Lemony Snicket - Hræðileg grein um ömurlegar bækur! Kæri lesandi.

Mér þykir það leitt, en þessi grein fjallar um bækur sem er einstaklega ömurlegar. Í þeim er sögð mikil sorgarsaga um þrjú afar ógæfusöm börn. Því þótt Baudelaire-systkinin séu heillandi og skarpgreind lifa þau óhamingjusömu og sorglegu lífi. Ósköpin byrja strax á fyrstu blaðsíðu fyrstu bókarinnar þegar börnunum berast hrikalegar fréttir og síðan dynur hvert áfallið af öðru yfir linnulaust. Það má segja að ógæfan elti þau. Það eru til mjög margar gerðir af bókum í heiminum, sem er skynsamlegt, því það eru til mjög margar gerðir af fólki og allir vilja lesa eitthvað mismunandi. En trúðu mér, ef þú kannt illa við bækur þar sem hræðilegir hlutir koma fyrir lítil börn skaltu forðast þessar bækur eins og heitan eldinn og hætta að lesa þessa grein eins og skot!

Þú ert hér ennþá, sem þýðir annaðhvort að þú skiljir ekki íslensku eða að þú hafir áhuga á að vita meira um hræðilega sögu Baudelaire-systkinanna. En ég vara þig við; þessi saga er ömurlegri en nokkuð annað sem þú hefur heyrt um áður.

Fjóla, Kláus og Sunna Baudelaire lifa hamingjusömu lífi þar til daginn þegar foreldrar þeirra og húsið sem þau búa í brenna til kaldra kola. Orðatiltækið ,,til kaldra kola” þýðir hérna, eins og þú sennilega veist, ,,að ekkert hafi verið eftir nema örlitlar leifar af flygli fjölskyldunnar og sviðin sessa úr gluggasyllunni þar sem móðir systkinanna hafði þótt gott að sitja og lesa.” Kunningi Baudelaire-fjölskyldunnar, maður að nafni herra Poe, er dánarbússtjóri fjölskyldunnar og sér um að ráðstafa talsverðum fjármunum sem foreldrar systkinanna létu eftir sig. Samkvæmt erfðarskránni á Fjóla að erfa alla peninga Baudelaire fjölskyldunnar, Baudelaire-sjóðinn, en ekki fyrr en hún er orðin fjárráða. Þangað til mun bankinn geyma þá. Herra Poe þarf líka að koma börnunum einhvers staðar fyrir og því grefur hann upp Baudelaire-ættartréð og finnur fjarskyldan – orð sem þýðir hérna ,,annaðhvort fjórmenningur í þriðja ættlið eða þremenningur í fjórða ættlið” - ættingja barnanna, Ólaf greifa, sem býr hinumegin í borginni. Krakkarnir hafa aldrei áður heyrt um Ólaf greifa, en þar sem hann er eini ættingi barnanna sem býr í nágrenninu láta þau tilleiðast – orðatiltæki sem þýðir hérna ,,vita að þau ráða engu hvort sem er og ákveða því að fara án þess að vera með eitthvað vesen” – og flytja þangað.

Í erfðaskrá foreldra Baudelaire-systkinanna stóð að þau ættu að búa við eins gott atlæti í uppvextinum og hugsanlegt væri. Herra Poe gat því ekki hafa sent systkinin á verri stað. Ólafur greifi er grimmur, stórhættulegur og andstyggilegur maður sem ættleiddi Baudelaire-systkinin aðeins vegna þess að hann vildi koma ógeðslegum krumlum sínum yfir Baudelaire-sjóðinn. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt þér að börnin höfðu sagt herra Poe frá því hversu grimmur, stórhættulegur og andstyggilegur maður Ólafur greifi væri og að herra Poe hefði komið og bjargað þeim úr ljóta, skítuga húsinu sem Ólafur greifi bjó í og farið með þau til góðrar fjölskyldu sem verndaði þau og elskaði til æviloka, en þá væri ég að ljúga að þér. Ef ég segði hins vegar að Ólafur greifi hefði neytt munaðarleysingjana til að gera helling af erfiðum húsverkum – til dæmis að mála pallinn bak við hús uppá nýtt eða elda máltíð fyrir tíu manns – og hrúgað þeim svo inn í eitt sóðalegt svefnherbergi með einu litlu rúmi, sprungnum glugga og pappakassa utan af ísskáp í staðinn fyrir fataskáp væri ég því miður að segja sannleikann. Á örskömmum tíma hafði líf Baudelaire-systkinanna tekið stakkaskiptum – orðatiltæki sem hér þýðir ,,breyst svo rosalega að það væri ekki möguleiki á því að þekkja það aftur” – og þau lifðu í stöðugum ótta við að einn daginn myndi Ólafur greifi finna leið til þess að stela frá þeim Baudelaire-sjóðnum. Því ef hann myndi ná sjóðnum þyrfti hann ekki lengur á systkinunum að halda og þau vissu öll að hann yrði ekki lengi að losa sig við þau - og þá er ég ekki að tala um að senda þau til annars ættingja eða borga fyrir þau far til útlanda eða eitthvað álíka indælt. Þegar Ólafur greifi myndi losa sig við Baudelaire-systkinin myndi hann losa sig við þau þannig að það myndi aldrei spyrjast til þeirra aftur. Aldrei. (Ég sagði þér að þetta væru hræðilegar bækur! )
Munaðarleysingjarnir flýja því frá Ólafi greifa og eru sendir í vist til hvers ættingjans á fætur öðrum, en alltaf er Ólafur greifi handan við hornið og er ekki hræddur við að losa sig við - og þú veist hvað það þýðir – alla sem eru fyrir honum í að ná Baudelaire-sjóðnum. Hann bregður sér í allra kvikinda líki – enda er hann greifi og leikari - og oft er eina leiðin til að þekkja hann að athuga hvort maður sjái augað sem hann er með tattúverað á vinstri ökklann, þó svo að Ólafur grefi hafi fundið aðferðir til að fela það eða augnabrúnina á honum (en Ólafur er bara með eina ógeðslega samvaxna augnabrún) en hann hefur líka fundið leið til að fela hana. Baudelaire-systkinin eru því í stórhættu, sama hvar þau eru.

Saga Baudelaire-systkinanna er skráð af manni sem ber nafnið Lemony Snicket. Hann sór þess dýran eyð – sem hér þýðir ,,lofaði með tíu fingur upp til Guðs og hvítan kross á maga og bannað að hætta við” – að hann myndi koma henni fyrir sjónir almennings sama hvað það kostaði. Hann fæddist áður en þú fæddist og deyr mjög líklega áður en þú deyrð. Hann ólst upp á landi sem nú er sokkið í sæ og eyddi æskuárum sínum í Snicket-villunni – orð sem hér þýðir ,,hús sem er virkilega rosalega stórt og flott” – en er nú á flótta undan yfirvöldum.

Bækurnar um hræðileg örlög Baudelaire-systkinanna eru alls þrettán talsins – sem allir vita að er hræðilegasta tala í heimi rétt á eftir 7 – og hafa tvær þeirra – sem er ekki eins slæm tala – komið út á íslensku. Bækurnar eru koma allar út í einum bókaflokk, sem ber hið óhugnanlega nafn Úr bálki hrakfalla. Bókaútgáfan Mál og Mennig var svo hrikalega óheppinn að slysast til að gefa þær út og ég er nokkuð viss um að ef þeir hefðu vitað hversu hræðilegar bækur þetta væru hefðu þeir ekki einu sinni vogað sér að lesa þær á ensku og hefðu þýtt bók um hóp af litlum hestum og skemmtileg kökuboð í staðinn. Þá er ónefnt kvikmyndaver í Bandaríkjunum búið að taka upp hræðilega bíómynd sem er gerð eftir fyrstu þrem bókunum og var hún frumsýnd núna í desember, sem þýðir að jólin eru óeðlilega niðurdrepandi hjá öllum þeim sem sjá hana. Í aðalhlutverkum eru m.a. – sem hér stendur ekki fyrir Menntaskólinn á Akureyri – Jim Carrey, Meryl Streep og Jude Law, en hvað svona góðir leikarar eru að gera í svona hrikalegri mynd eftir þessum hræðilegu bókum veit ég ekki.

Það var dapurleg skylda mín að segja þér frá þessum bókum en ekkert segir að þú þurfir að lesa þær. Þú mátt þess vegna forðast þær með öllum mögulegum ráðum og grípa ánægjulegra lestrarefni, ef það er það sem þú vilt.

Með vinsemd og virðingu
Ævar Þór Benediktsson



P.S. Ef svo fáránlega vildi til að þig myndi langa til að vita meira um ömurleg örlög Baudelaire-systkinanna geturðu farið inná www.lemonysnicket.com. Ég sé samt enga ástæðu fyrir þig til að vilja það.
P.P.S. Þessi grein hefur áður verið gefin út, í unglingablaðinu Smelli, 2. tölublaði 2004.
"