Þau voru leidd inn í stórt og notalegt herbergi þar sem kveikt var í arninum. Verjur og vopn héngu uppi um alla veggi og auðséð var að bæjarstjórinn var mikill ævintýramaður.
“Fáið ykkur sæti” sagði bæjarstjórinn. “Ætli það sé ekki best að ég byrji á að kynna mig. Ég er Gilvaldr afkomandi Hrekons, bæjarstjóri og verndari þessa bæjar. Hver þið eruð og hví eruð þið hér, fýsir mig að vita”.
Voltranos ræskti sig. “Uhumm. Já, afar merkilegt. Afkomandi Hrekons. Ég sem hélt að ætt hans hefði dáið út fyrir löngu.” Voltranos var djúpt sokkinn í hugsanir sínar: “Ég ætti kannski að segja honum hvers vegna við séum hér.” Hann mælti svo: “Uh, afsakaðu, ég er galdramaðurinn Voltranos, af ætt álfa úr Lárviðarskógi. Þetta er Dinai og þetta eru þeir Drepfer og Durgur. Ástæðan fyrir veru okkar hér, er flókin.”
“Þið leitið að einhverju. Einhverju miklu og fornu, og jafnframt hættulegu. Ég get séð það í augum þínum” sagði Gilvaldr. “Segið mér, vinir, hvers þið leitið, því ég mun bjóða fram aðstoð mína sé verkið ætlað til góðs.”
“Ég sé að ég get treyst þér. Ætli það sé ekki rétt að þú fáir að vita sannleikann, og þið líka Drepfer og Durgur. Við leitum fjársjóðs Firions…”
“Fjársjóðs Fírions!?” greip Gilvaldr fram í fyrir honum.
“Ég ásælist ekki fjársjóðinn, heldur vil ég koma í veg fyrir að ill öfl nái hinu forna sverði Eretarusha, þar á meðal Etelandarnir og leiðtogi þeirra, hálf-djöfullinn Ysíldúren.”
“Þú ætlar þér ekki lítið, en seg mér, hvernig ætlarðu að ná sverðinu atarna og hví ekki að láta það liggja kjurrt, þar sem nær ómögulegt er að ná því?” mælti Gilvaldr.
“Ég hef fengið sýn, þar sem ég sá hræðilega hluti gerast. Borgir brunnu og fólk var höggvið niður með sverðinu. Hvernig við hyggjumst ná því, er ég með eitt ráð. Við höfum báða hlutina úr flautu Herkons, flautuna sjálfa og steininn frá Jil, en það er vandamál að setja það saman.”
“Flautu Herkons! Þar sem ég er afkomandi Herkons hef ég máttinn til að setja flautuna saman, í stað þess að þið þyrftuð að eyða óralöngum tíma í að setja hana sjálfir saman.” sagði Gilvaldr. “Lofið mér að sjá hlutina tvo, og ég skal setja þá saman í nótt á meðan þið endurnærist.”
“Ég þigg það með þökkum” mælti Voltranos.
“Fylgið gestum okkar til rekkju sinnar” sagði Gilvaldr hátt og snjallt.
Þegar til svefnherbergis var komið sagði Drepfer við Voltranos: “Treystir þú honum fyllilega?”
“Já, það geri ég. Það skín af honum heiðarleiki og hugdirfska. Slíkir menn eru ekki á hverju strái. En sofðu nú svo þú verðir tilbúinn fyrir morgundaginn. Ég býst fastlega við því að Gilvaldr komi með okkur.”
Hugsanirnar flugu um í kolli Drepfers. Það var eitthvað svo dularfullt við hann Voltranos. Hvaða ljós og fegurð var þetta sem kom af honum er hann bjargaði þeim frá Ysíldúren? Og var það bara tilviljun og einskær heppni að hann rakst á Drepfer sem bar steininn frá Jil? Hafði Voltranos kannski bara sagt hversu vel Drepfer hafði borið sig af gegn riddaranum til að hylma yfir stærra hlutverki? Og skyldi þessi riddari koma eitthvað meira til sögu, og hví hafði hann ráðist á Durg? En það sem Drepfer fýsti helst til þess að vita var, hverjir þessir Etelandar og Ysíldúren væru og hvernig þeir þekktu Voltranos.
Næsta morgun vöknuðu ferðalangarnir við að verið var að bera inn ýmist góðgæti og matarkyns til þeirra. Gilvaldr, kom inn til þeirra og hélt á flautunni, sem nú bar steininn frá Jil.