Jæja, hér kemur 3. kaflinn, nú eru allar aðalpersónurnar komnar til sögunnar og hjólin farin að snúast. Ljóðið rímaði að hluta til í bókinni en mér tókst nú ekki að halda ríminu, enda ekki mjög fær í að hagræða setningum þannig, en í staðinn einbeitti ég mér bara að innihaldinu, ég laga þetta kannski seinna. Ef einhvern langar að spreyta sig, skal sá hinn sami bara láta vita og ég skal birta ljóðið á ensku sem svar við greininni. En ég læt þetta þá bara gossa.
3. kafli
Riddari Solamniu.
Veisla gamla mannsins.
Raistlin hallaði sér fram á við. Þeir Caramon litu hvor á annan og þurftu ekki orð til að tjá hugsanir sínar. Þetta var fágætt atvik, þar sem aðeins alvarleg persónuleg vandamál eða hætta ollu því að hið nána samband tvíburanna varð greinilegt. Kitiara var eldri hálfsystir þeirra.
“Kitiara myndi ekki rjúfa eið sinn nema annar, sterkari eiður byndi hana.” Raistlin talaði fyrir þá báða.
“Hvað skrifar hún?” spurði Caramon.
Tanis hikaði, en bleytti síðan varirnar. “Hún kemst ekki vegna skylda sinna við hinn nýja herra sinn. Henni þykir fyrir því og sendir bestu heillaóskir til okkar allra og ástarkveðjur –“ Tanis fann hálsinn sinn þrengjast. Hann hóstaði. “Ástarkveðjur til bræðra sinna og til –“ Hann þagnaði andartak, en rúllaði síðan saman bókfellinu. “Það er allt og sumt.”
“Ástarkveðjur til hvers?” spurði Tasslehoff glaðlega. “Ái!” Hann leit hvasst á Flint sem hafði traðkað á fætinum á honum. Kenderinn sá að Tanis roðnaði. “Ó,” sagði hann, og leið kjánalega.
“Veistu hvern hún á við?” spurði Tanis bræðurna. “Hvaða nýja herra er hún að tala um?”
“Hver veit þegar Kitiara er annars vegar?” Raistlin yppti öxlum. “Síðasta skipti sem við hittum hana var hér, á gistihúsinu, fyrir fimm árum. Hún stefndi norður ásamt Sturm. Við höfum ekkert frétt af henni síðan. Hvað þessum nýja herra viðkemur, þá myndi ég segja að nú vitum við hvers vegna hún rauf eiðinn gagnvart okkur: Hún hefur heitið hollustu sinni öðrum. Hún er, eftir allt saman, málaliði.”
“Já,” viðurkenndi Tanis. Hann renndi samanrúlluðu bréfinu aftur í hulstrið og leit upp á Tiku. “Þú sagðir að þetta hefði borist við skringilegar aðstæður? Segðu frá.”
“Það var maður sem kom með það, seint í morgun. Ég held að minnsta kosti að hann hafi verið maður.” Það fór hrollur um Tiku. “Hann var vafinn frá hvirfli til ilja í föt af öllum mögulegum gerðum. Ég sá ekki einu sinni framan í hann. Röddin var hvissandi og hann talaði með skrýtnum hreim. “Láttu Tanis nokkurn Half-Elven fá þetta,” sagði hann. Ég sagði honum að þú værir ekki staddur hér og hefðir ekki verið í nokkur ár. “Hann mun koma,” sagði maðurinn. Síðan fór hann.” Tika yppti öxlum. “Meira veit ég ekki. Gamli maðurinn þarna sá hann líka.” Hún benti í átt að gömlum manni sem sat á stól fyrir framan arineldinn. “Þú gætir spurt hann hvort hann hafi tekið eftir einhverju fleiru.”
Tanis sneri sér við og sá gamlan mann sem var að segja draumeygðu barni sem starði inn í eldinn sögu. Flint snerti handlegg hans.
“Hér kemur maður sem getur sagt þér ýmislegt,” sagði dvergurinn.
“Sturm!” sagði Tanis hlýlega og sneri sér að dyrunum.
Allir nema Raistlin fóru að dæmi hans. Galdramaðurinn hallaði sér inn í skuggann á ný.
Í dyrunum stóð mannvera, bein í baki og klædd fullum spangaherklæðum og hringabrynju, með tákn Reglu Rósarinnar á brjóstplötunni. Fullt af fólki á gistihúsinu sneri sér við og starði og yggldi sig. Maðurinn var solamnískur riddari, og riddarar Solamniu höfðu fallið í ónáð fyrir norðan. Orðrómur um spillingu þeirra höfðu meira að segja borist alla leið hingað. Þeir fáu sem mundu eftir Sturm sem fyrrum íbúa Solace til langs tíma ypptu öxlum og sneru sér aftur að drykkju sinni. Þeir sem það gerðu ekki, héldu áfram að stara. Á þessum friðardögum, var nógu óvenjulegt að sjá riddara í fullum herklæðum stíga inn á veitingahúsið. En það var jafnvel enn óvenjulegra að sjá riddara í fullum herklæðum sem voru frá því fyrir Syndaflóðið!”
Sturm tók augnaráði fólksins sem viðurkenningu á stöðu hans. Hann hagræddi varlega hinu mikla, þykka yfirvaraskeggi, sem, auk þess að vera ævafornt tákn riddaranna, var jafnúrelt og herklæðin. Hann bar útbúnað solamnísku riddaranna með stolti sem ekki var hægt að draga í efa – og var nógu fær í að beita sverði til að verja það stolt. Þrátt fyrir að fólk á gistihúsinu starði á hann, þá vogaði samt enginn sér – eftir að hafa litið einu sinni á róleg, alvarleg augu riddarans – að flissa eða koma með niðrandi athugasemd.
Riddarinn hélt dyrunum opnum til að hleypa hávöxnum manni og konu í þykkri skinnskikkju, inn fyrir. Konan hlaut að hafa þakkað Sturm, því hann hneigði sig fyrir henni á formlegan, gamaldags hátt sem var löngu útdauður á þessum tímum.
“Sjáið þetta.” Caramon hristi hausinn í aðdáun. “Hugprúði riddarinn hjálpar fögru konunni. Hvar ætli hann hafi fundið þessi tvö?”
“Þau eru villimenn af sléttunum,” sagði Tas, sem stóð upp á stól og veifaði vini sínum. “Þetta er klæðnaður Que-shu ættbálksins.”
Það var greinilegt að sléttufólkið afþakkaði eitthvað sem Sturm hafði verið að bjóða þeim, því að riddarinn hneigði sig aftur og yfirgaf þau. Hann gekk þvert yfir fjölmennt gistihúsið með stolti og göfugleika, eins og hann væri á leið til þess að vera sleginn riddari af kónginum.
Tanis reis á fætur. Sturm sneri að honum fyrstum og vafði örumunum um vin sinn. Tanis tók þéttingsfast utan um hann, og fann sterka, vöðvastælta handleggi riddarans umvefja hann af hlýhug. Síðan stigu þeir aftur á bak og litu hvor á annan í smá stund.
Sturm hefur ekki breyst, hugsaði Tanis, fyrir utan það að hrukkunum umhverfis dapurleg augun hefur fljölgað og brúnt hárið farið að grána örlítið. Skikkjan er aðeins snjáðari. Ögn fleiri beyglur í fornum herklæðunum. En lafandi yfirvaraskegg riddarans – stolt hans og gleði – var eins sítt og áður, skjöldurinn jafn vel fægður, brún augun alveg jafn hlýleg þegar hann sá vini sína.
“Og þú ert orðinn skeggjaður,” sagði Sturm og virtist skemmt.
Síðan sneri riddarinn sér að Caramon og Flint til að heilsa þeim. Tasslehoff flýtti sér í burtu að ná í meira öl, því að Tika hafði þurft að fara að sinna öðrum í sífjölgandi margmenninu.
“Heill og sæll, riddari,” hvíslaði Raistlin úr horninu.
Andlit Sturms varð alvarlegt þegar hann sneri sér að hinum tvíburanum. “Raistlin,” sagði hann.
Galdramaðurinn dró hettuna frá andlitinu og leyfði ljósinu að skína framan í sig. Sturm var of virðulegur til að láta í ljósi undrun sína meira en með lágu ópi. En hann rak upp stór augu. Tanis áttaði sig allt í einu á að ungi galdramaðurinn naut þess kaldhæðnislega að sjá hvað vinum hans þótti þetta óþægilegt.
“Get ég fært þér eitthvað, Raistlin?” spurði Tanis
“Nei, þakka þér,” svaraði galdramaðurinn og færði sig inn í skuggann aftur.
“Hann borðar nánast ekkert,” sagði Caramon með áhyggjutón í röddinni. “Ég er farinn að halda að hann nærist á lofti.”
“Sumar plöntur nærast á lofti,” fullyrti Tasslehoff, um leið og hann kom aftur með öl handa Sturm. “Ég hef séð þær. Þær svífa í lausu lofti yfir jörðinni. Rætur þeirra sjúga fæðu og vatn úr andrúmsloftinu.”
“Er það?” Caramon rak upp stór augu.
“Ég veit ekki hvor ykkar er meiri fábjáninn,” sagði Flint með viðbjóði. “Jæja, það eru allir komnir. Hvað er að frétta?”
“Allir?” Sturm leit spurnaraugum á Tanis. “Hvað með Kitiöru?”
“Hún kemur ekki,” svaraði Tanis ákveðið. “Við vorum að vona að þú gætir kannski sagt okkur eitthvað.”
“Ekki ég.” Riddarinn hnyklaði brýnnar. “Við ferðuðumst norður saman og skildum stuttu eftir að hafa farið yfir Sundin inn í gömlu Solamniu. Hún sagðist ætla að reyna að hafa upp á ættingjum föður síns. Það var það síðasta sem ég sá til hennar.”
“Jæja, ég býst við að það nái ekki lengra.” Tanis andvarpaði. “Hvað með þína ættingja, Sturm? Fannstu föður þinn?”
Sturm byrjaði að tala, en Tanis hlustaði aðeins með öðru eyranu á frásögn Sturms af ferðum hans til lands forfeðra hans, Solamniu. Hugur Tanis dvaldi á Kitiöru. Af öllum vinum hans, hafði hún verið sú sem hann hlakkaði mest til að hitta. Eftir að hafa reynt í fimm ár að hætta að hugsa um dökku augun og hlykkjótta brosið, hafði hann aðeins komist að því að löngun hans til að hitta hana óx með hverjum deginum. Villt, bráðlát, skapheit – skylmingakonan var allt sem Tanis var ekki. Hún var líka mennsk og ástir milli manna og álfa snerust alltaf upp í harmleik. Samt sem áður gat Tanis ekki frekar losnað við Kitiöru úr hjarta sínu frekar en mennska helmingnum úr blóði sínu. Hann braust út úr minningum sínum og fór að hlusta á Sturm.
“Ég heyrði sögusagnir. Sumir segja að faðir minn sé allur. Sumir segja að hann sé á lífi.” Andlit hans varð myrkara. “En enginn veit hvar hann er.”
“Hvað með arfleifð þína?” spurði Caramon.
Sturm brosti, dapurlegu brosi sem mýkti línurnar í stoltu andlitinu. Ég er í henni,” svaraði hann einfaldlega. “Herklæðin og vopn mitt.”
Tanis leit niður og sá að riddarinn var gyrtur úrvals, þó gamaldags væri, beggja handa sverði.
Caramon stóð upp til að kíkja yfir borðið. “Þetta er gersemi,” sagði hann. “Þau eru ekki gerð svona lengur. Sverðið mitt brotnaði í bardaga við tröll einu sinni. Theros Ironfeld setti nýtt blað í það fyrir mig í dag, en það var dýrt. Svo að þú ert þá orðinn riddari?”
Brosið hvarf af andliti Sturms. Hann hunsaði spurninguna og fór ástúðlegum höndum um meðalkaflann á sverðinu sínu. “Samkvæmt þjóðsögunni mun þetta sverð aðeins brotna ef ég geri það,” sagði hann. “Það var það eina sem eftir var eftir föður minn –“
Tas, sem hafði ekki verið að hlusta, greip skyndilega fram í. “Hvaða fólk er þetta?” hvíslaði kenderinn skrækróma.
Tanis leit upp þegar sléttufólkið gekk fram hjá borðinu þeirra og stefndi á lausa stóla sem stóðu í skugga úr í horni rétt hjá arninum. Maðurinn var sá allra hæsti maður sem Tanis hafði nokkurn tíma séð. Caramon – þó hann væri tveir metrar á hæð – næði aðeins upp að öxlum þessa manns. En brjóstkassi Caramons var líklega helmingi þykkari, handleggirnir þrisvar sinnum stærri. Þó að maðurinn væri þétt vafinn í húðir þær sem villimenn sléttuættbálkanna klæddust, var það augljóst að hann var grannur miðað við hæð sína. Andlit hans, þó að það væri dökkt á hörund, var heldur fölt eins og andlit manns sem hefur verið veikur eða þjáðst mikið.
Förunautur hans – konan sem Sturm hafði hneigt sig fyrir – var svo dúðuð í bólstraða kápu með hettu að það var erfitt að segja mikið um hana. Hvorki hún né hinn hávaxni fylgdarmaður hennar litu á Sturm þegar þau gengu hjá. Konan bar venjulegan staf skreyttan fjöðrum á frumstæðan hátt. Maðurinn hélt á snjáðum bakpoka. Þau settust niður á stólana, hnipruðu sig saman í skikkjum sínum og töluðu saman í hálfum hljóðum.
“Ég fann þau ráfandi um á götunni fyrir utan bæinn,” sagði Sturm. “Konan virtist vera að þrotum komin og maðurinn ekki skárri. Ég kom með þau hingað og sagði þeim að hér gætu þau fengið mat og hvíld um nóttina. Þau eru stolt og hefðu afþakkað hjálp mína, held ég, en þau voru týnd og þreytt og” – Sturm lækkaði róminn – “það er ýmislegt á götunum þessa dagana sem er betra að hitta ekki í myrkrinu.”
“Við hittum nokkra þeirra, sem spurðu um staf,” sagði Tanis hörkulega. Hann lýsti samskiptum þeirra við Fewmaster Toede.
Þrátt fyrir að Sturm brosti að lýsingunni á bardaganum, hristi hann hausinn að henni lokinni. “Leitaravörður yfirheyrði mig um staf fyrir utan,” sagði hann. “Blár kristall, var það ekki?”
Caramon kinkaði kolli og lagði höndina á mjóan handlegg bróður síns. “Einn af þessum slímugu vörðum stoppaði okkur,” sagði stríðsmaðurinn. Þeir ætluðu að taka staf Raistlins, hvort sem þið trúið því eða ekki – “til frekarri rannsókna,” sögðu þeir. Ég skók sverið mitt í átt til þeirra og þeir skiptu um skoðun.”
Raistlin færði hendina undan snertingu bróður síns, með hæðnislegt glott á vörunum.
“Hvað hefði gerst ef þeir hefðu tekið stafinn þinn?” spurði Tanis Raistlin.
Galdramaðurinn leit á hann undan hettunni með glampa í gylltum augunum. “Þeir hefðu dáið hryllilegum dauðdaga,” hvíslaði galdramaðurinn, “og ekki af völdum sverðs bróður míns!”
Það fór hrollur um hálfálfinn. Mjúkleg ræða galdramannsins var mun meira ógnvekjandi en mannalæti bróður hans. “Hvað ætli sé svona mikilvægt við þennan bláa kristalstaf fyrst að svartálfar eru reiðubúnir að drepa til að koma höndum yfir hann?” velti Tanis fyrir sér.
“Það eru sögusagnir um að verra sé á leiðinni,” sagði Sturm hljóðlega. Vinir hans færðu sig nær til að heyra í honum. “Herir eru að safnast saman fyrir norðan. Herir byggðir upp af skrýtnum skepnum – ómennskum. Það er talað um stríð.”
“En hvað? Hverjir?” spurði Tanis. “Ég hef heyrt það sama.”
“Og það hef ég líka,” bætti Caramon við. “Ég hef reyndar heyrt –“
Eftir því sem samtali hélt áfram, geispaði Tasslehoff og sneri sér undan. Honum leiddist fljótt svo hann leit í kring um sig á gistihúsinu og reyndi að finna sér eitthvað skemmtilegt til að fyljgast með. Augu hans flökkuðu að gamla manninum, sem var enn að spinna upp sögur fyrir barnið við eldinn. Áheyrendahópur gamla mannsins hafði stækkað, því sléttufólkið fylgdist líka með, tók Tas eftir. Síðan gapti hann.
Konan hafði látið hettuna síga og bjarminn frá eldinum skein á andlit hennar og hár. Kenderinn starði í aðdáun. Andlit konunnar var eins og andlit á marmarastyttu – sígilt, tært, kalt.
En það var hárið hennar sem fangaði athygli kendersins. Tas hafði aldrei áður séð þvílíkt hár, sérstaklega meðal sléttufólksins, sem var venjulega dökkhært og dökkt á hörund. Enginn skartgripasmiður, sem vefur saman bráðnum lengjum af silfri og gulli, hefði getað náð þeim áhrifum sem silfur-gyllt hár konunnar hafði þar sem það skein í eldsbjarmanum.
Það var ein önnur manneskja sem hlustaði líka á gamla manninn. Þetta var maður, klæddur í hinn ríkulega brúna og gyllta kufl Leitara. Hann sat við lítið kringlótt borð og drakk kryddað vín. Nokkrar krúsir stóðu tómar fyrir framan hann og hann pantaði fýlulega meira á meðan kenderinn horfði á hann.
“Þetta er Hederick,” hvíslaði Tika þegar hún gekk fram hjá borði félaganna. “Háklerkurinn.”
Maðurinn kallaði aftur, og horfði hvasst á Tiku. Hún flýtti sér yfir til hans. Hann talaði reiðilega og minntist á lélega þjónustu. Hún virtist byrja að svara ákveðið fyrir sig en hætti við og þagnaði.
Gamli maðurinn lauk við söguna sína. Strákurinn andvarpaði. “Eru allar sögurnar þínar um gömlu guðina sannar, gamli maður?” spurði hann forvitnislega.
Tasslehoff sá Hederick gretta sig. Kenderinn vonaði að hann myndi ekki fara að angra gamla manninn. Tas hnippti í hendina á Tanis og kinkaði kolli í átt að Leitaranum með svip sem gaf til kynna að vandræði væru í aðsigi.
Vinirnir sneru sér við. Allir voru samstundis gagnteknir af fegurð sléttukonunnar. Þeir störðu þegjandi.
Rödd gamla mannsins heyrðist greinilega þrátt fyrir suðið frá öðrum samræðum í setustofunni. “Vissulega eru sögur mínar sannar, barn.” Gamli maðurinn leit beint á konuna og hinn hávaxna fylgdarmann hennar. “Spurðu þessi tvö. Þau geyma slíkar sögur í hjörtum sínum.”
“Er það?” Strákurinn sneri sér ákafur að konunni. “Getið þið sagt mér sögu?”
Konan hallaði sér aftur inn í skuggana, felmtri slegin því hún tók um leið eftir því að Tanis og vinir hans störðu á hana. Maðurinn færði sig nær henni eins og til að verja hana og hann teygði sig í vopn sitt. Hann hvessti augun á hópinn, sérstaklega hinn vel vopnaða stríðsmann, Caramon.
Taugaóstyrki skíthæll,” sagði Caramon og lét hendina sína reika að hans eigin sverði.
“Ég skil hvers vegna,” sagði Sturm. “Þar sem hann er að verja slíkan fjársjóð. Hann er lífvörður hennar, meðan ég man. Mér skildist af samræðum þeirra að hún væri einhvers konar höfðingborin kona í ættflokki þeirra. Ég held samt að samband þeirra sé ívið nánara en það, af því augnaráði sem þau skiptust á að dæma.”
Konan lyfti höndinni til að mótmæla. “Mér þykir fyrir því.” Vinirnir þurftu að sperra eyrun til að heyra lága rödd hennar. “Ég er ekki góður sögumaður. Ég hef það ekki í mér.” Hún talaði á samtungunni, en með þykkum hreim.
Ákaft andlit barnsins fylltist vonbrigðum. Gamli maðurinn klappaði honum á bakið, en leit síðan beint í augu konunnar. “Það getur verið að þú sért ekki góður sögumaður,” sagði hann ánægjulega, “en þú syngur söngva, er það ekki, höfðingjadóttir? Syngdu sönginn þinn fyrir barnið, Goldmoon. Þú veist hvern ég meina.”
Lúta virtist birtast upp úr þurru í höndum gamla mannsins. Hann rétti konunni hana, sem starði á hann af ótta og undrun.
“Hvernig … veistu hvað ég heiti, herra?” spurði hún.
“Það skiptir ekki máli.” Gamli maðurinn brosti blíðlega. “Syngdu fyrir okkur, höfðingjadóttir.”
Konan tók við lútunni með höndum sem skulfu auðsjáanlega. Félagi hennar virtist hvísla einhver andmæli, en hún heyrði ekki í honum. Glitrandi augu gamla mannsins héldu augum hennar föstum. Hægt, eins og í leiðslu, byrjaði hún að glamra á lútuna. Þegar angurværir tónarnir byrjuðu að berast út um setustofuna, fækkaði samræðum. Brátt voru allir byrjaðir að fylgjast með henni, en hún veitti því enga eftirtekt. Goldmoon söng fyrir gamla manninn einan.
Graslendið er endalaust,
og sumarið syngur,
og Goldmoon prinsessa
elskar son ólánsams manns.
Höfðinginn, faðir hennar,
lengir vegina á milli þeirra:
Graslendið er endalaust, og sumarið syngur.
Graslendið bylgjast,
sjóndeildarhringurinn er grár,
höfðinginn sendir Riverwind
austur og á brott,
til að leita öflugra galdra
þar sem sólin rís,
graslendið bylgjast, sjóndeildarhringurinn er grár.
Ó Riverwind, hvað hefur orðið af þér?
Ó Riverwind, það er tekið að hausta.
Ég sit við ána
og horfi á sólina rísa,
en sólin rís einsömul yfir fjöllunum.
Graslendið dofnar,
sumarvindurinn deyr,
hann kemur aftur, með augun
jafn myrk eins og tinnusteinn.
Hann ber með sér bláan staf
eins bjartan og jökull:
Graslendið dofnar, sumarvindurinn deyr.
Graslendið er viðkvæmt,
gult eins og eldurinn,
höfðinginn hlær
að kröfum Riverwinds.
Hann skipar fólkinu
að grýta unga stríðsmanninn:
Graslendið er viðkvæmt, gult eins og eldurinn.
Graslendið hefur dofnað,
og það er komið haust.
Stúlkan stendur með unnusta sínum,
steinarnir þjóta hjá,
Stafurinn blossar upp í bláum bjarma
og þau hverfa bæði:
Graslendið er dofnað, og það er komið haust.
Það var dauðaþögn í herberginu þegar hönd hennar sló síðasta hljóminn. Hún dró andann djúpt, rétti gamla manninum lútuna aftur og dró sig í hlé í skuggunum á ný.
“Þakka þér fyrir, kæra mín,” sagði gamli maðurinn, brosandi.
“Má ég núna heyra sögu?” spurði litli strákurinn löngunarfullur.
“Að sjálfsögðu,” svaraði gamli maðurinn og kom sér aftur fyrir í stólnum sínum. “Endur fyrir löngu, var hinn mikli guð, Paladine –“
“Paladine?” greip barnið fram í. “Ég hef aldrei heyrt um guð sem heitir Paladine.”
Hnussandi hlátur barst frá Háklerkinum sem sat við borðið rétt hjá. Tanis leit á Hederick, sem var rauður í framan og yggldur á brún. Gamli maðurinn virtist ekki taka eftir því.
“Paladine er einn af hinum fornu guðum, barn. Enginn hefur tilbeðið hann í langan tíma.”
“Af hverju yfirgaf hann okkur?” spurði litli strákurinn.
“Hann yfirgaf okkur ekki,” svaraði gamli maðurinn, og bros hans varð dapurlegt. “Menn sneru frá honum eftir hina myrku daga Syndaflóðsins. Þeir kenndu guðunum um eyðileggingu heimsins, í staðinn fyrir að áfellast sjálfa sig, eins og þeir hefðu átt að gera. Hefurðu nokkurn tíma heyrt “Óð drekans”?”
“Ó já,” sagði drengurinn ákafur. “Ég elska sögur um dreka, þó að pabbi segi að drekar séu ekki til. Ég trúi samt á þá. Ég vona að ég sjái einn einhvern daginn!”
Andlit gamla mannsins virtist eldast og fyllast hryggð. Hann strauk hár unga drengsins. “Passaðu hvers þú óskar þér, barnið mitt,” sagði hann mjúklega. Síðan þagnaði hann.
“En sagan –“ minnti strákurinn á.
“Ó, já. Jæja, endur fyrir löngu bænheyrði Paladine mikinn riddara að nafni Huma –“
“Áttu við Huma úr “Óðnum”?”
“Já, það er sá sami. Huma villtist í skóginum. Hann ráfaði og ráfaði um þar til hann var farinn að örvænta því hann hélt að hann myndi aldrei líta heimaland sitt aftur. Hann bað til Paladines um hjálp og þá birtist skyndilega hvítur hjörtur fyrir framan hann.”
“Skaut Huma hann?” spurði strákurinn.
“Hann ætlaði að gera það, en hjarta hans varnaði honum þess. Hann gat ekki skotið dýr sem var svo undursamlegt. Hjörturinn stökk í burtu. Síðan stoppaði hann og leit til baka á Huma, eins og hann væri að bíða. Huma byrjaði að fylgja honum eftir. Dag og nótt, elti hann hjörtinn þar til hann leiddi hann að heimalandi sínu. Hann þakkaði guðinum, Paladine –“
“Guðlast!” hrópaði reiðileg rödd. Stól var ýtt til.
Tanis lagði frá sér ölkrúsina og leit upp. Allir við borðið hættu að drekka og fylgdust með drukknum Háklerkinum.
“Guðlast!” Hederick ruggaði til á óstöðugum fótunum og benti á gamla manninn. “Trúvillingur! Að sspilla ungdómnum! Ég dreg þig fyrir rétth, gamli maðður.” Leitarinn féll aftur á bak, en staulaðist síðan aftur áfram. Hann leit yfir herbergið eins og hann ætti alla viðstadda. “Kallið á verðhina!” Hann benti drjúgur með sig. “Látið þá handtakha þhennan mann og þesssa konu fyrir að ssyngja klúrna söngva. Augljóslega norn! Ég gheri þennan shtaf upptæggan!”
Leitarinn skjögraði yfir gólfið í átt að villikonunni, sem starði á hann af viðbjóði. Hann teygði sig klaufalega í stafinn hennar.
“Nei,” sagði konan, sem kölluð var Goldmoon, rólega. “Ég á þetta. Þú mátt ekki taka það.”
“Norn!” Leitarinn glotti fyrirlitlega. “Ég er Háklerkurinn! Ég tek það sem mér sýnist.”
Hann byrjaði aftur að teygja sig í stafinn. Hinn hávaxni fylgdarmaður konunnar reis á fætur. “Dóttir höfðingjans bannar þér að taka stafinn,” sagði maðurinn óblíðlega. Hann hrinti Leitaranum aftur á bak.
Átak hávaxna mannsins var ekki mikið, en það varð til þess að drukkinn Háklerkurinn missti algjörlega jafnvægið. Hann baðaði út höndunum og reyndi að detta ekki. Hann valt fram á við – of langt – flækti fæturna í einkennisbúningnum sínum og datt á hausinn inn í logandi eldinn.
Það heyrðist þytur og eldurinn blossaði upp, síðan barst viðbjóðslegur daunn af brennandi holdi. Öskur Háklerksins rauf þögnina sem hafði myndast vegna undrunar allra viðstaddra, þegar ær maðurinn stökk á fætur og tók að snarsnúast í algjöru æðiskasti. Hann var orðinn lifandi kyndill!
Tanis og hinir sátu, ófærir um að hreyfa sig, lamaðir af geðshræringu vegna slyssins. Tasslehoff einn hafði rænu á því að hlaupa til hans, ákafur í að reyna að hjálpa manninum. En Háklerkurinn var öskrandi og baðaði út örmunum, en þar með glæddi hann eldinn sem var að læsa sig í föt hans og líkama. Það virtist útilokað að litli kenderinn gæti hjálpað honum.
“Hérna!” Gamli maðurinn greip fjaðraskreyttan staf villimannanna og rétti kendernum. “Sláðu hann þannig að hann detti. Þá getum við kæft eldinn.”
Tasslehoff tók við stafnum. Hann sveiflaði honum með öllum sínum kröftum og hitti Háklerkinn beint í bringuna. Maðurinn féll á gólfið. Það heyrðust andköf frá viðstöddum. Tasslehoff sjálfur stóð, gapandi, með stafinn klemmdan í höndunum og starði niður á þá ótrúlegu sjón sem við blasti við fætur hans.
Eldurinn hafði slokknað samstundis. Föt mannsins voru heil, óskemmd. Húð hans var bleik og heilbrigð. Hann settist upp, óttasleginn og undrandi. Hann starði niður á hendurnar á sér og fötin sín. Það voru engin ummerki um brunann á húð hans. Það logaði ekki hin minnsta glóð í fötum hans.
“Þetta læknaði hann!” tilkynnti gamli maðurinn hátt. “Stafurinn! Sjáiði stafinn!”
Tasslehoff leit á stafinn í höndunum á sér. Hann var gerður úr bláum kristal og lýsti með björtu bláu ljósi!
Gamli maðurinn byrjaði að hrópa. “Kallið á verðina! Handtakið kenderinn! Handtakið villimennina! Handtakið vini þeirra! Ég sá þau koma með þessum riddara.” Hann benti á Sturm.
“Hvað?” Tanis stökk á fætur. “Ertu eitthvað verri, gamli maður?”
“Kallið á verðina!” það voru fleiri farnir að hrópa og kalla. “Sáuði –? Blái kristalstafurinn? Við höfum fundið hann. Nú láta þeir okkur í friði. Kallið á verðina!”
Háklerkurinn staulaðist á fætur, fölur í framan en dálítið rauður. Villikonan og förunautur hennar stóðu upp, óttaslegin.
“Andstyggilega norn!” Rödd Hedericks titraði af bræði. “Þú hefur læknað mig með illu! Eins og ég brenn til að hreinsa hold mitt, munt þú brenna til að hreinsa sál þína!” Án frekari orða, teygði hann hendina út og, áður en nokkur gat stoppað hann, dýfði hann hendinni aftur inn í eldinn! Hann engdist af sársauka en rak ekki upp óp. Síðan hélt hann um brennda og svarta hendina, sneri sér við og staulaðist áfram, gegnum muldrandi þvöguna, með villtan ánægjusvip á sársaukafullu andlitinu.
“Þið verðið að koma ykkur héðan!” Tika kom hlaupandi til Tanis og náði varla andanum. “Allir í bænum eru búnir að vera að leita að þessum staf! Þessir hettuklæddu menn sögðu Háklerkinum að þeir myndu jafna Solace við jörðu ef upp kæmist að einhver væri að fela stafinn. Fólkið mun tvímælalaust segja til ykkar!”
“En þetta er ekki okkar stafur!” mótmælti Tanis. Hann hvessti augun á gamla manninn og sá hann koma sér aftur fyrir í stólnum sínum, með ánægjubros á andlitinu. Gamli maðurinn glotti til Tanis og veifaði.
“Heldurðu að þeir trúi ykkur?” Tika neri hendurnar í örvæntingu. “Sjáðu!”
Tanis leit í kringum sig. Fólk starði reiðilega á þau. Sumir tóku þétt um drykkjarkönnurnar sínar. Aðrir létu hendurnar leika um meðalkafla sverða sinna. Hróp og köll að neðan dró athygli hans aftur að vinum sínum.
“Verðirnir eru að koma!” hrópaði Tika upp yfir sig.
Tanis stóð upp. “Við verðum að fara út í gegnum eldhúsið.”
“Já!” Hún kinkaði kolli. “Þeir munu ekki leita þar inni strax. En flýtið ykkur samt. Þeir verða ekki lengi að umkringja staðinn.”
Það að hafa verið aðskildir um árabil hafði ekki haft áhrif á getu félaganna til að bregðast við hættu sem liðsheild. Caramon hafði sett á sig skínandi hjálminn, brugðið sverðinu sínu, komið föggum sínum fyrir á bakinu og var að hjálpa bróður sínum á fætur. Raistlin, með stafinn sinn í hendinni, var að færa sig í kringum borðið. Flint hélt á stríðsöxinni og gretti sig framan í áhorfendurna, sem virtust hika við að ráðast á svo vel vopnað lið. Sturm einn sat rólegur og hélt áfram að drekka ölið sitt.
“Sturm!” sagði Tanis eftirgangsharður. “Komdu! Við verðum að koma okkur héðan!”
“Flýja?” Riddarinn virtist undrandi. “Frá þessum lýð?”
“Já.” Tanis þagnaði; heiðursreglur riddaranna bannaði þeim að flýja frá hættu. Hann varð að sannfæra hann. “Þessi maður er ofsatrúarmaður, Sturm. Hann lætur líklega brenna okkur á báli! Og” – skyndileg hugdetta bjargaði honum – “það er kona sem þarf að verja.”
“Konan, auðvitað.” Sturm stóð upp þegar í stað og gekk yfir til konunnar. “Frú mín, til þjónustu reiðubúinn.” Hann hneigði sig; það var engin leið að fá hæverskan riddarann til að flýta sér. “Það lítur út fyrir að við höfum lent saman í þessu. Stafurinn þinn hefur komið okkur í töluverða hættu – ykkur sérstaklega. Við þekkjum svæðið hér í kring, við ólumst upp hérna. Þið, veit ég, eruð ókunnug. Okkur væri það heiður að fylgja yður og yðar hugprúða vini og verja líf ykkar.”
“Flýtið ykkur!” hvatti Tika þau áfram og togaði í handlegginn á Tanis. Caramon og Raistlin voru þegar komnir að eldhúsdyrunum.
“Sæktu kenderinn,” skipaði Tanis henni.
Tasslehoff stóð, fastur við gólfið og starði enn á stafinn. Hann var að dofna hratt og verða aftur venjulega brúnn á lit. Tika greip í hárlokkinn á Tas og byrjaði að toga hann í átt að eldhúsinu. Kenderinn æpti og missti stafinn.
Goldmoon flýtti sér að taka hann upp og hélt honum fast að sér. Þó að hún væri hrædd, var augnaráðið skýrt og stöðugt þegar hún leit á Sturm og Tanis; hún var greinilega að hugsa hratt. Fylgdarmaður hennar sagði eitthvað óblíðlega á þeirra eigin tungumáli. Hún hristi hausinn. Hann yggldi sig og sló hendinni til. Hún svaraði snöggt og hann þagnaði, myrkur í framan.
“Við munum fara með ykkur,” sagði Goldmoon við Sturm á samtungunni. “Þakka ykkur fyrir boðið.”
“Þessa leið!” Tanis smalaði þeim út í gegnum eldhúsdyrnar á eftir Tiku og Tas. Hann leit aftur fyrir sig og sá þvöguna þrengja að, án þess þó að fólkinu lægi neitt sérstaklega á.
Kokkurinn starði á þau þegar þau æddu í gegnum eldhúsið. Caramon og Raistlin stóðu við útganginn, sem var ekki meira en smá gat í gólfinu. Reipi var bundið í sterklega grein fyrir ofan gatið og hékk 12 metra niður á jörðina.
“Aha!” hrópaði Tas upp yfir sig, hlæjandi. “Það er þá hérna sem ölið kemur upp og ruslið fer niður.” Hann tók í reipið og klifraði niður áreynslulaust.
“Mér þykir fyrir þessu,” sagði Tika við Goldmoon, “en þetta er eina leiðin út héðan.”
“Ég get klifið niður reipi.” Síðan brosti konan og bætti við, “þó ég verði að viðurkenna að það er langt um liðið.”
Hún rétti félaga sínum stafinn og greip um þykkan kaðalinn.” Hún byrjaði að síga niður, með því að færa hendurnar niður til skiptis af leikni. Þegar hún var komin niður, fleygði félagi hennar stafnum niður, greip um reipið og lét sig síga í gegnum gatið.
“Hvernig kemst þú niður, Raist?” spurði Caramon, áhyggjufullur. “Ég get borið þig á bakinu –“
Augu Raistlins skutu gneistum af reiði sem kom Tanis á óvart. “Ég get komið mér niður sjálfur!” hvæsti galdramaðurinn. Áður en nokkur gat stoppað hann, steig hann fram á brún gatsins og stökk út í loftið. Allir tóku andköf og litu niður og bjuggust við að sjá leifarnar af Raistlin dreifðar út um allt. En í staðinn sáu þau unga galdramanninn svífa hægt og rólega niður, á meðan skikkjan hans flökti um hann. Kristallinn á stafnum hans lýsti skært.
“Hann lætur mig fá gæsahúð!” nöldraði Flint gremjulega við Tanis.
“Flýttu þér!” Tanis ýtti dvergnum áfram. Flint greip í kaðalinn. Caramon fór næstur og það brakaði í greininni sem reipið hékk í vegna þyngdar stóra mannsins.
“Ég fer síðastur,” sagði Sturm, með brugðið sverðið.
“Þá það.” Tanis vissi vel að það var tilgangslaust að mótmæla. Hann sveiflaði langboganum og örvamælinum yfir öxlina, greip um kaðalinn og byrjaði að klifra niður. Skyndilega missti hann takið. Hann rann niður kaðalinn án þess að geta með nokkru móti komið í veg fyrir að kaðallinn ryfi skinnið úr lófunum á honum. Hann lenti á jörðinni, kipptist til af sársauka og leit á hendurnar á sér. Lófarnir voru hruflaðir og blóðugir. En það var enginn tími til að hugsa um það. Hann leit upp og fylgdist með Sturm klifra niður reipið.
Andlit Tiku birtist í gatinu. “Farið heim til mín!” Hún myndaði orðin með munninum og benti á milli trjánna. Síðan var hún horfin.
“Ég rata,” sagði Tasslehoff, spenntur. “Eltið mig.”
Þau flýttu sér á eftir kendernum um leið og þau heyrðu verðina klífa stigann upp að gistihúsinu. Tanis, sem var óvanur að ganga á jörðinni í Solace, var fljótt áttavilltur. Hann sá trébrýrnar fyrir ofan sig og götulampana sem lýstu upp trjákrónurnar. Hann var alveg ruglaður í ríminu, en Tas hélt ótrauður áfram, inn á milli hinna geysimiklu trjábola vallenviðartrjánna. Hljóðin frá látunum á gistihúsinu dofnuðu.
“Við skulum fela okkur hjá Tiku í nótt,” hvíslaði Tanis að Sturm á meðan þeir brutust í gegnum kjarrið. “Ef ske kynni að einhver hafi borið kennsl á okkur og ákveðið að leita heima hjá okkur. Það verða allir búnir að gleyma þessu í fyrramálið. Við skulum fara með sléttufólkið heim til mín og leyfa þeim að hvíla sig í nokkra daga. Síðan getum við sent þau áfram til Haven til að tala við Ráð Leitaranna. Ég er jafnvel að hugsa um að fara með – ég er dálítið forvitinn um þennan staf.”
Sturm kinkaði kolli. Síðan leit hann á Tanis og brosti sínu fágæta, dapurlega brosi. “Velkominn heim,” sagði riddarinn.
“Sömuleiðis.” Hálfálfurinn glotti.
Skyndilega stoppuðu þeir báðir, því þeir klesstu á Caramon í myrkrinu.
“Ég held að við séum komin,” sagði Caramon.
Í ljósinu frá götulömpunum sem héngu á trjágreinunum, gátu þeir greint Tasslehoff þar sem hann var að klifra upp trjágreinarnar eins og ræsisdvergur. Þau hin fylgdu honum eftir, hægar, Caramon að hjálpa bróður sínum. Tanis gnísti tönnum af sársauka í höndunum og klifraði hægt upp í gegnum laufskrúða haustsins sem rýrnaði óðum. Tas lyfti sér upp yfir svalahandriðið með færni innbrotsþjófs. Kenderinn læddist yfir að dyrunum og leit upp og niður eftir brúnni. Hann sá engan og benti hinum að koma. Síðan sneri hann sér að lásnum og brosti með sjálfum sér af ánægju. Kenderinn tók eitthvað upp úr einni buddunni sinni. Eftir nokkrar sekúndur stóðu dyrnar að heimili Tiku galopnar.
“Gjöriði svo vel að ganga í bæinn,” sagði hann og þóttist vera gestgjafi.
Þau tróðu sér inn í litla húsið og hávaxinn villimaðurinn var tilneyddur að beygja sig til að reka sig ekki upp undir. Tas dró fyrir gluggana. Sturm fann stól fyrir dömuna, og hávaxni villimaðurinn tók sér stöðu við hlið hennar. Raistlin glæddi eldinn í arninum.
“Verum á verði,” sagði Tanis. Caramon kinkaði kolli. Stríðsmaðurinn hafði þegar tekið sér stöðu við gluggann og starði út í myrkrið. Birtan frá einum götulampanum barst inn í herbergið í gegnum gluggatjöldin, þannig að það mynduðust dimmir skuggar á veggjunum. Um drykklanga stund sagði enginn neitt, en þau horfðu hvert á annað.
Tanis fékk sér sæti. Hann sneri sér að konunni. “Blái kristalstafurinn,” sagði hann lágt. “Hann læknaði manninn. Hvernig?”
“Ég veit það ekki.” Hún hikaði. “Þ-það er aðeins stutt síðan ég fékk hann.”
Tanis leit niður á hendurnar sínar. Það blæddi enn úr þeim þar sem reipið hafði rifið skinnið. Hann rétti þær út til hennar. Rólega, föl í framan, snerti hún hann með stafnum. Hann byrjaði að lýsa bláu ljósi. Það fór fiðringur um Tanis. Blóðið þornaði og hvarf fyrir augunum á honum, húðin varð aftur slétt og ómeidd, sársaukinn linaðist og leið loks alveg úr honum.
“Sönn heilun!” sagði hann í aðdáun.
Einnig finnst mér að ég verði að senda ljóðið “Óður drekans” sem er fremst í bókinni með því að það er minnst á það í kaflanum. Enn vil ég taka fram að ég er ekki sá færasti í ljóðaþýðingum, en þetta verður að duga í bili.
Óður drekans
Hlýðið á sögumanninn þegar söngur hans fellur
eins og rigning himinsins eða tár,
og skolar árin, ryk margra frásagna
af hinni háu sögu Drekalensunnar.
Því að í upphafi alda,aftur fyrir minni eða orð,
í fyrsta blóma heimsins
þegar tunglin þrjú risu úr kjöltu skógarins,
háðu drekar, ógurlegir og máttugir,
stríð í þessarri veröld, Krynn.
Samt út úr myrkri drekanna,
vegna hrópa okkar á ljós
sem speglast í auðu yfirborði svarta tunglsins
skein falið ljós í Solamniu,
riddari sannleika og máttar,
sem kallaði niður guðina sjálfa
og smíðaði hina miklu Drekalensu, og stakk þannig sál
drekanna, og rak skugga vængja þeirra
frá ströndum Krynn, þar sem birti óðum.
Þannig fylgdi Huma, riddari Solamniu,
Ljósberi, Fyrsti Lensuriddari,
ljósinu að rótum Kalkhist fjallanna,
að steinfæti guðanna,
að hneigðri þögn hofs þeirra.
Hann kallaði niður Lensusmiðina, hann tók við
hinum óumræðanlega mætti þeirra til að sigrast á hinni óumræðanlegu illsku,
til að varpa hinu ólgandi myrkri
aftur ofan í kok drekans.
Paladine, hinn Mikli Guð hins góða,
lýsti við hlið Huma,
og styrkti lensuna í hinni sterku hægri hendi hans,
og Huma, upplýstur af þúsund tunglum,
rak burt Drottningu myrkursins,
rak burt hinn öskrandi herskara hennar
aftur til hins skynlausa ríki dauða, þar sem bölvanir þeirra
féllu á ekkert og aftur ekkert
djúpt fyrir neðan landið þar sem óðum birti.
Þannig endaði með látum Öld Drauma
og Öld Mikilfengleika tók við,
þegar Istar, konungsríki ljóss og sannleika, reis í austri,
þar sem hvítar og gylltar turnspírur
teygðu sig til sólarinnar og dýrðar sólarinnar
til að tilkynna fráhvarf hins illa,
og Istar, sem fóstraði hin löngu, góðu sumur,
skein eins og stjörnuhrap
á hinum hvíta himni réttlætisins.
Samt í fullri birtu sólarinnar
sá konungpresturinn í Istar skugga:
Á nóttunni sá hann trén sem hluti með rýtinga, árnar
dökknuðu og þykknuðu undir hinum þögula mána.
Hann leitaði í bókum að leiðum Huma,
að blöðum, merkjum og þulum
svo að hann gæti líka kallað guðina niður, gæti fengið
aðstoð þeirra við að ná sínum heilögu markmiðum,
gæti hreinsað veröldina af syndum.
Þá kom tími myrkurs og dauða
þegar guðirnir sneru baki við heiminum.
Fjall úr eldi lenti eins og halastjarna á Istar,
borgin klofnaði eins og hauskúpa í logunum,
fjöll spruttu upp úr áður víðum dölum,
sjór flæddi inn í grafir fjallanna,
eyðimerkurnar andvörpuðu á yfirgefnum botni sjávarins,
vegirnir á Krynn umbreyttust
og urðu vegir hinna dauðu.
Þannig hófst Öld Örvæntingar.
Göturnar voru í óreiðu.
Vindarnir og sandstormarnir dvöldu í rökkri borganna.
Slétturnar og fjöllin urðu aðsetur okkar.
Þegar gömlu guðirnir misstu mátt sinn,
fórum við að kalla upp í auðan himininn
inn í kalda klofnandi gráneskjuna til eyrna nýrra guða.
Himininn er rólegur, þögull, kyrr.
Við eigum enn eftir að heyra svar þeirra.
Svo var líka svona kynning á persónunum fremst í bókinni, á undan ljóðinu og það er kannski tímabært að láta hana fylgja.
Ólíklegur hetjuhópur…
Tanis Half-Elven, leiðtogi félaganna. Fær bardagamaður, sem fyrirlítur bardaga. Hann þjáist af ást á tveimur konum – hinni blóðheitu skylmingakonu, Kitiöru, og hinni heillandi álfamey, Laurönu.
Sturm Brightblade, riddari Solamniu. Riddararnir, sem voru eitt sinn heiðraðir á dögunum fyrir Syndaflóðið, hafa síðan þá fallið í ónáð. Takmark Sturms – sem er honum mikilvægara en lífið sjálft – er að endurvekja heiður riddarareglunnar.
Goldmoon, höfðingjadóttir, beri bláa kristalstafsins. Ást hennar á útlaganum, Riverwind, leiðir þau bæði á hættulegar slóðir í leit að sannleikanum.
Riverwind, sonarsonur Wanderers. Þegar hann hlaut bláa kristalstafinn í borg þar sem dauðinn flaug á svörtum vængjum, komst hann rétt svo lífs af. Og það var bara byrjunin…
Raistlin, tvíburbróðir Caramons, galdramaður. Þó að heilsa hans sé slæm, býr Raistlin yfir mætti umfram ungan aldur sinn. En myrkar ráðgátur leynast bak við undarleg augun.
Caramon, tvíburabróðir Raistlins, stríðsmaður. Hann er risi af manni að vera og er algjör andstæða tvíburabróður síns. Raistlin er sá sem honum þykir vænst um – og sá sem hann óttast mest.
Flint Fireforge, dvergur, bardagamaður. Hann er elsti vinur Taniss og lítur á þessi ungmenni sem “börnin sín”.
Tasslehoff Burrfoot, kender, “meðhöndlari”. Kenderar – plágukynþátturinn á Krynn – eru ónæmir fyrir ótta. Þar af leiðandi virðast vandræðin fylgja þeim hvert sem þeir fara.
Þessum átta er gefið tækifæri á að bjarga heiminum. En fyrst verða þau að læra að skilja sig sjálf – og hvert annað.