð gegn því að leyfa hjónabönd samkynhneigðra eru oft þau að það sé rangt að gera það þegar kemur að kristinni trú, en hjónaband er ekki aðeins trúarlegt og því tel ég það ekki vera nógu góð rök. Hjónaband er ekki aðeins trúarlegt, heldur er það löglegt og andlegt fyrirbæri. En margir gifta sig út af þeim löglegu fríðindum sem að fylgja því að vera í hjónabandi, og einnig er þetta mikilvæg andleg athöfn til þess að tjá ást sína á annarri manneskju. Trúarfélög eiga að hafa fullan rétt til þess að blessa ekki þessi hjónabönd ef þau telja þau ekki vera í samræmi við trúna, en það sama má ekki gilda þegar kemur að hjónabandi í augum laganna.
Það er ekkert sem að bendir til þess að samkynhneigðir séu verri foreldrar en aðrir. Það eina neikvæða sem hægt er að finna er afleiðing fordóma annarra á þessum ættleiðingum, og er því ekki réttlátt að láta það bitna á fjölskyldum samkynhneigðra. Margir nota þau rök að það sé líklegra að börn samkynhneigðra lendi í einelti, en á virkilega að nota það til þess að banna ættleiðingar ? Af hverju er þá ekki bannað feitum einstaklingum, einstaklingum af öðrum kynþætti, þekktu fólki og fleirum að ættleiða börn ? Einnig þá segja sumir að börn samkynhneigðra séu líklegri til þess að verða samkynhneigð, en flestar rannsóknir sýna að það sé ekki satt. En þó að það væri þannig, eru það nógu góð rök ? Það er ekkert að því að vera samkynhneigður og því er ekkert að því að ala börn upp með opið hugarfar þegar kemur að eigin kynhneigð.
Í dag þá fá karlmenn sem að stunda kynlíf með öðrum karlmönnum ekki að gefa blóð, þar sem að þeir eru taldir vera líklegri til þess að hafa ýmsa kynsjúkdóma eins og t.d. HIV veiruna. Jafnvel þó að þú sért gagnkynhneigður en hefur prófað að stunda kynlíf með karlmanni, þá ertu strax orðinn óhæfur til þess að gefa blóð af mati blóðbankans. Ég vorkenni þeim ekki mikið þegar þau væla í sjónvarpinu um að það sé neyðarástand, þegar fáránlegar reglur eins og þessar eru í gildi. En þetta hlutfall HIV smitaðra homma kemur aðallega út af eldri hommum sem að smituðust af HIV í gamla daga þegar veiran kom fyrst upp hjá samkynhneigðum. En ekkert bendir til þess að ungir hommar í dag séu líklegri að smitast af HIV, enda er þessi tenging á milli samkynhneigðar og HIV búin að hvetja þá meira en annað fólk til þess að nota smokka. Ungar gagnkynhneigðar konur eru þær sem að smitast mest af HIV á Íslandi í dag. Er ekki meira vit að banna bara þeim sem að stunda skyndikynni að gefa blóð ? Frekar en eftir kynhneigðum ? Blóðbankinn vill helst fá fólk í föstum samböndum ef ég man rétt, eða einstaklinga á lausu sem að stunda ekki skyndikynni. Að banna hommum að gefa blóð er ekkert annað en fordómar, eða þeir fordómar að þeir haldi frekar framhjá eða stundi skyndikynni. Reyndar eru sumar rannsóknir sem að sýna að hommar séu “lauslátari” að meðaltali, en það er líklega af því að karlmenn eru líklegri til þess að vilja stunda skyndikynni en konur. En þó að það sé satt, þá er ekki hægt að fordæma alla homma út af þessum niðurstöðum, sjálfur þekki ég marga homma sem að stunda aðeins kynlíf í föstum samböndum.
Jafnrétti kynjanna:
Því miður þá eru í gildi lög sem að hvetja fyrirtæki til þess að ráða það kyn sem að er í minnihluta í starfsstéttinni, þetta er ekkert annað en misrétti á frelsi fólks. Bæði þeirra sem að reka fyrirtækin (sjá um ráðningar) og þeirra sem að sækja um störf. Ef að ég vil reka fyrirtæki og ráða starfsmenn eftir vissum hópum, þá ætti ég auðvitað að mega það enda er þetta mitt eigið fyrirtæki og því ætti ég að fá að ráða því hverjir starfa hjá því. T.d. eftir kyni, kynhneigð, kynþætti, líkamsbyggingu/útliti og fleira.
Hvar á að draga mörkin í núverandi “jafnréttisstefnu” ? Eiga feitar konur að geta kært strippstaði fyrir að fá ekki vinnu vegna útlits ? Eiga konur eða gagnkynhneigðir karlmenn að geta kært fyrir að fá ekki vinnu eða aðgang að skemmtistað aðeins ætlaður hommum ? Ég styð annars að það sé hvatt fyrirtæki til þess að hafa jafnrétti fólks í huga þegar ráðið er fólk, en lagasetning er ekki rétta leiðin. Við verðum að stöðva þessa þróun áður en ástandið verður jafn slæmt hérna og það er í Bandaríkjunum.
Ég skammast mín fyrir þessa þjóð þegar konur koma fram í sjónvarpinu og tala um hvað það sé langt í það að það verði jafnrétti á Íslandi, að mínu mati erum við búin að ljúka 95% af baráttunni. Það er ekki hægt að finna land í öllum heiminum sem að hefur meira jafnrétti kynjanna en Ísland. Hversu mörg lönd hafa krakka og ungt fólk sem að finnst hugmyndin um kvenforseta vera eðlilegri ? Það tók mig langan tíma að venjast því að hafa karl sem forseta hérna.
Það er margt sem að bendir til þess að það séu konurnar sjálfar sem að t.d. eru ábyrgðar á launamismuninum, en rannsóknir sína að konur eru almennt ekki jafn duglegar að biðja um launahækkanir og/eða vera í samkeppni við aðra starfsmenn. Það er ekki hægt að kenna vondum yfirmönnum um þennan launamun, allavega í flestum tilfellum. Einnig þá er ekki hægt að ætlast til þess að helmingur fólks í stjórnmálaflokkum eða á alþingi séu konur þegar karlmenn sækjast frekar í það. Er annars komið jafnrétti þegar kemur að karlmönnum ? Hvernig væri að breyta lögum svo að karlmenn fái forræði barna í helmingum tilfella, séu helmingur háskólanema, fái betri læknisþjónustu til þess að lifa jafn lengi og margt fleira. Konur hafa alveg jafn mörg tækifæri og karlar á Íslandi, hvernig væri að nota þau og hætta að væla ?
Sjálfsmorð:
Ath. ég er EKKI að hvetja fólk til þess að fremja sjálfsmorð, bara svo það sé á hreinu.
En eins og ég sagði þá eigum við að hafa frelsi á meðan það er ekki að skaða aðra beint, sama gildir um sjálfsmorð. Við fæðumst inn í þennan heim og höfum ekki val um að fara bara eftir eigin reglum, við verðum að virða lög og reglur samfélagsins sem að eru gerð til þess að vernda fólk. Þar sem við ætlumst til þess að fólk fari eftir þessum lögum, þá er það minnsta sem við getum gert er að leyfa þeim sem ekki vilja taka þátt að yfirgefa þennan heim okkar. Einnig á að hjálpa þeim sem vilja gera það með lyfjagjöf, t.d. með því að gefa þeim “sjálfsmorðspillu” eins og hermenn hafa notað í stríðum til þess að deyja ekki á kvalarfullan hátt. Auðvitað mæli ég með því að ráðleggja einstaklingnum að nota það aðeins sem seinasta úrræði, að það sé alltaf möguleiki á að bæta líf sitt. En ef að einstaklingurinn er virkilega búinn að gefast upp á lífinu og vill enda það, þá á að leyfa honum að gera það. Margir hafa reynt að drepa sig og það mistekist hjá þeim á hræðilegan hátt, t.d. tekið lyf sem að drepa mann á mjög hægan og kvalarfullan hátt í marga klukkutíma. Og einnig lifa margir það af og enda t.d. sem grænmeti eða lamaðir fyrir neðan háls, og geta því ekki sjálf lokið verkinu og þurfa að lifa þannig sem eftir er.
Þó það sé erfitt að draga þessa línu, þá vil ég líka að það sé löglegt að aflífa einstaklinga sem að enginn möguleiki er á að lækna, ef að nánustu ættingjar samþykkja það. Það er skelfilegt að halda líkamlegu lífi í fólki sem að eiga aldrei eftir að batna. Það er sóun á peningum og kemur einnig oft í veg fyrir að ættingjar nái að syrgja einstaklinginn til fulls.
Áfengi, tóbak og önnur fíkniefni:
Ég vil að ÖLL fíkniefni verði gerð lögleg, þar sem ég tel það er mikilvægt frelsi einstaklingsins að fá að velja hvað hann setur ofan í sinn líkama. Oft eru þau rök notuð að lögleiðing myndi auka neyslu, ég ætla ekki að segja með vissu hvort að það sé rétt eða ekki. En ég tel þau rök allavega oft vera mikið ýkt, svipað og þau rök í gamla daga að lögleiðing bjórsins myndi enda með því að við myndum hella áfengi á morgunkornið og drekka það á hverjum einasta degi. En ef neysla myndi aukast þá er ég frekar viss um að hún yrði aðeins tímabundin á meðan það er svo “flott” að efnin séu orðin lögleg. En er það ekki okkar eigin ábyrgð hvort að við byrjum að nota þessi efni við lögleiðingu eða ekki ? Á ríkisstjórnin virkilega að koma fram við okkur eins og börn og banna okkur að nota viss efni á meðan önnur eru leyfileg ? Það er ekkert nema hræsni að banna fólki að reykja hass á meðan áfengi/sígarettur er lögleg, en eins og flestir vonandi vita að þá eru áfengi og sígarettur mikið skaðlegri og meira ávanabindandi en hass. Flestir sérfræðingar telja hass vera á svipuðu stigi og koffín þegar kemur að fíkn, eigum við ekki bara að banna kaffi og kók (gosdrykkinn) í leiðinni ?
Ég er annars sjálfur á móti því að fólk sé að nota sterkari efni og þá sérstaklega í óhófi, þó að ég hef nú sjálfur fallið fyrir þeirri freistni. En samt tel ég að sá valmöguleiki eigi að vera löglega fyrir hendi. Þar sem ég tel bann ekki skila neinum árangri í baráttunni gegn fíkniefnum. En ég vil reyndar að þau verði ekki jafn aðgengileg og t.d. áfengi og cannabis, heldur vil ég að fólk geti fengið þau í apótekum með lyfseðli frá lækni. Ég er alveg viss um að þessi aðferð myndi minnka neyslu fólks á harðari efnum, því þarna værum við búin að aðskilja sterku fíkniefnin frá þeim veikari. En eins og staðan er í dag þá er varla hægt að kaupa hass án þess að það sé reynt að selja manni eitthvað sterkara líka. Og þá fær maður fagra ræðu um hversu “skaðlaus” og frábær þau séu, yrði ekki skárra að fá lyfseðil hjá lækni sem að varar mann við afleiðingunum ?
Ríkið má ekki nota neyslustýringu á fíkniefni alveg eins og aðrar almennar vörur, ég viðurkenni að það er aukinn kostnaður í kringum þessi efni, en ég vil fara aðrar leiðir en að hafa öfgafullan skatt á þessum vörum. Ég ber ábyrgð á mínum líkama og hvað ég set ofan í hann, stjórnvöld ættu ekki að hafa rétt til þess að skipta sér af því og setja skatt á áfengi svo ég kaupi minna af því. Einnig eru notuð þau rök að fíkniefni hafa kostnað bæði með löggæslu og heilbrigðiskerfið, ég geri mér grein fyrir því en ég er samt ósammála því að það séu nógu góð rök fyrir því að hafa öfgaskatt á efnin. Ég drekk áfengi í hófi, óháð því hvort ég sé á Íslandi eða landi þar sem áfengi er ódýrara. Af hverju ætti ég að þurfa að borga þennan skatt af því að Jói í næsta húsi kann ekki að fara með áfengi ? Með einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu komum við í veg fyrir að það sé verið að nota skattpeninga til þess að borga kostnað þeirra sem að skemma líkama sinn með fíkniefnum. Einnig þá er hægt að fara aðrar leiðir með löggæsluna, eða frekar sekta þá sem að eru að hegða sér illa undir áhrifum. Í stað þess að nota þá ósanngjörnu aðferð að láta alla áfengisneytendur borga fyrir slæma hegðun annarra. Einnig þá er það spurning hvort við eigum að vera að sekta fólk með sköttum fyrir það að vera mögulega að skaða sig sjálf ? Hvar á að draga mörkin ? Eigum við að rukka fólk um hálfa milljón fyrir það að fara á spítala eftir sjálfsmorðstilraun ? Það er ekkert nema hræsni að leyfa sum fíkniefni (þau sem að flestir nota) og banna svo önnur, það er alveg eins og að leyfa fótbolta og banna hnefaleika.
Reykingarsvæði:
Ég vil ekki ganga það langt að segja að það eigi að banna allar reykingar á öllum almenningsstöðum, en það er ekkert svo langt síðan það var mín skoðun. Heldur vil ég frekar að reykingar séu almennt bannaðar á almenningsstöðum, nema þeim stöðum sem að hafa fengið leyfi. Og til þess að fá þetta leyfi þarf staðurinn að fara eftir ströngum reglum, t.d. að það sé aðeins sérstakt reykingarherbergi eða að það sé mjög góð loftræsting á reykingarsvæðum. Einnig þarf að taka fram hjá öllum inngöngum að þetta sé reykingarstaður. Í dag þekkist það frekar að það séu sýnd merki þar sem er BANNAÐ að reykja, en að mínu mati er mikið meira vit í að gera ráð fyrir banni og hafa svo merki á þeim stöðum sem að leyfa reykingar.
Einnig á að vera ólöglegt að reykja í bílum nema farþegarnir séu fullorðnir og gefi leyfi fyrir því, það á að vera stranglega bannað að reykja í bílum þar sem börn eru farþegar. Börn treysta oftast fullorðnum til þess að gera það sem er þeim fyrir bestu, því er ekki hægt að ætlast til þess að þau þurfi að biðja fullorðna um að reykja ekki í kringum sig.
Neyslustjórnun:
Þetta tengist reyndar umræðunni um fíkniefni, en samt getur þetta hugtak náð yfir svo mörg málefni að það er ágætt að fjalla sérstaklega um það. En neyslustjórnun er leið ríkisstjórnarinnar til þess að hafa stjórn á neyslu þjóðarinnar, t.d. hversu mikið við borðum af óhollum mati, hversu mikið við notum fíkniefni, hversu mikið við keyrum bíla og jafnvel hversu mikið við stelum tónlist/kvikmyndum og brennum yfir á geisladiska. En er sanngjarnt að það sé verið að reyna að ala upp fullorðið fólk eins og einhverja smákrakka ? Er það hlutverk þeirra að vera “foreldrar” þjóðarinnar eða eigum við að fá að taka ábyrgð á eigin lífi ?
Ég tel það eiga að vera mín mannréttindi að ég fái að ákveða hvað ég geri við mitt líf á meðan það skaðar engan annan. Ég á að hafa rétt á því að ákveða hvernig mat ég borða, hvernig fíkniefni ég nota og líka hvort ég vilji fá aukapening með skólanum með því að selja mig. Það kemur ENGUM við nema mér sjálfum! Oft er notað þau rök að það gæti haft slæm áhrif á efnahaginn ef að við leyfum fólki að deyja úr offitu og vera dópistar, en er það sanngjarnt ? Fæðumst við til þess að vera frjálsir einstaklingar eða fæðumst við til þess að vera þrælar þjóðfélagsins ? Það er auðvitað frábært að hafa góðan efnahag, en frelsi einstaklingsins ætti að vera alveg jafn hátt eða hærra í forgangsröðinni á meðan það skaðar engan annan en mann sjálfan. Bara því miður get ég ekki annað en fundið fyrir reiði þegar að ríkisstjórnin reynir að næla sér í aukaskatt með því að nota of mikinn skatt á t.d. sykur og fíkniefni og notar það sem afsökun að við höfum ekki vit fyrir okkur sjálfum.
Einkavæðing á heilbrigðiskerfinu:
Ég styð einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu á meðan við förum ekki út í öfga með það, en ég tel það vera mikilvægt að ríkið tryggi lágmarksþjónustu fólks óháð því hvort þau eigi peninga eða ekki. Ég tel það vera ómannúðlegt að henda fólki út á götu fyrir að hafa ekki tryggingu. Ég tel það mjög ólíklegt að grunnþjónustan hjá ríkinu yrði eins og er í BNA, enda eru Íslendingar vanalega ekki eins öfgafullir í svona málum. Fólk sem að er líka hægra megin í pólitík á Íslandi gætu auðveldlega flokkast í miðju í Bandaríkjunum. Einnig þá er ekki mikið um fátækt á Íslandi, og “fátæk fólk” á Íslandi hafa það bara ágætt miða við 80% mannkyns sem að búa við mikið meiri fátækt. Flestir íslendingar ættu að eiga efni á því að fá sér tryggingu, sérstaklega þar sem skattur yrði ekki eins mikill eftir að búið er að skera af heilbrigðisþjónustu ríkisins. Einkavæðingin myndi aðeins hafa jákvæð áhrif á heilbrigðisþjónustu hér á landi, og ýta við þeirri stöðnun sem að hefur verið seinustu árin. Samkeppni hefur jákvæð áhrif og heilbrigðiskerfið er engin undantekning.
Skattar:
Því miður þá fara núverandi stjórnvöld út í mikla öfga þegar kemur að sköttum. Við erum með ósanngjarnt, óhagstætt og flókið skattkerfi. Sem að bitnar á öllum, bæði fátækum og ríkum. En mín skoðun er sú að það á ekki að verðlauna þeim sem að standa sig illa með því að borga minni skatt, eða refsa þeim sem að fá hærri laun með því að borga hærri skatt.
Ég tel það mikilvægt réttindi okkar sem samfélagsþegna að við fáum öll að borga sömu prósentuna í skatt þegar kemur að launum okkar, en ekki að vera að skipta því niður í flokka. Einnig þá tel ég að það eigi að fækka gífurlega óbeinum sköttum og minnka prósentuna á sumum þeirra sem að verða eftir. Ég vil að það verði endurskoðað allt skattkerfið okkar. En þó að ég tali um að minnka skattprósentu á vissa hluti, þá er ég alls ekki að meina að fólk eigi að borga lítinn sem engan skatt. Heldur bara þannig að það sé sanngjarna kerfi, eða að sumir þurfi að borga meira og aðrir minna miða við núverandi stöðu. Þannig að það jafnist út og bitni ekki á þjóðfélaginu.
Virðisaukaskatti á matvörum er skipt niður í tvö þrep, eða 14% og 24,5%. Einnig þá er sett vörugjald ofan á sumar vörur sem að oft eru í 24,5% þrepinu, t.d. te, kaffi, súpur, kökur, gosdrykkir, súkkulaði og fleira. Þetta er ekkert annað en brot á frelsi einstaklingsins, en að mínu mati á maður að geta valið hvaða vörur maður kaupir án þess að vera refsað fyrir að kaupa vissar vörur. Þó að þær séu óhollar, að setja “sykurskatt” er eitt af því fáránlegasta sem ég hef heyrt um á ævinni, og bara blekking til þess að fá meiri skatt frá þjóðinni. Það er t.d. ekkert sem að bendir til þess að fólk minnki gosdrykkju sína þó það sé sykurskattur, en jafnvel þó svo væri þá á það að vera frelsi okkar að velja og hafna án þess að stjórnvöld skipti sér af. Ég vil að virðisaukaskattur á öllum matvörum verði 10% og að öll aukagjöld verði felld niður. Þetta á eftir að koma til góðs sérstaklega fyrir fólk sem að eiga mörg börn og/eða eru á lágmarkslaunum.
Einnig þá vil ég sjá það sama hjá öllum almennum vörum (ath undantekningar). Eða að það sé sama skattprósenta (t.d. 10%) fyrir allar vörur nema nokkrar undantekningar þar sem það er nauðsynlegt, t.d. á bensíni. En það er mikilvægt að fara ekki út í öfga í þeim málum og aðeins hafa skatt miða við það sem er nauðsynlegt, en ekki til þess að skila inn meiri tekjum fyrir stjórnvöld.
Andlegt ástand þjóðarinnar:
Því miður þá er mjög stórt hlutfall þjóðarinnar í ójafnvægi þegar kemur að andlegu ástandi, og er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að gera átak gegn þessu vandamáli í framtíðinni. Mikilvægt er að auka fræðslu og fræða almenning betur um algengustu geðsjúkdómana, t.d. þunglyndi. En ég sjálfur og sumir vina minna þekkja það að verða fyrir miklum fordómum þegar kemur að geðsjúkdómum. Skilningarleysi fyrir sjúkdómunum er mikið og jafnvel hjá fólki sem að eru að vinna í heilbrigðisstéttinni, og er mikilvægt að breyta þessu til þess að auðvelda meðferð og bata hjá sjúklingum.
Einnig er mikilvægt að auka fjár til geðmála, sérstaklega geðdeildir en þar hefur verið algjört neyðarástand seinustu árin. Sjálfur veit ég um dæmi þar sem það hefur verið sett ungmenni á biðlista í jafnvel ár þó að þau hafi reynt að fremja sjálfsmorð, svona ástand er ósættanlegt í ríku landi eins og Íslandi. En auðvitað eiga þeir sem að reyna að fremja sjálfsmorð að geta fengið að fara strax inn á geðdeild. Ég hef sjálfur reynt að fremja sjálfsmorð, og átti að senda mig heim eftir nokkra daga á spítala. Ég var heppinn að móðir mín barðist fyrir því að koma mér inn á geðdeild, en hún vinnur hjá fjölmiðli og þurfti að hóta því að fara með málið þangað ef ég fengi ekki að leggjast inn.
Ég tel einnig mikilvægt að styrkja einstaklinga meira til þess að fara í viðtöl hjá sálfræðingum, eða allavega þeim sem að eru í mjög slæmu ástandi. Sniðugt væri að hafa fleiri sálfræðinga sem að starfa hjá ríkinu, og hafa þann valmöguleika fyrir alla að fá viðtal hjá þeim. Það er ekki sættanlegt að þurfa að borga mörg þúsund krónur fyrir hvern tíma hjá sálfræðingi, en það ætti aðeins að rukka um venjulegt gjald svipað og þarf að borga á heilsugæslustöðvum. En auðvitað eiga þeir sem vilja (og eru tilbúnir að borga fyrir) að eiga rétt á því að fara til sálfræðinga hjá einkastofnunum.
Mikilvægt er líka að breyta stefnu heimilislækna í landinu, en sumir þeirra reyna að sjá um slæm dæmi sjálfir þó að best væri að vísa þeim til sérfræðinga. Einnig þá skrifa margir bara strax upp á lyfseðil fyrir þunglyndislyfjum eins og það sé einhver töfralausn á vandamálinu, en þó að þau gagnist SUMUM þá eru þau langt frá því að vera þessi frábæra lausn sem að margir halda. En mín skoðun er sú að það ætti aðeins að skrifa upp á þunglyndislyf hjá sjúklingum sem að augljóslega hafa fæðst með andlegan sjúkdóm, en ekki fyrir þá sem að eru bara að taka eðlilega dýfu í lífinu. En þessi lyf eru hönnuð til þess að hjálpa fólki sem að hafa viss efni undir eðlilegum mörkum í heilastarfseminni, því tel ég ekki sniðugt að nota þessi lyf hjá sjúklingum sem að eru með eðlilega heilastarfsemi. Allavega í flestum tilfellum.
Mörgum finnst ekki sanngjarnt að vera að borga undir “klikkað fólk” með eigin skattpeningum, þar sem það komi þeim ekki við. En þessu er ég ekki sammála, það er örugglega ekki ein manneskja á öllu landinu sem að verður ekki fyrir beinum og óbeinum áhrifum af andlegu ástandi þjóðarinnar. Með betra andlegu ástandi þjóðarinnar ættum við t.d. að minnka þjófnað, bæta efnahaginn, minnka misnotkun áfengis og annarra fíkniefna, fækka kynferðislegum misnotunum, minnka líkamlegt ofbeldi og fleira. Svo öll þjóðin græðir á því og því sé ég ekkert rangt við það að nota skattpeninga í þetta átak.
Stjórnvöld og kosningar:
Ég væri til í að sjá miklar breytingar í sambandi við stjórnarkerfi okkar, bæði í sambandi við kosningakerfi okkar og stöður fólks. Ég vil að alþingismenn séu aðeins alþingismenn og ekkert annað, sama gildir um ráðherra. Ég tel það vera mjög gamaldags að láta alþingismenn sjá um það að vera ráðherrar og bitnar það örugglega á störfum þeirra, enda eru kröfur til ráðherra orðnar mikið meiri en þær voru á þeim tíma sem það var ákveðið að nota þetta kerfi.
Einnig þá vill ég blanda saman hlutverki forseta og forsætisráðherra með því að láta forsetann sjá um báðar stöðurnar, eða fá forseta sem að er valdamesti einstaklingur á landinu (svipað og í BNA). Hann myndi bæði sjá um það að hitta erlenda leiðtoga og einnig taka almennan þátt í pólitíkinni, eins og með ráðherrana þá hefur hann ekki rétt til þess að kjósa á þingi. En hann má halda þar ræður til þess að hafa áhrif á alþingismenn. Hann myndi búa á Bessastöðum eins og núverandi forseti gerir.
Ég vil einnig sjá miklar breytingar þegar kemur að kosningunum sjálfum. Mér finnst of langt tímabil að fá að kjósa aðeins á 4 ára fresti, og væri því til í að sjá það fara niður í 3 eða jafnvel 2 ár. Einnig þá vil ég að alþingismenn verði í svipuðu hlutfalli og íbúar landsins, eða að það sé eðlilegt að 65% þeirra séu frá höfuðborgarsvæðinu ef að 65% þjóðarinnar búi þar. Einnig þá vil ég að kjósendur fái fleiri valmöguleika í kosningunum, eða að það sé hægt að velja um flokk, forseta og ráðherra í sömu kosningunum.
Ég vil fá beinna lýðræði á Íslandi, það fer rosalega í taugarnar á mér að tveir menn (Davíð og Halldór) geti gert það sem þeim sýnist þegar kemur að framtíð þjóðarinnar. Ef þeir eru harðir á sínu þá geta þeir fengið meirihlutann til þess að kjósa eftir þeirra hugmyndum þó það sé kannski ekki í samræmi við skoðanir allra, þingmenn þora í sumum málum ekki að kjósa eftir eigin sannfæringu vegna ótta við harðstjóranna. Mín hugmynd um beinna lýðræði hljómar svona….
Alþingi og þjóðin skipast á því að samþykkja lög landsins, og forseti Íslands sér um það að ákveða hvaða lög alþingi eigi að sjá um og hvaða lög þjóðin fær að kjósa um. Skiljanlega fer þessi hugmynd illa í suma þar sem forsetinn gæti misnotað vald sitt og leyft alþingi að kjósa um lög sem að flestir myndu telja að þjóðin ætti að fá að kjósa um (t.d. málefni eins og stuðning stríðsins í Írak, Kárahnjúkavirkjun og bætur öryrkja). En það er hægt að koma í veg fyrir það með því að gefa þjóðinni neitunarvald, eða t.d. að 10% kjósenda geti fært lögin yfir til þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskrift sinni. Forsetinn á að fá rétt til þess að taka ákvarðanir fyrir þjóðina ef það er neyðarástand og það þarf að taka ákvörðun á svo stuttum tíma að ekki er hægt að kalla saman alþingi eða að láta þjóðina kjósa um það. T.d. ef að það fréttist að erlendur her sé að fara að ráðast á landið og ákveða þurfi strax hvernig eigi að bregðast við.
Því miður þá tel ég að Íslendingar vanmeti þessi mikilvægu störf sem að eru rosalega mikilvæg fyrir samfélagið okkar, og bitnar það á launum þeirra. En oft finnst mér eins og að skoðanir um laun þeirra byggist á vissum einstaklingum og hvernig þeir hafa staðið sig, sem auðvitað er ósanngjarnt. Launin eiga auðvitað að miðast við STÖÐUNA en ekki einstaklingana sjálfa eða flokkana þeirra. En sjálfur tel ég að það eigi að auka kröfur til þessara starfa og hækka laun þeirra, sérstaklega ráðherra og forseta. En eins og staðan er í dag þá tel ég að við séum að missa fólk til einkafyrirtækja sem að gætu verið að gera góða hluti t.d. sem ráðherrar, en þau kjósa fyrirtækin þar sem launin þar eru mikið betri. Auðvitað verður þessi staða alltaf þannig að það sé hægt að fá betri laun með því að eiga fyrirtæki en t.d. að vera forsetinn. En það þýðir samt ekki að það megi ekki minnka bilið þarna á milli. Hér er dæmi um hvernig ég væri til í að sjá laun þeirra vera eftir skatt…
Alþingismenn: 500 þús krónur.
Ráðherrar: 1 milljón.
Forsetinn: 5 milljónir.
Kynlíf og nekt:
Allt kynlíf og öll nekt eiga að vera leyfileg á meðan það skaðar ekki þriðja aðila. Á meðan það er val einstaklingsins þá á hann að eiga rétt á því að selja líkama sinn, hvort sem það sé með kynlífi eða nekt. Nektardans á að vera leyfilegur hvort sem það sé dans uppi á sviði eða einkadans í lokuðu herbergi, einnig eiga allar tegundir vændis að verða leyfðar á meðan einstaklingurinn hefur aldur til þess og það sé hans eigið val. Einnig eiga allar klámsýningar að vera leyfðar, t.d. þar sem fólk er að stunda kynlíf uppi á sviði fyrir framan áhorfendur. Að banna klámsýningar á meðan klámmyndir eru leyfðar, finnst mér vera eins og að leyfa kvikmyndir og banna leikrit.
Allt kynferðislegt ofbeldi skal vera bannað nema það sé verið að tala um fullorðinn einstakling sem að samþykkir ofbeldið, hvort sem það sé gegn greiðslu eða ekki.
Aldurstakmörk ungmenna:
Því miður þá er uppeldi barna og ungmenna að færast smátt og smátt frá foreldrum og yfir til stjórnvalda, foreldrar hafa ekki jafn mikið að segja um hvað ungmennið fær að gera og hvað ekki. Það er mjög óraunhæft að reyna að semja lög um á hvaða aldri ungmenni séu orðin nógu gömul fyrir eitthvað, til þess að vera örugg með þetta er farið út í öfga og miðað við þá sem að þroskast seinast. Það er ósanngjarnt gagnvart þeim ungmennum sem að eru fljótari að þroskast andlega. Ég tel að maður eigi að verða sjálfráða 18 ára og fá þá að gera ALLT sem maður vill án leyfis frá öðrum aðila, á meðan það skaðar ekki aðra. En að foreldri eigi rétt á því að leyfa ungmenninu vissa hluti eftir mati á þroska hans, t.d. um hvort megi sjá bannaðar myndir eða kaupa vissar vörur ætlaðar fullorðnum.
Það yrði mjög gott að taka upp kortakerfi, eða kort svipað og greiðslukort sem að sýnir hvað ungmennið megi gera og hvað ekki. T.d. þú ert 15 ára gamall og ætlar að fara í bíó á mynd sem að almennt er bönnuð innan 18 ára. Þú réttir afgreiðslumanninum kortið áður en þú borgar, sem að sýnir hvort þú sért búinn að fá leyfi fyrir því að sjá bannaðar myndir. Einnig er hægt að nota svona kort fyrir hvort þú hafir leyfi fyrir því að yfirgefa landið, fara á útihátíð, fara í skólaferðalag, fara inn á skemmtistaði, kaupa fíkniefni, hver útivistatími þinn er og margt fleira.
____________________________________________________
Vil þakka ykkur fyrir að hafa lesið greinina mína, það verður gaman að sjá skoðanir ykkar við þessum málefnum hvort sem þið séuð sammála þeim eða ekki. Takk fyrir.